Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 17. nóvember 2017 - Gestaskrifari er Þuríður Elísdóttir, forstöðumaður Hrafnistu í Reykjanesbæ

 

Umskipti í lífi aldraðs einstaklings við að flytja á hjúkrunarheimili

 

Með hækkandi aldri breytast  ýmsir persónulegir, umhverfislegir og heilsufarslegir þættir í lífi aldraðs einstaklings sem leiða til flutnings á hjúkrunarheimili. Þegar boð kemur um pláss eru ýmsar tilfinningar sem bærast um í brjósti þessara einstaklinga. Tilfinningar eins og missir á heimili þar sem þau eru oft að flytja frá heimili sem þau hafa búið  á til margra ára. Missir á  eigum þar sem verið er að skipta upp innbúi þar sem einungis er hægt að flytja takmarkaðan húsbúnað með sér á hjúkrunarheimilið. Missir á frelsi þar sem íbúinn mun búa á heimili með öðru fólki og þarf að taka tillit til annarra. Einnig upplifa þau oft missi yfir  hlutverkum  sem þau höfðu áður. Missir á  lífsstíl þar sem aðstæður og umhverfi taka breytingum og missir á  fjölskyldu þar sem maki er oft enn heima þegar hinn aðilinn þarf að flytja á hjúkrunarheimili. Allt eru þetta eðlilegar tilfinningar sem íbúarnir okkar eru að upplifa og  sem við sem vinnum á hjúkrunarheimilum heyrum þá tala um. Streita og kvíði  tengt breytingum á umhverfi kemur líka fram í sumum tilfellum við þessi umskipti. Til þess að draga úr þessum tilfinningum og aðstoða íbúana við þessi umskipti og að aðlagast á nýja heimilinu er mikilvægt að starfsfólk geri allt sem í þeirra valdi stendur til að láta íbúunum líða vel og sýni þeim umhyggju og stuðning. Stuðningur okkar felst m.a. í reglulegu innliti  til íbúans án verklegra erinda og að gefa okkur tíma til að setjast niður og spjalla.

Öryggi skiptir íbúana okkar miklu máli og langar mig að deila með ykkur nýlegu dæmi úr okkar veruleika. Eins og allir vita þá er stefna stjórnvalda sú að allir eiga að  búa eins lengi heima og hægt er þangað til að sú þjónusta sem boðið er upp á , er  ekki nægjanleg til að sinna því eftirliti. Nýlega flutti til okkar íbúi sem hafði búið einn  í 11 ár. Hann er alsæll með þau umskipti að hafa fengið að koma í hjúkrunarrými og fá eftirlit allan sólarhringinn. Aðstandandi íbúans grét þegar hann sagði mér eftir sínum ástvini að hann  væri svo sæll þar sem núna gæti hann sofið á nóttunni. Hann sagðist ekki hafa áttað sig á því hvað það að upplifa öryggi skipti miklu máli.

Umhyggja í verki og orðum, bros,  gleði og samhugur eru þættir sem við umönnunaraðilar getum haft í huga og  sýnt íbúunum okkar til að aðstoða þá í aðlögunarferlinu að nýjum aðstæðum. Þessi atriði kosta ekkert og taka ekki langan tíma en geta skilað miklu til íbúa okkar og hjálpað þeim að aðlagast vel hjá okkur á hjúkrunarheimilum.

 

Með von um góða helgi.

Þuríður Ingibjörg Elísdóttir

Forstöðumaður Hrafnistu í Reykjanesbæ

 

 

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur