Leit

svæði efst í haus hægra megin

 Hrafnista á Workplace FacebookHrafnista á Facebook

 

 
 

Topp slide - reykjavik

Föstudagsmolar 27. október 2017 - Gestaskrifari er Lucia Lund, mannauðsstjóri Hrafnistuheimilanna

Starfsánægjukönnun

Síðasta vor var gerð könnun á viðhorfi starfsfólks til vinnunnar. Ýmsir þættir voru skoðaðir eins og ánægja í starfi, vinnuálag, endurgjöf, hrós og fleira. Búið er að vinna úr niðurstöðum og verið er að útbúa kynningar. Stefnt er að því að kynningum verði lokið fljótlega í byrjun næsta árs. Einnig var gerð könnun á viðhorfi sumarafleysingafólks og kom sú könnun vel út á öllum heimilum. Flestir sögðu að þeir hefðu fengið góðar móttökur og að þeir myndu mæla með Hrafnistu.

Markþjálfun

Á vormánuðum lærði ég markþjálfun. Námið var bæði skemmtilegt og ekki síður hvetjandi. Markþjálfun snýst um að leitalausna. Sjá skýrar hvar einstaklingur stendur og hvert hann stefnir. Hvað það er sem skiptir máli. Að setja sér markmið eða bara að sjá fleiri hliðar á einhverju máli.

Þetta er gert með samtalstækni þar sem markþjálfinn spyr spurninga og skapar rými sem á að auðvelda marksækjanda að finna sín eigin svör eða leiðir.

Hver kannast ekki við að vera að drukkna í vinnunni.  Að eiga erfitt með að klára verkefnin sín og að verða fyrir truflun. Að finnast maður ekkert muna og að vera oft þreyttur. Að vera heima en með hugann við vinnuna.

Þegar ég byrjaði í markþjálfun lærði ég hversu marga kosti ég hef og hvað ég er í raun dugleg. Ég lærði að það er mikilvægt að staldra við og velta hlutunum fyrir sér, sérstaklega með öðrum, og þá verða þeir oft merkilega einfaldir og skiljanlegir. Auðveldara verður að leysa verkefnin, heilinn fer að virka og verkefnin leysast eins og af sjálfu sér. Ég sé betur hvað skiptir máli og hverju ég þarf ekki að hafa áhyggjur af. Viðmót mitt til annarra er jákvæðara og betra og ég fæ það sama til baka. Ég er jú eins og ég er og miklu þægilegri í umgengni þegar ég leyfi kostum mínum að skína í gegn.

Í dag hitti ég tvisvar í mánuði markþjálfa og merkilegt nokk þá kem ég yfirleitt frá honum með nýja sýn eða hugmynd og það sem betra er, ég læt hana verða að veruleika. Ég nýt þess að greiða götur fólks og hjálpa til ef ég get. En ég veit líka betur hverju ég á að sleppa og nota frekar tímann til að líta upp og hlæja með mínu fólki. Þeim stundum hefur fjölgað mikið og vá hvað það er gaman.

Í dag má ég taka einstaklinga í markþjálfun og hef ég aðeins gert það í starfi mínu á Hrafnistu. Ég hef líka notað þessa tækni mikið í mínu starfi í dag þó ekki sé um beina markþjálfun að ræða.

Markþjálfun getur verið samtal inni á skrifstofunni eða á kaffihúsi. Hægt er að fara út að ganga og kryfja málin. Tíminn getur verið 20 mínútur eða 90 mínútur. Hægt er að velta fyrir sér einstaka málum eða setja sér markmið til lengri eða skemmri tíma. Ég tel að markþjálfun sé eitthvað sem flestir gætu haft gagn af.

Ef þú lokar augunum og veltir fyrir þér hvernig lífið er þegar það er upp á sitt besta, hvað sérðu? Hvað ertu að gera? Hvernig ganga hlutirnir fyrir sig? Hvernig líður þér þá? Það er örugglega hægt að finna ýmsar fyrirstöður til að komast þangað en það er líka hægt að finna leið þangað.

 

Lucia Lund,

Mannauðsstjóri Hrafnistuheimilanna

 

 

Til baka takki

Banners neðst á forsíðu 1

Happdrætti DAS 

 

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur