Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 29. september 2017 - Pétur Magnússon, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 29. september 2017.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

25 ára klúbburinn og starfsafmælisgjafakerfi Hrafnistu vekja athygli

Það var mikið um dýrðir í Hörpunni síðastliðinn föstudag þegar haldin var heiðursmóttaka fyrir það starfsfólk Hrafnistu sem starfað hefur hjá okkur í 25 ár eða lengur og eru/voru í starfi á árinu 2017. Það er gaman að segja frá því að nú á árinu 2017 eru það hvorki meira né minna en 43 einstaklingar sem hafa náð þessum áfanga og er það okkur sönn ánægja að fá að heiðra þessa einstaklinga. Því miður komust ekki allir til að vera með okkur en flestir þeirra hafa sent okkur góðar kveðjur.

Ruth Árnadóttir starfsmaður okkar í Reykjavík, sem er í þessum hópi en komst ekki í móttökuna, sendi til dæmis þessa kveðju:

Í Hörpu Hrafnistu teiti,

höldar buðu með skeyti,

gamlingjum öllum,

kellum og köllum

með tuttugu og fimm ára heiti.

 

Myndir frá mótttökunni eru komnar hér inn á heimasíðuna og óhætt er að segja að þessi veisla hafi tekist mjög vel.

Það er líka gaman er að segja frá því að þetta framtak okkar vakti verulega athygli Morgunblaðsins og mbl.is en Morgunblaðið fékk leyfi til að hafa bæði blaðamann og ljósmyndara í boðinu og afraksturinn varð sýnilegur strax daginn eftir  á baksíðu laugardagsblaðsins og á mbl.is. Mjög skemmtileg umfjöllun um Hrafnistu, boðið okkar og starfsafmælisgjafakerfið. Hvet ég ykkur til að lesa ef þið hafið ekki séð. Slóðin er hér:

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/09/23/heil_old_i_starfi_hja_hrafnistu/

 

Og fleiri jákvæðar fréttir um Hrafnistu

Það var ekki bara 25 ára klúbburinn sem kom Hrafnistu í fréttirnar í vikunni. Á þriðjudaginn voru heilar fjórar blaðsíður í Fréttablaðinu helgaðar umfjöllun um starfsemi Hrafnistuheimilanna. Þessi umfjöllun er hins vegar á mjög jákvæðum nótum og unnin í samvinnu við okkur á Hrafnistu í tilefni af 60 ára afmæli Hrafnistu Reykjavík og 40 ára afmæli Hrafnistu Hafnarfirði. Umfjöllunin er í formi stuttra viðtala og eru starfsmenn mismunandi deilda á mismunandi heimilum í forgrunni þó einnig sé viðtal við íbúa og aðstandanda. Því miður er það svo að í stóru fyrirtæki eins og okkar komast aðeins fáir að í stuttri umfjöllun sem þessari og ekki er hægt að fjalla um nærri allar deildir þó þær ættu sannarlega skilið að fá umfjöllun.

Gaman er að segja frá því að við höfum fengið gríðarmikil og jákvæð vibrögð bæði frá fólki sem tengist Hrafnistu en einnig ýmsum aðilum utan Hrafnistu. Þá er einmitt tilgangnum náð.

Ef þessi umfjöllun hefur farið framhjá ykkur eða bara þið viljið lesa aftur, eru þessar greinar aðgengilegar hér á heimasíðunni undir fréttunum.

 

Hafnarfjörður fékk svo einnig skemmtilega umfjöllun í síðustu viku þegar heil opna í Fjarðarpóstinum, öðru bæjarblaði Hafnarfjarðar, var tileinkuð því merka afreki þegar Hrafnista gersigraði bæjarstjórnina í Hafnarfirði í árlegri púttkeppni.

Umfjöllun Fjarðarpóstsins má finna á þessari slóð (bls 10-11).

https://issuu.com/fjardarpostur/docs/fp-21-09-2017-web

 

Bleikur október og bleiki dagurinn 13. október!

Október er mánuður Bleiku slaufunnar, árveknis- og fjáröflunarátaks Krabbameinsfélags Íslands gegn krabbameinum hjá konum. Á undanförnum árum höfum við hér á Hrafnistuheimilunum tekið þátt í átakinu af krafti; skreytt húsin og haldið formlega upp á bleika daginn með ýmsum hætti – til dæmis með því að hvetja fólk til að klæðast bleiku.

Þetta árið verður engin undantekning svo ég vil nota þetta tækifæri og hvetja ykkur til þess að fá fólk til að vera duglegt að taka þátt - ef þið eruð ekki þegar byrjuð að skreyta hjá ykkur.

Föstudagurinn 13. október hefur svo formlega verið lýstur „bleikur dagur“ hér á landi svo ég hvet ykkur til að sýna átakinu stuðning með því að klæðast bleiku þann dag.

Það er í höndum forstöðumanns á hverjum stað að útfæra bleika mánuðinn svo endilega snúið ykkur til forstöðumannsins ykkar ef upplýsingar vantar en átakið verður kynnt betur á hverjum stað þegar nær dregur.

Áfram bleik Hrafnista!

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur