Leit

social link

 

Topp slide - reykjavik

Föstudagsmolar 1. september 2017 - Pétur Magnússon, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 1. september 2017.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

Vitundarvakning Hrafnistu vekur athygli

Í gær fjallaði Morgunblaðið (með sínum hætti) um forvitnilega vitundarvakningu fyrir gesti heimilismanna, sem Hrafnistuheimilin hafa verið með í gangi í sumar og ég skrifaði um hér í pistli þann 18. ágúst s.l. Með aukinni notkun snjallsíma og miðlun mynda og myndabanda á samfélagsmiðlum þarf fólk auðvitað að hafa í huga að sýna nærgætni, virðingu og fyllstu tillitssemi þegar verið er að taka myndir, ekki síður en það sem fólk heyrir og sér um aðra íbúa í heimsóknum sínum. Þetta á við um öldrunarheimili, rétt eins og aðrar heilbrigðisstofnanir. Almennt sýnir fólk þessu fullan skilning og er þakklát fyrir að verið sé að vekja athygli á þessu. Visir.is fylgdi svo í kjölfar Morgunblaðsins sem sína útgáfu af fréttinni.

Það er í raun mjög gott að fjölmiðlar séu að fjalla um þetta (þó fyrirsagnir hefðu gjarnan mátt vera hófstilltari) en ég er sannfærður um að þetta gefur jákvæða ímynd af Hrafnistu og verður líka til þess að fólk hefur þessi mál frekar í huga.

 

Afmælisráðstefna Hrafnistu og Sjómannadagsráðs – 21. nóvember 2017.

Mér er ánægja að segja ykkur frá því að nú í nóvember munum við blása til glæsilegrar ráðstefnu vegna afmæla Hrafnistu og Sjómannadagsráðs á þessu ári. Ráðstefnan fer fram kl. 9:00 -16:00 þriðjudaginn 21. nóvember undir heitinu Lífsgæði aldraðra. Dagskrá ráðstefnunnar er nú í lokamótun en bæði forseti Íslands og heilbrigðisráðherra hafa boðað komu sína.

Ráðstefnan verður tvískipt og fer fram í Hörpu. Fyrir hádegi verður áherslan á starfsfólk í velferðar- og heilbrigðisþjónustu og er aðeins fyrir boðsgesti en eftir hádegi verður ráðstefnan opnuð fyrir almenning. Öllu starfsfólki Hrafnistu verður boðið á ráðstefnuna (ásamt ýmsum fleirum).

Ljóst er að ekki komast allir starfsmenn á ráðstefnuna en til þess að sem flestir komist sem áhuga hafa á að fara, verður keyrð sunnudagsopnun á öllum heimilum. Það þýðir meðal annars að ýmsar stoðdeildir geta lokað; t.d. dagdvalir.

Það er ágætt að taka daginn strax frá en stjórnendur hverrar deildar munu kynna fyrirkomulag á hverri deild þegar nær dregur.

 

Breytingar á læknaþjónustu tóku gildi á miðnætti.

Eins og kynnt hefur verið urðu nú á miðnætti, breytingar á Læknisþjónustu Hrafnistu í Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi. Þá létu læknar Hrafnistu formlega af störfum en fyrirtækið Heilsuvernd tekur við umsjón læknamálanna með sambærilegum hætti og verið hefur í Garðbæ um nokkurt skeið. Rétt er að geta þess að engar breytingar eru gerðar hjá okkur í Garðabæ eða heimilum okkar í Reykjanesbæ.

Sem betur fór það svo að læknarnir Pétur, Íris og Lýður verða áfram hér á Hrafnistu sem starfsmenn Heisluverndar en Tryggvi Egilsson og Kristinn Þorbergsson hverfa til annarra starfa og er þeim þakkað fyrir samstarfið.

Vel á að vera búið að kynna á viðeigandi deildum hið nýja fyrirkomulag og vonandi finna íbúar okkar lítið sem ekkert fyrir breytingunum.

 

Starfsafmæli í ágúst

Í ágústmánuði fögnuðu nokkrir úr hópi starfólks okkar formlegum starfsafmælum og fá þau afhentar viðeigandi gjafir af því tilefni. Þetta eru:

3 ára starfsafmæli: Gyða Rut Guðjónsdóttir í bókhalds- og launadeild og Bryndís Jónsdóttir í eldhúsi og Auður Ólafsdóttir á Bylgjuhrauni, báðar í Hafnarfirði. Einnig Daníel Kristinn Hilmarsson í Kópvogi.

5 ára starfsafmæli: Þorgerður Kr. Guðmundsdóttir iðjuþjálfi í Reykjavík og Erla Ólafsdóttir deildarstjóri sjúkraþjálfunar í Kópavogi og Garðabæ.

20 ára starfsafmæli:Kolbrún Kjartansdóttir hjúkrunarritari í Reykjavík.

 

Hjartanlega til hamingju öll og kærar þakkir fyrir tryggðina við Hrafnistu!

 

Ég vil að lokum óska okkar fólki í Reykjanesbænum gleðilegrar Ljósanætur og ykkur hinum góðrar helgar!

Bestu kveðjur,

Pétur

 

 

Til baka takki

Banners neðst á forsíðu 1

Happdrætti DAS