Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 25. ágúst 2017 - Gestaskrifari er Árdís Hulda Eiríksdóttir, forstöðumaður Hrafnistu í Hafnarfirði

25. ágúst, sumarið að líða undir lok, allt að komast í fastar skorður, skólar og leikskólar hafa hafið starfsemi sína á ný, flestir starfsmenn komnir aftur til starfa eftir sumarfrí og lífið gengur sinn vanagang eða hvað?

Hvernig er hann annars þessi vanagangur í vinnunni? Er það að stimpla sig inn í vinnu og út aftur í lok dags og gera hlutina bara eins og alltaf, af gömlum vana? Tæplega gengur það til lengdar í nútíma þjóðfélagi, miklar breytingar eiga sér stað og það er afar mikilvægt fyrir okkur í öldrunargeiranum að fylgjast vel með þróun og breytingum. Við erum meðal annars sífellt að skoða hvernig við getum nýtt okkur tæknina til að auðvelda okkur vinnuna og til að auka öryggi okkar skjólstæðinga. Stjórnendur og starfmenn Hrafnistu hafa verið duglegir að prufa sig áfram með tækni og öryggisbúnað. Meðal annars höfum við í samstarfi við aðstandendur og íbúa prufað  staðsetningarbúnað sem tengdur er í gsm síma, nýtist best þeim sem fara út úr húsi í gönguferð. Ferilvöktun, sem byggist á því að íbúar geta gengið frjálsir um húsið en ef þeir fara út úr húsi þá lætur kerfið vakthafandi starfsmenn vita. Eins höfum við nú virkjað öryggiskerfi á allar útihurðir, kerfið er þannig uppbyggt að sjálfvirkar læsingar sjá um að læsa hurðum á ákveðnum tíma á kvöldin, ef hins vegar hurðin er opnuð þá fer öryggiskerfi í gang og skilaboð berast starfsmönnum sem geta þá farið og kannað hver er ástæða þess að hurð var opnuð. Með þessu aukum við frjálsræði íbúanna okkar en tryggjum jafnframt öryggi þeirra. Þegar ég hóf störf í öldrunargeiranum fyrir um 30 árum síðan var ekkert til sem hét öryggismyndavél eða önnur tækni til að tryggja öryggi íbúanna, því var brugðið á það ráð að læsa flest öllum deildum, sem betur fer hefur tæknin gert okkur kleift að breyta þessu verklagi og hafa margir komið að orði við mig og líst ánægju sinni með þessa þróun mála.

Á vordögum var haldin ráðstefna FSÍÖ (Félag stjórnenda í öldrunarþjónustu), þar komu saman um 100 stjórnendur úr öldrunargeiranum af öllu landinu, mér fannst mjög ánægjulegt að sjá að á dagskrá voru tveir fyrirlestrar um velferðartækni. Það er sérlega gaman að sjá hvað hefur orðið mikil vakning í öldrunargeiranum og ekki síður skemmtilegt að sjá og finna hvað menn eru tilbúnir að deila þekkingunni og aðstoða hvern annan.

Það verður spennandi að sjá hvert velferðartæknin leiðir okkur næstu ár.

 

Góða helgi,

Árdís Hulda Eiríksdóttir,

forstöðumaður Hrafnistu Hafnarfirði

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur