Leit

social link

 

Topp slide - reykjavik

Föstudagsmolar 9. júní 2017 - Gestaskrifari er Dagný Jónsdóttir, deildarstjóri á Sólteig/Mánateig

Ég hóf störf hjá Hrafnistu í ágústmánuði 2004 þá nýútskrifaður sjúkraliði. Frá þeim tíma hef ég  starfað á þremur Hrafnistuheimilum við hin ýmsu störf. Í dag starfa ég sem deildarstjóri á 60 manna hjúkrunardeild á Hrafnistu í Reykjavík, Sólteig/Mánateig.

Ég hef verið svo lánsöm að kynnast frábæru samstarfsfólki og heimilisfólki í mínu starfi sem margir hverjir eiga stóran stað í hjarta mínu. Við tölum oft um Hrafnistu sem stóra fjölskyldu. Það er mikið til í því. Við gleðjumst saman og styðjum hvort annað og hlæjum saman og grátum. Á svona vinnustað er gott að vera skal ég segja ykkur. Þið sem starfið á Hrafnistu tengið líklega flest við þetta.

Tilgangur með starfi okkar allra á Hrafnistu er að veita heimilismönnum góða þjónustu á þeirra seinustu ævikvöldum. Við tökum á móti nýju heimilisfólki með útbreidda arma og bros á vör og hugsum eins vel um hvern og einn heimilismann eins og um ömmu okkar eða afa væri að ræða. Auðvitað tengist maður sumum meira en öðrum, þannig er það bara. Því taka kveðjustundirnar óneitanlega á en þær eru hluti af starfi okkar á Hrafnistu. Undanfarið höfum við að jafnaði kvatt tvo heimilismenn í hverjum mánuði. Það hefur mun meiri áhrif á okkur sem starfa á deildinni en við höldum og því er mikilvægt að styðja vel við hvort annað, ræða saman, leyfa okkur að gráta þegar hlutir verða erfiðir og muna eftir góðu stundunum.

Ég lít á það þannig að vera þakklát fyrir að fá að fylgja fólki sinn síðasta spöl í þessu lífi. Kveðjustundirnar eru farnar að vera tíðari vegna þess hve fólk er orðið veikt þegar það loks fær pláss á hjúkrunarheimili. Það stoppar stutt við. Flakkar jafnvel á milli margra staða áður en símtalið kemur um að pláss hafi losnað. Ég er lánsöm því ég fæ að hringja í fólk og segja þeim þau gleði tíðindi að þeirra nánasti aðstandandi sé kominn með heimili. Fólki finnst það hafa unnið í happdrætti! Sem er alveg rétt þar sem biðlistar eru langir og hjúkrunarpláss of fá. Hlátur, grátur og allskonar tillfinningar brjótast fram við þessi tíðindi en þó ríkir alltaf gleði yfir því að þeirra nánasti hefur fengið samastað. Flakkinu er þá lokið!

Samstarfsfélagi minn birti pistil um daginn á fésbókarsíðu sinni sem mig langar að deila með ykkur. Ég sjálf tengi vel við þessi skrif hennar og hef oftar en ég get talið fengið þessa spurningu sjálf.

Leyfi þessum pistli að eiga síðustu orðin, góða helgi!

 

Dagný Jónsdóttir, deildarstjóri Sólteigs/Mánateigs á Hrafnistu í Reykjavík.

 

Við hvað starfar þú?
Ég vinn á Hrafnistu.
Já ok, við að skeina gömlu fólki.

Þessa spurningu og þetta svar fékk ég ekki alls fyrir löngu. 

Það ætti að vera öllum hollt að prófa, þó ekki væri nema í viku að starfa við umönnun aldraða. Ég held að fólk geri sér ekki alveg grein fyrir þessu starfi. Hversu skemmtilegt, gefandi, erfitt, grátlegt og broslegt það er. Við erum að tala um það að ef ég tek dæmi þar sem 30 einstaklingar eru á deild. Enginn er eins. Allir með sína sögu, sínar venjur, sín áhugamál og sinn persónuleika. Mismunandi sjúkdómar, fötlun, heilabilun og þ.h. Allir hafa það þó sameiginlegt að þurfa að nærast, pissa, kúka, hlæja, gráta, tala, þegja, sofa, vaka…þessar grunnþarfir sem ALLIR hafa. Við sem störfum á hjúkrunarheimilum sjáum til þess eftir okkar bestu getu að öllum líði vel, að engum skorti neitt. Margir eiga góðar fjölskyldur en það eru líka margir sem eru ekki í góðu sambandi við sína nánustu eða eru jafnvel einstæðingar. Það eru dæmi um það að starfsmenn hafa farið og keypt nauðsynjar fyrir einstaklinga og borgað upp úr sínum vasa…Ekki það að launin séu svona há, þvert á móti heldur vegna þess að okkur er annt um einstaklingana og viljum vel. Við þekktum ekki einstaklinginn eins og hann var, en við þekkjum hann eins og hann er. Lífið endar hjá okkur öllum. Það er í okkar höndum að láta einstaklingnum líða sem allra best á síðustu metrunum. 

Enginn dagur er eins í okkar starfi. Hlutirnir breytast fljótt. Við dílum við allskonar fólk og allskonar ættingja. Við vinnum flest í vaktarvinnu, morgunvaktir, kvöldvaktir, næturvaktir og að sjálfsögðu helgarvaktir. Það er gríðarlegt álag oft á tíðum, bæði líkamlegt og andlegt. Það kemur oft fyrir að maður er gjörsamlega andlaus eftir vaktina…oftar en ekki. Ef ég ætti að þylja upp allt sem við gerum eða þurfum að þola að þá er það efni í doðrant. Því við erum að hugsa um einstaklinginn og hvað er honum fyrir bestu en flestum fylgir lífsins saga, fjölskylda og hellingur af allskonar sem við þurfum líka að hugsa um.

Það hafa starfsmenn gengið út eftir fyrstu vaktina og láta svo ekki sjá sig meir því þetta starf er alls ekki fyrir alla. En það hafa líka starfsmenn byrjað og elska þetta starf… svona eins og ég.
Mig langar að taka smá dæmi (já ég veit, ég veð úr einu í annað, en verð að koma þessu að þar sem þetta er staðreynd lífsins).

Hjá okkur er Jón sem er 92 ára. Hann kom til okkar í febrúar eftir að hafa verið fluttur á milli 6 staða frá áramótum (svona eins og þetta er í dag). Hann er illa áttaður eftir alla flutningana. Hann þarf alla aðstoð. Jón er lögfræðingur sem rak sitt eigið fyrirtæki, átti sitt einbýlishús og sinn bíl. Hann ferðaðist mikið enda skuldaði engum neitt og hafði mikið á milli handanna.
Hjá okkur er Sigríður sem er 92 ára eins og Jón. Sigríður kom til okkar einnig í febrúar en… heppin Sigríður, hún var einungis búin að vera á 3 stöðum frá áramótum. Sigríður er með heilabilun og þarf alla aðstoð eins og Jón. Sigríður vann við umönnun í 30 ár eða þangað til hún varð fimmtug en þá varð hún öryrki vegna bakmeiðsla og slitgigtar. Sigríður leigði íbúð alla tíð og varð að spara hverja krónu því ekki eru há launin við umönnun svo ég tali nú ekki um að vera öryrki.

Jón mjög efnaður, vel lærður og töluvert snobbaður.

Sigríður fátæk og hefur þurft að berjast fyrir lífinu.

En þau enda á sama stað….

Verum góð við náungan. Við vitum aldrei sögu einstaklingsins, hvað hann hefur gengið í gegnum…og það sem meira er…við erum ekkert betri!

Elísabet heiti ég og starfa sem sjúkraliði á Hrafnistu
– ég vinn við að skeina gömlu fólki.

 

 

 

Til baka takki

Banners neðst á forsíðu 1

Happdrætti DAS