Leit

social link

 

Topp slide - reykjavik

Föstudagsmolar 2. júní 2017 - Gestaskrifari er Hálfdan Henrysson, nýr stjórnarformaður Sjómannadagsráðs

Föstudagsmolar stjórnarformanns.

2. júní 2017.

 

Pétur Magnússon forstjóri Hrafnistu kom fyrir skömmu þeim tilmælum til mín hvort ég væri ekki tilbúinn til að taka að mér að skrifa föstudagspistil sem birtur yrði á netinu.

Mér rann nú blóðið til skyldunnar en fylltist kvíða þegar ég hugsaði meira til þessa verkefnis þar sem ég er nú ný tekinn við embætti sem formaður Sjómannadagsráðs höfuðborgarsvæðisins og hef kannski ekki frá mörgu að segja.

En hvað um það.  Við sjómenn látum nú venjulega slag standa og reynum að standa okkur við það sem við tökum okkur fyrir hendur.

Það vill svo til að ég ólst upp við nána tengingu við Sjómannadagsráð og Hrafnistu í Laugarási þar sem faðir minn var stjórnarformaður.  Venjulega þegar fór að vora og nálgast Sjómannadag  snérist heimili foreldranna meira og minna í að verða skrifstofa Sjómannadagsins með öllu því umstangi sem því fylgdi.  Þess utan voru stöðugar fjársafnanir kabarettsýningar, rekstur dýragarðs, happdrætti og  allt hugsanlegt sem hægt væri að nota til söfnunar fjár. Fé var m.a. lánað til hafnargerðar á Húsavík og til byggingar öldrunarheimilis í Hafnarfirði.

 Ég verð líka að minnast árlegrar merkjasölu sem fram fór á Sjómannadaginn.   Þá vorum við systkinin rekin út að selja merki.  Að selja eitthvað hefur nú aldrei átt sérstaklega vel við mig og ég held að árangur okkar systkinanna hafi verið dálítið misjafn eins og gengur.  Samt sem áður á ég bara ánægjulegar minningar sem snerta Sjómannadaginn nema þann fyrsta sem ég var á sjó árið 1960.  Ég var þá háseti 16 ára gamall á togaranum Marz frá Reykjavík.  Útvarpi frá hátíðahöldunum var útvarpað út á dekk um hátalara.  Það vildi svo til að faðir minn var að veita öldnum sjómönnum heiðursmerki og við hverja veitingu kastaði skipstjórinn í mig sykurmolum og kallaði „njóttu svo vel og lengi“ en það var orðatiltæki sem faðir minn viðhafði þegar búið var að næla heiðursmerkinu í viðkomandi.  Mér fannst þetta leiðinlegt en gerði náttúrulega ekkert í því.  Það var nefnilega þannig að pabbi hafði þá skoðun að við bræðurnir sem vorum fjórir yrðum ekki að mönnum fyrr en við hefðum lokið allavega einu sumri á síðutogara og við það var staðið. Það þýddi lítið að mótmæla þó maður væri kannski ekki alveg tilbúinn að fara til sjós á síðutogara.

Það vildi líka svo til að ég átti heima í nágrenni við Hrafnistu sem var í byggingu og eins og nærri má geta varð hún að leiksvæði okkar krakkanna í hverfinu.  Hrafnista var nú engin smá bygging á þessum tíma, örugglega með stærstu byggingum sem  þá voru í smíðum í Reykjavík.

Eins og oft hefur komið fram taldi Sjómannadagsráð að Laugarnes í Reykjavík hentaði vel sem framtíðarbyggingaland fyrir dvalarheimilið.  Helstu rökin voru að þá yrði hægt að koma upp bryggju fyrir vistmenn þar sem þeir gætu lagt bátum sínum  til að landa aflanum, ennfremur að koma mætti upp garðskika til að rækta grænmeti.  Nýmeti yrði þá alla jafna á borðum heimilisfólks a.m.k. að sumarlagi.

Þegar farið var að huga að byggingaframkvæmdum hófust umræður um hvernig hús ætti að reisa. Átti það að verða margra hæða eða jafnvel lágreist bygging með mörgum álmum. Rætt var um heilsufar væntanlegs heimilisfólks og skiptingu húsa í  ummönnunarhluta og síðan fyrir þá sem heilsuhraustir væru og gætu jafnframt stundað einhverja atvinnu.  Á gögnum frá þessum árum er helst að sjá að miðað skyldi  við frekar heilsuhraust fólk eins og nafn heimilisins  ber með sér.

 Í grein sem birtist í Sjómannadagsblaðinu 1946 eftir Hallgrím Jónsson vélstjóra mælist honum eftirfarandi. „Sjómannaheimilin og öldruðu sjómannshjónin sem lokið hafa dagsverkinu við að ala upp börn sín, verða í framtíðinni  undir sömu sök seld eigi síður en annað gamalt fólk. Fyrir því teldi ég rétt, að húsakostur heimilisins verði miðaður við þarfir hjóna eigi síður en einstaklinga. Það væri skemmtilegast að hugsa sér hvíldarheimilið einskonar nýlendu aldraðs fólks, þar sem því yrði séð fyrir ríflegu húsnæði og að nokkru stuðst við óskir þess og hve mikið það vill leggja af mörkum“.

Já þeir hugsuðu mikið um í hvaða framkvæmd þeir væru að leggja og hvernig bæri að haga henni með þarfir aldraðra í huga og á þeim tíma, sérstaklega sjómanna.

Allt er breytingum undirorpið,

Útgerðarmenn í Reykjvík munu hafa lagst gegn því að Laugarnes yrði lagt undir byggingar dvalarheimilis þar sem það væri hentugt undir framtíðarsvæði til fiskvinnslu og annarrar starfsemi tengda sjávarútvegi.  Féll bæjarstjórn Reykjavíkur þá frá þeim áætlunum að láta lóð undir dvalarheimili í Laugarnesi en bauð aðra lóð í staðinn þ.e. lóðina í Laugarási alls 6 ha. að stærð.  Um þetta nýja staðarval urðu deilur í Sjómannadagsráði enda augljóst að ekki yrði hægt að stunda þaðan útgerð a.m.k. erfitt og líklega væri staðurinn ekki hentugur til garðræktar.  Þetta er stórgrýtis holt var einhverjum að orði.

Mér er samt ekki grunlaust um að einhverjir hafi séð framtíð í stórgrýtisholtinu enda vart annar staður fegurri og víðsýnni í bæjarlandinu en Laugarás.

Þá var tekist á um gerð húsanna.  Í upphafi komu þrjár tegundir húsagerðar til greina. Margra hæða háhús. Lítil lág hús dreifð um lóðina og álmubyggingar með 2-3 hæða álmum.

Háhúsin eða byggingar allt að 12 hæða háar eða meira þykja ekki heppilegt byggingarform fyrir öldrunarheimili. Aðal ókosturinn er sá að þau verða kuldaleg og óheimilisleg og minni um of á  skrifstofuhúsnæði eða spítala eins og segir í upplýsingum frá þessum tíma.  Þriðja gerðin, álmubyggingarnar  með 1-3 hæða álmum, er millistig milli háhúsanna og smáhúsanna.  Þetta fyrirkomulag hefur gefist vel við byggingu húsa fyrir aldraða. Með þessu byggingaformi hefur þótt takast a.m.k. að verulegu leyti að útiloka þá leiðu tilfinningu að fólki finnist það búa á spítala eða öðru vélrænu húsbákni.

Með lágum álmubyggingum er hægt að skapa lífrænt samband við lóðina.  Álmurnar mynda skjól sem er aðalskilyrðið fyrir fögrum og fljótvöxnum gróðri ýmist í hornum eða opnum görðum.

Svo mörg voru þau orð. 

Við getum nú rætt um hvaða byggingarlag hefur þótt henta fyrir heimili aldraðs fólks fram til þessa og getum margt lært af reynslunni. Það kemur sér væntanlega vel þegar fljótlega á að hefja byggingarframkvæmdir á öðrum og væntanlega gróðursælli stað við Sléttuveg í Reykjavík.

Í þessum pistli hefur verið tæpt á nokkrum málum sem voru í deiglunni í árdaga Hrafnistu.  Nýjar og aðrar byggingar hafa fylgt á eftir. Af lestrinum má ljóst vera að fulltrúar í Sjómannadagsráði voru ekki alltaf á sama máli og tókust á um þau.  Stundum óvæginni  og sást þá ekki allt fyrir.  Margt af því sem rætt var um og komið hefur fram hér áður, hefur reynslan sýnt að menn voru ekki langt frá takmarkinu í upphafi.  Sumt hefur skeð með hraðari hætti en við var búist og svo mun alltaf verða.

Enginn byggir hús í þessum tilgangi nema hafa yfir að ráða hæfu starfsfólki á öllum sviðum.

Sjómannadagsráð hefur verið afar lánsamt með starfsfólk frá fyrstu tíð.  Hér hefur starfsfólk unnið af heilindum og ekki bugast þótt gefið hafi á bátinn.  Megi svo verða áfram okkur öllum til heilla.

 

Hálfdan Henrysson, stjórnarformaður Sjómannadagsráðs.

 

 

 

 

Til baka takki

Banners neðst á forsíðu 1

Happdrætti DAS