Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 27. janúar 2017 - Gestaskrifari er Harpa Björgvinsdóttir, deildarstjóri iðjuþjálfunar og félagsstarfs á Hrafnistu í Hafnarfirði

Fyrir tæpum sjö árum steig ég mín fyrstu spor inn á Hrafnistuheimili, þá sem nemi á 3ja ári í iðjuþjálfafræðum frá Háskólanum á Akureyri. Okkur nemum í iðjuþjálfun er ætlað að taka fjögur mislöng vettvangsnám í náminu, frá 4 vikum í upphafi náms upp í sjö og hálfa viku í lok náms. Öldrun er m.a. einn vettvangurinn sem að við þurfum að kynna okkur og þegar kom að vali mínu á vettvangsstöðum var ég, í fáfræði minni, ákveðin í að eyða sem skemmstum tíma innan öldrunar. Þvíá þessum tíma fannst mér þetta ekki vera nægilega spennandi vettvangur til að starfa á. Sennilega vegna þess að ég hafði lítið sem ekkert kynnt mér starfsemina og einu kynni mín við öldrunarheimili var þegar afi minn bjó á slíku heimili fyrir ansi mörgum árum, ég þá rétt um tvítugt og að mestu upptekin af sjálfri mér.

Ég mætti minn fyrsta dag í vettvangsnámið og fékk góðar móttökur og sýningaferð um húsnæðið, upplýsingar um hvernig starfsemi iðjuþjálfunar væri háttað innan Hrafnistu ásamt því að fá létta yfirferð yfir aðrar deildir heimilisins. Það kom mér allverulega á óvart hversu flott starfsemin var, hversu öflugt félagsstarfið var innan veggja heimilisins og hvað þjónustan var yfir höfuð frábær við íbúa heimilisins.       

Eftir þennan fyrsta dag minn í vettvangsnámi á Hrafnistu, verð ég að viðurkenna að hugurinn fór á flug og ég velti því fyrir mér hvort að mínar hugmyndir um öldrunarheimili væru kannski ekki á rökum reistar?Að ég hefði í alvörunni leyft mér að vera full af einhverjum hugmyndum um starfsemi öldrunarheimila sem áttu ekki við neina stoð að styðjast? Já Harpa mín, þú hafðir rangt fyrir þér og hugmyndir þínar voru ekki á rökum reistar! En verandi þverhaus af guðsnáð og Vestmannaeyingur í þokkabót, var ég ekki alveg tilbúin að gleypa við þessu fyrsta daginn en áttaði mig fljótlega þegar leið á vikuna að sennilega væri þetta bara sá vettvangur sem að ég gæti helst hugsað mér að starfa á.

Já batnandi mönnum er best að lifa og eftir að námi mínu lauk, pakkaði ég niður, flutti í bæinn og hóf störf hjá Hrafnistu í Hafnarfirði. Þar hef ég verið þeirri gæfu aðnjótandi að fá að þroskast í starfi með frábæru samstarfsfólki og yndislegu heimilisfólki. Ég hef lært svo ótal margt af fólkinu sem ég umgengst daglega í mínu starfi. Sú kynslóð sem býr á Hrafnistu er kynslóð sem hefur upplifað miklar breytingar á sinni ævi og hefur frá svo mörgu að segja, eins og t.d.árin sem sveitasíminn var við líði, upphaf rafmagns í íbúðarhúsum, kreppuárin, stríðsárin, þvottalaugarnar í Laugardalnum, fyrsta útvarpið og sjónvarpið á æskuheimilinu, engar sjónvarpsútsendingar á fimmtudögum og hvernig lífið og aðstæður þeirra breyttust þegar tæknibyltingin ruddi sér leið inn í líf okkar á ógnarhraða.

Mér finnst það forréttindi að fá að vinna hér með þessu fólki þar sem ég get nýtt menntun mína og þekkingu til að aðstoða við þann iðjuvanda sem þau glíma við með þeim ótal mörgu leiðum sem við getum boðið upp á hér á Hrafnistu.

Ég hlýt því að spyrja að lokum, er í alvörunni hægt að hugsa sér betri starfsvettvang?  Ég held ekki :-)

 

Harpa Björgvinsdóttir, deildarstjóri iðjuþjálfunar og félagsstarfs

Hrafnistu Hafnarfirði

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur