Leit

social link

 

Topp slide - reykjavik

Föstudagsmolar 9. desember 2016 - Pétur Magnússon, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 9. desember 2016.

 

Ágæta samstarfsfólk,

 

Upplifun danskra nema á Hrafnistu

Mig langar að deila með ykkur broti úr tölvupósti sem við í framkvæmdaráði Hrafnistu fengum frá Nönnu gæðastjóra vegna danskra nema sem hafa verið hjá okkur á Hrafnistu. Áhugaverð lesning, gaman að þessu:

 

Síðustu fjórar vikur höfum við haft danska nema í vinnustaðanámi á Hrafnistuheimilunum sem leggja stund á „social – and healthcare study“ við Social- og sundhedsskolen Frederica, í Vejle, Horsens. Nemarnir hafa verið í Boðaþingi og Hafnarfirði og halda heim á leið næstkomandi miðvikudag. Að auki voru tveir danskir nemar í sama námi frá Aarhus Social- og Sundhedsskole á Hrafnistu í Reykjavík í september sl. Námið þeirra er blanda af sjúkraliða- og félagsliðanámi og margir halda svo áfram í hjúkrunarfræði.

Ég spjalla alltaf við þá í upphafi dvalar og svo við lok dvalarinnar. Mig langaði því að deila með ykkur broti af upplifun nemanna sem er sammerk með þeim öllum.

Hér á Íslandi upplifa þeir að íbúar á Hrafnistu hafi það betra en íbúar á hjúkrunarheimilum í Danmörku. Ástæður þess séu m.a. að við hér á Hrafnistu gefum okkur meiri tíma til að spjalla við íbúana og sinna félagslegum þörfum þeirra. Þörfum eins og að láta þá líta vel út, greiða hár og svfrv. Einnig fannst þeim stórkostlegt að þeir sem kjósa að sofa lengur á morgnana geti gert það og borði þá bara morgunmat þegar þeir vakna eða ef þeir vakna t.d. kl. 11, þá sleppi þeir morgunmat og borði hádegismat. Rétt eins og við myndum sjálf gera heima hjá okkur.

Sú mikla virkni sem er í boði á Hrafnistu kom þeim verulega á óvart því í Danmörku sé málum ekki þannig háttað.

Nemarnir sem ég spjallaði við í morgun höfðu orð á því að íbúarnir okkar virtust almennt borða meira og hafa betri matarlyst en þeir áttu að venjast með hjúkrunaríbúa í Danmörku. Töldu umhverfið okkar stuðla að því.

Í Danmörku sé meiri hraði og lítill tími til að sinna félagslegum þörfum íbúa á hjúkrunarheimilum og sú þróun hafi verið að eiga sér stað síðustu 5 ár með minni mönnun. Fólk er drifið fram úr kl. 7 og allt gengur út á tímaplan starfsfólksins sem kemur svo niður á líðan íbúanna.

Að auki finna erlendu nemarnir sig mjög velkomna í starfsmannahópi Hrafnistu, þeir eru teknir með í það sem deildirnar eru að gera saman og upplifa sig hluta af hópnum frá fyrstu stundu.

Mig langaði bara til að koma þessari jákvæðu upplifun erlendu nemanna á framfæri við ykkur.

 

Jólin, jólin alls staðar

Nú er undirbúningur jólanna í hámarki hjá okkur. Fyrir flesta er þetta mjög skemmtilegur tími þó það reyni á þolinmæði og ýmislegt fleira hjá mörgum. Auðvitað er þetta ekki heldur auðveldur tími fyrir alla; getur rifjað upp erfiðar minningar og kallað fram sorgir. Við þurfum því að vera óvenju góð og þolinmóð hvert við annað og við íbúana okkar þessa dagana.

En auðvitað gleðjumst við. Minni ykkar á að kynna ykkur vel hvenær jólamáltíð Hrafnistu fer fram og þar með afhending jólagjafa frá Hrafnistu til starfsfólks sbr. neðangreint yfirlit en í hádeginu þessa daga er öllu starfsfólki viðkomandi heilmilis boðið í Purusteik og meðlæti:

Hlévangur: Jólahádegisverður og afhending gjafa til starfsfólks var í gær, fimmtudaginn 8. desember

Nesvellir: Jólahádegisverður og afhending gjafa til starfsfólks er í dag, föstudaginn 9. desember

Hafnarfjörður: Jólahádegisverður og afhending gjafa til starfsfólks er í dag, föstudaginn 9. desember. Allir hvattir til að klæðast einhverju rauðu!

Reykjavík: Jólahádegisverður og afhending gjafa til starfsfólks er í dag, föstudaginn 9. desember. Allir hvattir til að klæðast einhverju rauðu!

Kópavogur: Jólahádegisverður og afhending gjafa til starfsfólks verður föstudaginn 16. desember. Allir hvattir til að klæðast einhverju rauðu!

Starfsmannafélögin eru líka dugleg í kringum jólin; Reykjanesbær er nýbúinn að vera með partý með Páli Óskari, jólabingó og hlaðborð var hjá Reykjavík síðasta föstudag, Hafnarfjörður mun fjölmenna á tónleika Baggalúts í kvöld og á morgun fer vaskur hópur úr Kópavogi saman á jólahlaðborð á Hilton Nordica.

 

Hrafnista heldur svo jólaböll fyrir börn og barnabörn starfsfólks; annars vegar á Hrafnistu Hafnarfirði fyrir höfuðborgarsvæðið og hins vegar á Nesvöllum fyrir Reykjanesbæ - bið ykkur að kynna ykkur þau ef þið hafið áhuga en þátttaka hefur almennt verið góð.

Gaman að þessu!

 

Starfsafmæli í desember

Venju samkvæmt eru flottir aðilar úr starfsmannahópi okkar að fagna formlegu starfsafmæli sínu hér á Hrafnistuheimilunum. Þetta eru:

3 ára starfsafmæli:Matte Bjarni Karjalainen á Mánteigi í Reykjavík og  Sigríður Erla Friðgeirsdóttir í Kópavogi.

5 ára starfsafmæli:Marina Druzhinina á Vitatorgi og Guðrún Maríanna Pétursdóttir á Sjávar- og Ægishraun í Hafnarfirði.

Hjartanlega til hamingju öll og kærar þakkir fyrir ykkar dyggu störf fyrir Hrafnistu!

 

Góða helgi!

 

Bestu kveðjur,

Pétur

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Til baka takki

Banners neðst á forsíðu 1

Happdrætti DAS