Leit

social link

 

Föstudagsmolar 2. desember 2016 - Gestaskrifari er Nanna Guðný Sigurðardóttir, gæðastjóri Hrafnistu

Komið sæl og gleðilega aðventu!

Gæðamál eru hluti af starfi hvers einasta starfsmanns á Hrafnistuheimilunum en meginþættir gæða í heilbrigðisþjónustu eru öryggi, rétt tímasetning, skilvirk þjónusta, jafnræði, notendamiðuð þjónusta og árangursrík þjónusta (reglugerð 1148/2008). Í þessu skyni leggur Hrafnista mikinn metnað í að hafa gæðahandbók aðgengilega á hverri deild. Í henni eru verklagsreglur sem eiga að tryggja að meginþáttum gæða í heilbrigðisþjónustu sé framfylgt. Allir starfsmenn eiga að þekkja gæðahandbókina, hvar hana er að finna og geta leitað í henni að því efni sem þörf er á að nota hverju sinni. Gæðahandbókin er í stöðugri endurskoðun og reglulega verða til nýjar verklagsreglur og eldri endurnýjaðar. Nú nýverið var innri vef starfsmanna hleypt af stokkunum á heimasíðu Hrafnistu og er gæðahandbókin nú aðgengileg á innri vefnum í tímaritaformi. Það þýðir að hægt er að fletta upp blaðsíðum og leita eftir lykilorði en það eykur enn á aðgengi gæðahandbókarinnar. 

Fyrir utan reglulegar gæðaúttektir Heilbrigðissviðs Hrafnistu, þá fer einnig fram innra eftirlit á deildunum og sjá þá starfsmenn um að fylla út gátlista innra eftirlits mánaðarlega sem Heilbrigðissvið fylgir svo eftir. Þar sem framundan er jólamánuðurinn, langar mig núna til að fjalla sérstaklega um innra eftirlit eldvarna. Samkvæmt reglugerð 200/1994 um eigið eftirlit eigenda og forráðamanna með brunavörnum í atvinnuhúsnæði er fyrirtækjum skylt að halda úti reglulegu innra eftirliti eldvarna. Innra eftirlit eldvarna á Hrafnistuheimilunum gengur út á það að einu sinni í mánuði fer einn starfsmaður hverrar deildar um deildina sína og fyllir út gátlista sem byggður er á gátlista frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Við innra eftirlit eldvarna er skoðað hvort flóttaleiðir á deildinni séu greiðfærar, hvort grænu útljósin sem eru fyrir ofan útganga á deildinni séu logandi, hvort dyr út af deildinni séu opnanlegar innanfrá án lykils, hvort slökkvitæki, eldvarnateppi og brunaslöngur á deildinni séu aðgengilegar og í lagi, hvort brunahólfandi dyr á deildinni lokist hindrunarlaust og að lokum hvort reykskynjarar á deildinni séu virkir. Ef einhverjum atriðum á gátlistanum er ábótavant, þá verða þau skoðuð og unnið í úrbótum. Mig langar því að biðja alla starfsmenn að taka vel á móti gátlistanum um innra eftirlit eldvarna þegar þeir fá hann í sínar hendur og taka með því þátt í að efla öryggi og gæði á Hrafnistuheimilunum.

 

Nanna Guðný Sigurðardóttir gæðastjóri Hrafnistu

Til baka takki

Banners neðst á forsíðu 1

Happdrætti DAS