Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 19. ágúst 2016 - Pétur Magnússon forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 19. ágúst 2016.

 

Ágæta samstarfsfólk,

Húðflúrstofa á Hrafnistu?

Ein af skemmtilegustu fréttum þessa mánaðar var án efa héðan frá okkur á Hrafnistu þegar frægasti húðflúrari landsins, Fjölnir tattú, mætti með græjurnar sínar á Sólteig á Hrafnistu Reykjavík og húðflúðraði einn íbúann okkar. Þar með fékk okkar maður sitt fyrsta tattú 88 ára gamall í tilefni að miklu klifurafreki.

Alltaf gaman að að fá skemmtilegar fréttir um Hrafnistu í fjölmiðla. Ég heyri líka að þetta vekur mjög jákvæða athygli á Hrafnistu sem leiðandi aðila í öldrunarmálum enda þurfum við í öldrunarþjónustunni að aðlaga okkur að þeim sem við erum að þjónusta og koma til móts við óskir þeirra - svo það er alls ekki fjarri lagi að tattú-stofur verði á Hrafnistuheimilunum einhvern tímann í framtíðinni...

Tengil á fréttir um þetta má meðal annars finna á forsíðu heimasíðunnar okkar.

 

Tíðni andláta á hjúkrunarheimilum

Við hér á Hrafnistu erum það stór aðili í öldrunarþjónustu að út frá tölum okkar má oft gera nálganir fyrir landið í heild. Oft hefur verið rætt um fjölda andláta á hjúkrunarheimilum og fáum við fyrirspurnir um það frá ýmsum aðilum. Til fróðleiks reiknuðum við út ákveðin stuðul þó hann sé kannski ekki um mjög ánægjulegt umfjöllunarefni.

Niðurstaðan er sú að á hjúkrunarheimilum má almennt miða við að í hverjum mánuði deyja 2-3 einstaklingar miðað við hver 100 rými. Þetta má því yfirfæra og segja að á 50 rýma deild séu að jafnaði 1-2 andlát í hverjum mánuði.

Þessi tala mun án efa hækka á næstu árum þar sem nýjir einstaklingar sem innritast á hjúkrunarheimili eru sífellt veikari og veikari.

 

Endurbygging á þaki Hrafnistu Hafnarfirði frestast um ár.

Því miður þurftum við að taka þá ákvörðun á dögunum að fresta endurbótum á þaki Hrafnistu Hafnarfriði en þar stóð til að fara í umfangsmiklar endurbætur. Tvær ástæður eru fyrir þessu; annars vegar sökum þess hve framkvæmdasjóður aldraðra svaraði seint umsókn um styrk og hins vegar sökum þess að eina tilboðinu sem barst í verkið var hafnað þar sem það var langt yfir kostnaðaráætlun.

Verkið verður sett í útboð aftur í haust og munum við byrja verkið snemma í vor. Það sem við gerum hinsvegar fyrir veturinn er að fá verktaka til að fara yfir þakið mjög ítarlega og sjá til þess að ekki komi leki á þakið í vetur.

Auk þess er búið að laga loftræsikerfi hússins töluvert.

Verkefnið verður kynnt nánar síðar.

 

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur