Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 19. febrúar - Pétur Magnússon forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 19. febrúar 2016.

 

Glæsileg Þorrablót á Hrafnistuheimilunum – kærar þakkir!

Eftir mjög vel heppnuð þorrabót í Kópavogi, Reykjavík og Reykjanesbæ á undanförnum vikum var á föstudagskvöldið 5. febrúar síðastliðinn komið að risaþorrablóti hjá okkur - í Hafnarfirði - þar sem veislugestir gæddu sér á pungum, typpum og öðru konfekti sem fylgir þorranum.

Þessi Þorrablót okkar tókust mjög vel og fengu töluverða umfjöllun í fjölmiðlum. Hitt var þó mikilvægara að fólkið okkar var gríðarlega ánægt. Bæði í Reykjavík og Hafnarfirði, þar sem Laddi var veislustjóri, var haft á orði að blótin þetta árið væru í hópi þeirra allra bestu sem fram hefðu farið.

Nú er komið töluvert að skemmtilegum myndum inn á heimasíðuna okkar af öllum blótunum og er um að gera að fara og kíkja.

Mig langar að nota þetta tækifæri og þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóg við að gera þorrablótin okkar jafnglæsileg og raun bara vitni. Það er ekki bara starfsfólkið sem er sýnilegt í aðalborðsölum sem leggur mikið á sig heldur er mikið lagt á sig inn á öllum deildum við að gera blótin sem glæsilegust. Allt þetta krefst auka krafts, orku og vilja sem er ekki sjálfgefið að starfsfólk gefi af sér en fyrir það erum við mjög þakklát.

Þessar samkomur eru í raun alger skrautfjöður í hatt Hrafnistuheimilanna og þeir sem verða vitni að geta ekki annað en hrifist með af því góða og glæsilega starfi sem þarna er verið að vinna!

 

Dvalarrými senn úr sögunni á Hrafnistu?

Undanfarið hafa staðið yfir viðræður milli okkar og Velferðarráðuneytis um þá hugmynd að öll dvalarrými á Hrafinstuheimilunum (eru eingöngu í dag á Hrafnistu Reykjavík og Hrafnistu Hafnarfirði) leggist af og þau þeirra sem mögulegt er, muni breytast yfir í hjúkrunarrými. Þessi umræða kemur í framhaldi af niðurstöðum vinnuhóps hér innan Hrafnistu. Hópurinn hafði það markmið að greina og bera saman þá þjónustu sem verið er að veita hjá okkur í dvalarrýmum og hjúkrunarrýmum. Niðurstaðan var sú að umfang þjónustu og ýmsir kostnaðarliðir eru svipaðir hvort sem dvalar- eða hjúkrunarrými á í hlut. Hins vegar er það svo að daggjald dvalarrýmis er einungis 45% af daggjaldi hjúkrunarrýmis. Með öðrum orðum: það er greitt meira fyrir eitt hjúkrunarrými en tvö dvalarrými þó þjónustan og kostnaður við bæði þessi rými sé svipaður.

Velferðarráðuneytið hefur tekið vel í þessar hugmyndir okkar enda er mikill skortur á hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu um þessar mundir.

Við látum ykkur vita um leið og viðræðum líkur – og þá líka hvernig fer.

 

Ráðstefnudagur Hrafnistu - miðvikudagurinn 9. mars

Árið 2009 settum við í gang árlegan ráðstefnudag Hrafnistu, en verkefnið er fræðsludagskrá fyrir starfsfólk Hrafnistuheimilanna. Er þetta liður í að mæta aðalmarkmiðum Hrafnistu um að efla faglega þekkingu starfsfólks og auka starfsánægju. Ráðstefnudagurinn er haldinn samhliða á Hrafnistu í Reykjavík og Hafnarfirði.

Nú hefur verið ákveðið að ráðstefnudagur Hrafnistu 2016 verði haldinn miðvikudagin 9. mars.

Verið er að vinna í dagskránni en hún mun án efa verða hin glæsilegasta að vanda. Ég minni á að fólk getur valið sér fyrirlestra og gengið út og inn að vild. Jafnframt er rétt að hafa í huga að þeir sem koma á frídegi geta skráð sig hjá umsjónarmanni og fengið að taka frí í staðinn síðar. Ég minni ykkur ágætu stjórnendur, á að vera dugleg að hvetja starfsfólk til að nýta sér daginn! Dagskrá verður kynnt á næstu dögum.

 

Hrekkjavina-leikur Hrafnistu

Í dag lýkur hrekkja- vinaleiknum sem hefur verið í gangi í vikunni á flestum deildum allra Hrafnistuheimilanna. Leikurinn, sem er fyrst og fremst hugsaður fyrir starfsfólk Hrafnistuheimilanna (en íbúar verða stundum þáttakendur) er skemmtileg hefð sem hefur verið í gangi hjá okkur síðustu ár.

Markmiðið er að þjappa fólki saman og fá alla til að líta upp úr hversdagsleikanum með bros á vör.

Misjafnt er hvernig deildir útfæra leikinn en margir hafa þann háttinn á að nöfn starfsmanna deildarinnar eru sett í pott og hver og einn dregur sér sinn leynivin. Svo er það í höndum hvers og eins hvort að hann vilji hrekkja eða vera góður við sinn vin þá vikuna -  eða hvort tveggja.

Þessi vika er öllu jafna mjög lífleg og skemmtileg þar sem ýmislegt gerist. Nokkrar myndir frá leiknum munu koma hér inn á heimasíðuna í dag.

Ég vil þakka ykkur öllum fyrir þátttökuna en þessi leikur mun örugglega gera góða Hrafnistu ennþá betri :-)

 

Góða helgi!

 

Bestu kveðjur,

Pétur

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur