Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 8. janúar 2016 - Gestaskrifari er Guðmundur Hallvarðsson, formaður Sjómannadagsráðs

Ég hef oft orðið var við  og það kemur á stundum mönnum mjög á óvart að Sjómannadagsráð Höfuðborgarsvæðisins væri í annarri  og meiri starfsemi  en að sjá um  hátíðarhöld Sjómannadagsins. Auk þess að standa að og sjá um rekstur Happdrættis DAS, Hraunborga, Laugarásbíós  (sem nú er leigt út til Myndforms) Naustavarar, eignarhaldsfélag  sem á og leigir út 200 leiguíbúðir til eldri borgara, vegur rekstur Hrafnistuheimilanna hvað þyngst.

Eftir hátíðarhöld fyrsta Sjómannadagsins 6. júní 1938 tók Sjómannadagsráð (samtök 11 sjómannafélaga í Reykjavík og Hafnarfirði) þá ákvörðun að byggja hjúkrunarheimili fyrir aldraða farmenn og fiskimenn. Með tekjuafgangi hátíðarhalda Sjómannadagsins næstu árin, rekstri Happdrættis dvalarheimilis aldraðra sjómanna frá árinu 1954, reksturs Laugarásbíós 1957, þar sem hálfur matsalur Hrafnistu var tekinn undir sem sýningasalur, en nýtt kvikmyndahús er tekið í notkun 1960. Átján árum síðar frá  ákvarðanatöku Sjómannadagsráðs  um byggingu hjúkrunarheimilis, tók Hrafnista í Reykjavík til starfa á Sjómannadaginn 2. júní 1957. Rétt er að geta þess að fjársafnanir á vegum Sjómannadagsráðs til byggingar Hrafnistu voru margvíslegar t.d. Kabarett sýningar, dansleikir haldnir, meðal starfsfólks síldarsöltunarplana á landsbyggðinni,  áhafnir skipa, útgerðir fiskiskipa og kaupskipaútgerða, félagasamtök og einstaklingar. Með fjárframlögum þessa söfnunarátaks sem stóð frá árinu 1942 til 1964 var hægt að byggja 161 herbergi væntanlegra heimilismanna Hrafnistu í Reykavík.

Á 40. Sjómannadaginn 4. júní 1977 er hornsteinn lagður að Hrafnistu í Hafnarfirði og síðar það ár hefst starfsemi heimilisins. Erfiðlega gekk að fjármagna bygginguna en margir góðviljaðir aðilar, fyrirtæki, sveitarfélög, félagasamtök og einstaklingar komu þar að, en ríkisvaldið að litlu leiti. Fyrrverandi formaður Sjómannadagsráðs Pétur Sigurðsson mætti á yfir 200 fundi með fyrrnefndum aðilum til að tala máli þessara framkvæmda enda þá sem nú mikil vöntun á hjúkrunarrýmum fyrir eldri borgara.

Auk fyrrnefndra hjúkrunarheimila í eigu Sjómannadagsráðs er rekstur á þess vegum  í samstarfi við sveitarfélög, Hrafnistuheimilin í Boðaþingi Kópavogi, Nesvellir og Hlévangur Reykjanesbæ.  

Og þá í núið:  Ja hvílíkt rekstrarumhverfi eigenda og rekstraraðila hjúkrunarheimila hér á landi, sem þó stendur til bóta að ætla má, loksins eftir margra ára frestun löggjafans með aðkomu Sjúkratrygginga Íslands. Eða hvað?  

Árið 2008 voru sett lög um Sjúkratryggingar Íslands sem m.a. áttu að semja við hjúkrunarheimili um daggjöld og glögg skil þeirrar þjónustu sem þau áttu að veita skjólstæðingum sínum. Æ ofan í æ var þessu ákvæði laganna frestað þar til í upphafi ársins 2015. Samtök félaga í heilbrigðisþjónustu (SFH) og Sjúkratryggingar Íslands (SI) tóku upp viðræður og hefur málum nokkuð þokað áfram þótt mikið vanti enn inn í heildarmyndina, en fyrirhugað er að viðræður hefjist að nýju við lok þessa mánaðar. Heilbrigðisráðuneytinu hefur  ítrekað á undanförnum árum verið bent á rekstrarvanda hjúkrunarheimilanna við litlar undirtektir. Síðari hluta árs 2012 og á árinu 2013 var ráðuneytið ekki til viðræðu um fjármál hjúkrunarheimila, vegna væntanlegrar niðurstöðu ríkisenduskoðunar um tölulegar staðreyndir þess rekstrarvanda  sem hjúkrunarheimili landsins áttu við að etja.

Hver er hugur þeirra „sem erfa nú landið“ í garð eldri Íslendinga?

Í nóvember 2014 skilar ríkisendurskoðun skýrslu til Alþingis „Rekstrarafkoma og fjárhagsstaða hjúkrunarheimila á árinu 2013“   Þar segir m.a. „hjúkrunarheimilin voru á heildina litið rekin með:  1, 25 milljarða kr. halla á árinu 2013.“  Ekki er þá tekið tillit til húsaleigu né fyrninga.  Ekki sáust þess merki að ráðherrar eða alþingismenn hafi lesið skýrslu ríkisendurskoðunar fyrir fjárlagagerð ársins 2014 hvað þá fyrir árið 2015 og alls ekki tekið tillit til ábendinga ríkisendurskoðunar vegna fjárlagagerðar ársins 2016.  Ekki einu sinni stjórnarandstaðan. Alvarleiki málsins er sá, að enda þótt starfsfólk Sjúkratrygginga Íslands geri sér fulla grein fyrir því að samningar við SFH munu ekki nást nema daggjöld hækki verulega,  heilbrigðisráðherra lýsti því yfir á árinu 2014 að daggjöld til hjúkrunarheimila væri of lág sem næmi 9,5%, sjást þess hvergi merki í fjárlögum ársins 2016 að til standi að lagfæra rekstrarvanda hjúkrunarheimila.

Á árinu 2015 var fréttaflutningur af rekstrarvanda nokkurra hjúkrunarheimila sveitafélaganna, áður hafði hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð orðið gjaldþrota og ríkið tók þar yfir reksturinn.  Því miður eiga fleiri hjúkrunaheimili eftir að standa frammi fyrir enn einu hallarekstrarárinu  og allt útlit fyrir að ekkert verði aðhafst af hálfu þess opinbera, kannski talað út og suður. Embættismenn heilbrigðisráðuneytisins  munu væntanlega bæta við á heimasíðu ráðuneytisins nýrri  kröfulýsingu um stóraukna þjónustu hjúkrunarheimila, útgáfa nr. 3 eða 4, þar sem stjórnendur hjúkrunarheimila fá hvergi nærri að koma frekar en áður útgefnar kröfulýsingar.  Getur það verið, að verra heilsufarsástand þeirra öldruðu sem nú fá færni-og heilsufarsmat og fá inni á hjúkrunarheimilum muni leiða til þess að landlæknisembættið gefi út enn einhliða tilskipun til heimilanna í ljósi þessa ástands, og bæti við þær hjúkrunarstundir sem fyrir eru varðandi þjónustu við þá öldruðu? Stofnanaumgjörð ríkisins þ.e. embættismannavaldið skekur alvarlega rekstrarumhverfi hjúkrunarheimila hvort sem um er að ræða rekstur af hálfu frjálsra félagasamtaka, sjálfseignastofnana eða sveitarfélaga. Það er umhugsunarvert og áhyggjuefni hvers vegna þessum eina málaflokki, sem þó er ætlað um 25 milljörðum af fé skattborgara þessa lands í fjárlögum ársins 2016 hefur verið og er enn svo afskiptur af hálfu ríkisvaldsins sem raun ber vitni .

Hvað má verða til varnar svo góðu starfi sem starfsfólk Hrafnistu heimilanna hafa af sér leitt? Því miður verður það ekki gert með því afskiftaleysi sem stjórnvöld umliðinna ára og nú um þessar mundir hafa sýnt þessum málaflokki.

Fyrir hönd stjórnar þakka ég öllum stjórnendum og  starfsfólki fyrirtækja Sjómannadagsráðs fyrir gott og óeigingjarnt starf að málefnum eldri borgara og að markmiðum og stefnu Sjómanndagsráðs höfuðborgarsvæðisins.

Gæfuríkt árið 2016.

Guðmundur Hallvarðsson

Formaður Sjómannadagsráðs.     

 

   

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur