Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 4. desember 2015 - Gestaskrifari er Nanna Guðný Sigurðardóttir, gæðastjóri

Hrafnistuheimilin eru mjög mikilvægur hlekkur í þeirri þjónustukeðju sem öldruðum einstaklingum á Íslandi stendur til boða. Fyrir utan það að vera heimili einstaklinga í hjúkrunar- og dvalarrýmum eru á Hrafnistuheimilunum rekin skammtímarými eins og hvíldarrými og dagþjálfun/dagdvöl. Síðustu fimm árin eða fram á fyrsta ársfjórðung þessa árs stóð öldruðum einstaklingum sem búa í sjálfstæðri búsetu til boða að koma í þverfræðilega endurhæfingarinnlögn á Hrafnistu í Reykjavík með það að markmiði að eflast á sál og líkama. Um 20 rými var að ræða þar sem einstaklingar dvöldu í 4-8 vikur í senn. Í daglegum störfum sínum voru starfsmenn Hrafnistu meðvitaðir um gildi þessara skammtímainnlagna fyrir lang flesta þá einstaklinga sem þær sóttu og sáu árangur af þessu úrræði á hverjum degi. Þegar kom að því hjá mér að skrifa meistararannsókn í heilbrigðisvísindum við læknadeild Háskóla Íslands sl. vor langaði mig því til að kanna nánar árangurinn af endurhæfingarinnlögnunum. Leiðbeinendur mínir voru Sigrún Vala Björnsdóttir lektor við Háskóla Íslands og dr. Sólveig Ása Árnadóttir dósent við Háskóla Íslands. Í meistaranámsnefnd auk þeirra sat Tryggvi Egilsson lyf- og öldrunarlæknir sem m.a. starfar á Hrafnistu í Reykjavík.

Þverfræðileg endurhæfing er skilgreind þannig að teymi sérfræðinga í endurhæfingu heldur utan um hana, haldnir eru reglulegir teymisfundir og sífellt endurmat á árangri endurhæfingarinnar á sér stað. Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að mikill ávinningur er af þverfræðilegri endurhæfingu aldraðra á athafnagetu þeirra, þátttöku í daglegu lífi og samfélaginu, ótímabæran dauða og sjálfstæða búsetu.

Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hvort þverfræðileg endurhæfing á Hrafnistu í Reykjavík hefði í för með sér bætta færni í athöfnum. Einnig að kanna hvort færni og aðstæður við innlögn gætu spáð fyrir um árangurinn sem og að kanna afdrif þátttakenda.

Rannsóknin tók til þeirra einstaklinga sem höfðu dvalið í endurhæfingarinnlögn á Hrafnistu í Reykjavík á árunum 2011 – 2013 eða rúmlega 650 einstaklinga. Ég ákvað að einskorða mig við þá einstaklinga sem höfðu dvalið í 4-8 vikur í endurhæfingunni og því varð úrtakið 412 einstaklingar. Unnið var með fyrirliggjandi gögn úr sjúkraskrá þar sem um afturvirka rannsókn var að ræða auk upplýsinga frá Þjóðskrá Íslands um afdrif einstaklinganna einu ári eftir útskrift úr endurhæfingarinnlögninni. Þverfræðilegt endurhæfingarteymi fundaði vikulega og hélt utan um endurhæfinguna en í því voru læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraþjálfarar og iðjuþjálfar. Aðrir starfsmenn Hrafnistu tóku virkan þátt í endurhæfingunni á margvíslegan hátt. Endurhæfingin fólst í einstaklingsmiðuðu mati, greiningu og meðferð, ásamt hópþjálfun og félagsstarfi. Endurhæfingarteymið lagði til einstaklingsmiðaða útskriftaráætlun og vísaði einstaklingum í viðeigandi úrræði að endurhæfingardvöl lokinni.

Í þessari rannsókn var árangur endurhæfingarinnar metinn með athafnamiðuðum prófum; Berg jafnvægiskvarða, 30 m gönguprófi, 10 m gönguprófi, að standa upp og setjast 5x og stigagöngu. Í kjölfar endurhæfingarinnar bættu þátttakendur færni sína samkvæmt öllum athafnamiðuðum prófum. Það sem spáði fyrir um meiri framför við útskrift var lakari færni við innlögn á öllum athafnamiðuðum prófum, nema einu. Langflestir þátttakendanna (94%) útskrifuðust heim til sín að endurhæfingu lokinni og voru á lífi (88%) einu ári eftir útskrift.

Niðurstöðurnar benda því til að 4-8 vikna þverfræðileg endurhæfing fyrir aldraða á Hrafnistu í Reykjavík hafi bætt getu þeirra til athafna og stuðlað að áframhaldandi sjálfstæðri búsetu. Ljóst er að samstarf fjölmargra starfsmanna á Hrafnistu, hvort sem er í þjálfun, félagsstarfi, inni á deild í aðhlynningu, lækningum eða hjúkrun svo eitthvað sé nefnt hafi átt þátt í þessum árangri. Við höfum ekki alltaf tækifæri til að meta árangurinn af starfi okkar á þennan hátt en ljóst er að starfsmenn Hrafnistuheimilanna vinna mjög mikilvægt starf í þágu aldraðra á Íslandi og geta því verið stoltir af starfi sínu.

Nanna Guðný Sigurðardóttir

Gæðastjóri Hrafnistu

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur