Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 27. nóvember 2015 - Pétur Magnússon forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 27. nóvember 2015.

 

 

Ráðstefna um ofbeldi aldraðra

Í dag fór fram mjög áhugaverð ráðstefna á Grand hótel, um ofbeldi gagnvart öldruðum á Íslandi. Ráðstefnan var mjög vel sótt en alls sátu hana um 200 manns.

Ráðstefnan er samvinnuverkefni Öldrunarráðs Íslands og nokkurra aðildarfélaga Öldrunarráðs. Það vill svo til að síðustu ár hef ég fengið að gegna embætti formanns Öldrunarráðs en hugmydin að baki ráðstefnunnar byggir einmitt meðal annars á hugmyndum frá starfsfólki Hrafnistu um mikilvægi þess að fara ræða þessi mál á opinberum vettvangi.

Ýmislegt kom fram um ofbeldi og misnotkun gagnvart öldruðum, til dæmis að gerendurnir eru oft einhverjir nákomnir og þá er oft erfitt fyrir okkur heilbrigðisstarfsfólk að átta okkur á hvenær við eigum að stíga inn í mál og tilkynna um ofbeldið. Til fróðleiks er hér skilgreining á ofbeldi:

Ofbeldi gegn öldruðum er ýmisteinstök eða endurtekin athöfneða  skortur á athöfnum af hálfu þess/þeirra aðila sem hinn aldraði ætti að geta treyst. Þetta atferli gagnvart hinum aldraða veldur honum skaða eða andlegriþjáningu. Misnotkunin getur tekið á sig ýmsar myndir:líkamlegt ofbeldi, andlegt ofbeldi, kynferðislegt ofbeldi, fjárhagsleg misnotkuneða  virk/óvirk vanræksla.

Glærur fyrirlesara verða tiltækar á heimasíðu Öldrunarráðs, oldrunarrad.is næstu daga þar sem hægt verður að kynna sér málin betur. Svo er bara að vona að umræðan um þessi mál haldist gangandi og verði öldruðum til heilla.

 

Jólamatur starfsfólks Hrafnistu

Venju samkvæmt býður Hrafnista starfsfólki sínu til jólahádegisverðar rétt fyrir jólin. Allt starfsfólk er þar velkomið (auðvitað líka þeir sem eru ekki á vakt).

Margar deildir nota þetta tækifæri og afhenda jólagjafir Hrafnistu í leiðinni. Þessar jólamáltíðir verða auglýstar betur þegar nær dregur en endilega setjið dagsetningarnar á bak við eyrað:

Reykjavík og Hafnarfjöður – föstudagurinn 11. desember.

Hlévangur – fimmtudagurinn 17. desember.

Kópavogur og Nesvellir – föstudagurinn 18. desember.

Vonandi ná sem felstir að nýta sér þetta.

 

Fundað með trúnaðarmönnum

Á næstu tveimur vikum munum við Lucia, mannauðsstjóri, funda með trúnaðarmönnum Hrafnistuheimilanna, ásamt forstöðumanni á hverju heimili. Síðustu ár hefur skapast sá skemmtilegi siður að við boðum alla trúnaðarmenn á hverju heimili til fundar (alls 4 fundir) að vori og hausti. Tilefnið er ekkert sérstakt heldur er farið yfir það sem er á döfinni í „Hrafnistulífinu“ en einnig er gott að heyra í fólki um helstu málefni.

Það er mjög mikilvægt fyrir stórt fyrirtæki eins og okkar að hjá okkur sé virkt og öflugt net trúnaðarmanna. Það nýtist bæði starfsfólk og fyrirtækinu sjálfu.

 

Starfsafmæli í nóvember

Að venju eiga nokkrir aðilar í okkar glæsta starfsmannahópi, formleg starfsafmæli nú í nóvember. Þetta eru:

3 ára starfsafmæli: Guðný Þórunn Þórarinsdóttir og Katrín Heiða Jónsdóttir, báðar í Kópavogi.

5 ára starfsafmæli: Magnús Erlingsson og Anita Harðardóttir á Miklatorgi, Björk Konráðsdóttir í félagsstarfi og Daði Garðarsson á Mánateigi, öll í Reykjavík. Einnig Birgir Viðarsson í Umsjón fasteigna.

10 ára starfsafmæli: Marcin M. Kowalczyk í ræstingu í Reykjavík.

15 ára starfsafmæli: Margrét Brynjólfsdóttir á Báruhrauni í Hafnarfirði

Síðast en ekki síst á Ingibjörg Markúsdóttir á Mánateig í Reykjavík 25 ára starfsafmæli!

 

Hjartanlega til hamingju öll og kærar þakkir fyrir ykkar flottu störf í þágu Hrafnistu!

 

Góða helgi og gleðilega aðventu!

Pétur

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur