Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 20. nóvember 2015 - Gestaskrifari er Sveindís Skúladóttir, hjúkrunardeildarstjóri Hrafnistu Hlévangi

Brosum og hrósum

Í vikunni sem er að líða þá hittumst við stjórnendur Hrafnistuheimilanna á stjórnendadegi sem haldinn var í Boðaþingi í Kópavogi. Það var farið yfir ýmis praktísk atriði, auk áhugaverðra fyrirlestra um samskipti. Eftir þennan dag var það tvennt sem stóð uppúr í huga okkar, það er það að muna eftir því að brosa og hrósa.

Fólk virðist heldur láta vita af því fái það slæma þjónustu heldur en góða.

Hér kemur sönn saga af starfsmanni sem starfar á Nesvöllum. Hann er mjög ánægður með þjónustu sendibílstjórans sem kemur reglulega með vörur til þeirra og hafði hún hrósað honum fyrir einstaklega góða þjónustu, hvað hann væri jákvæður og með ríka þjónustulund.

Einnig vildi starfsmaðurinn koma þessu áleiðis til yfirmanns sendibílstjórans og hringdi því í flutningsfyrirtækið. Yfirmaðurinn sagðist aldrei áður hafa fengið svona símtal, en algengt væri að þurfa að leysa úr kvörtunum. Það þarf ekki að spyrja að því, þessu hrósi var vel tekið og bílstjórinn kom ljómandi til vinnu næsta dag. Það getur verið mikil áskorun fólgin í því að hrósa öðrum. Stundum þarf kjark til þess að ganga upp að næstu manneskju og hrósa henni fyrir hvað hún standi sig vel. Íslendingar sem eru komnir yfir miðjan aldur eru jafnvel ekki aldnir upp í „hrósmenningunni“ og þekkir því unga kynslóðin oft betur til þar.

Í okkar starfi þekkjum við það vel hve miklu eitt bros getur breytt. Brosið hefur einstaklega jákvæð áhrif, bæði fyrir þann sem brosið gefur og þann sem brosið fær.

Hrós og bros kosta ekki peninga, því skulum við vera óspör á það, æfingin skapar meistarann 

 

Ljóð Einars Benediktssonar verða lokaorðin:

 

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt

Sem dropi breytir veig heillar skálar

Þel getur snúizt við atorð eitt

Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Svo oft leyndist strengur í brjósti, sem brast

Við biturt andsvar, gefið án saka

Hve iðrar margt líf eitt augnakast

Sem aldrei verður tekið til baka

 

 

Sveindís Skúladóttir hjúkrunardeildarstjóri og Guðlaug Gunnarsdóttir aðstoðardeildarsjóri Hrafnistu Hlévangi

 

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur