Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 16. október 2015 - Pétur Magnússon forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 16. október 2015.

 

Það var aldeilis bleikt!

Mig langar að byrja á því að þakka öllum kærlega fyrir þátttökuna í “Bleika deginum” sem fram fór á öllum Hrafnistuheimilunum í dag en október er mánuður Bleiku slaufunnar, árveknis- og fjáröflunarátaks Krabbameinsfélags Íslands gegn krabbameini hjá konum. Í tilefni dagsins voru allir hvattir til að mæta í einhverju bleiku, bæði starfsfólk og íbúar.

Mér tókst að koma við á fjórum heimilum okkar í dag og alls staðar var hreint frábær þátttaka í deginum. Flestir voru klæddir í eitthvað bleikt og sumir tóku þetta alveg alla leið. Það er líka mjög gaman að sjá hversu margir hafa gefið sér tíma í skreyta deildir og húsin okkar af ýmsu tagi.

Það eru komnar skemmtilegar myndir hér inn á heimasíðuna frá flestum heimilum og endilega bætið við.

Þetta var mjög skemmtilegur dagur og gaman að sjá hvað þátttakan var mikil – en allt þetta er mikilvægur hlekkur í að gera góða Hrafnistu ennþá betri!

 

Heimsókn heilbrigðisráðherra í Hafnarfjörð

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, heimsótti Hrafnistu í Hafnarfirði í dag Hann stoppaði í tæpar tvær klukkustundir en hann hefur ekki áður komið á þetta stærsta öldrunarheimili landsins, a.m.k. ekki eftir að hann varð ráðherra. Eftir að hafa fundað með fulltrúum framkvæmdaráðs Hrafnistu gaf ráðherra sér tíma til að skoða heimilið og spjalla við íbúa og starfsfólk. Meðal annars var rætt um fyrirhugaðar breytingar sem þarf að fara að gera á húsnæðinu og herbergjum.

Mikilvægt er fyrir okkur, sem eina af allra stærstu heilbrigðisstofnun landsins að vera í góðu sambandi við þá sem ráða okkar málaflokkum, en ekki síður að vera dugleg að koma okkar frábæra starfi á framfæri við þessa aðila. Svo má ekki gleyma að ráðherrann sjálfur þarf væntanlega að þekkja vel til helstu aðila heilbrigðisþjónustunnar en Hafnarfjörður eru jú stærsta öldrunarheimili landsins. Vil ég þakka öllum sem hittu okkur fyrir góðar mótttökur en ráðherra var mjög ánægður með heimsóknina og það sem hann sá af okkar starfi.

Myndir úr heimsókninni eru væntanlegar innan skamms undir “fréttir” hér á heimasíðunni.

 

Um 50% ríkisútgjalda fer í heilbrigðis- og velferðarmál

Á dögunum sat ég mjög áhugaverða ráðstefnu sem bar yfirskriftina „Hver er réttur minn til heilbrigðisþjónustu?“ Þetta mál hefur verið ofarlega á baugi undanfarið, sérstaklega þar sem sjúklingur með lifarbólgu-C fór í mál við ríkið vegna þess að Landspítali hafði ekki fjárhagslegt bolmagn til að veita henni bestu fáanlega meðferð (mjög dýrt lyf) við sínum sjúkdómi. Sjúklingurinn tapaði málinu en óvæntar fréttir bárust nýlega þegar tilkynnt var að framleiðandi lyfsins myndi gera stóra rannsókn á lyfinu hér á landi og þar með gefa íslenskum sjúklingum lyfið.

Eftir stendur þó spurningin hver er réttur fólks til heilbrigðisþjónustu?

Málið var rætt út frá sjónahorni lögfræðinnar, heilbrigðiskerfisins (landlæknir) og siðfræðinnar. Samhljómur var um, að þó að stjórnarskrá væri nokkuð skýr, þá væru þessi mál á mjög gráu svæði í raunveruleikanum. Skýra þyrfti reglur um forgangsröðun og hvað við viljum – það væri algerlega nauðsynlegt.

Á ráðstefnunni kom einnig fram að að útgjöld til heilbrigðismála eru stærsti útgjaldaflokkur ríkisfjármála með 25% af öllum útgjöldum. Sé svo almannatryggingum og öðrum velferðarmálum bætt við, eru velferðar- og heilbrigðismál samtals um helmingur ríkisútgjalda. Það er því gríðarlega mikilvægt að hafa þennan málaflokk, sem Hrafnistuheimlin starfa í, eins skýran og markvissan og mögulegt er.

 

Starfsafmæli í október.

Að lokum er gaman að geta þeirra í okkar ágæta starfsmannahópi sem fagna formlegum starfsafmælum hjá okkur nú í október. Þetta eru reyndar óvenjufá afmæli að þessu sinni en alls ekki verri fyrir því:

3 ára starfsafmæli: Í Reykjavík eru það Sigrún Alda Kjærnested, verkstjóri í borðsal og Anna Baldursdóttir á Lækjartorgi. Í Hafnarfirði eru það Hrefna Ásmundsdóttir hjúkrunarfræðingur og Lovísa Anna Jóhannsdóttir á Báruhrauni.

5 ára starfsafmæli: Edda Jóna Jónasdóttir hjúkrunarfræðingur í Kópavogi og Aldís Emilía Gunnlaugsdóttir á Sólteigi í Reykjavík.

Hjartanlega til hamingju öll og kærar þakkir fyrir tryggðina við Hrafnistu!

 

Góða og gleðilega helgi!

Pétur

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur