Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 14. ágúst 2015 - Gestaskrifari er Sigurður Garðarsson, framkvæmdastjóri Sjómannadagsráðs

Stolt
Við sem störfum fyrir Sjómannadagsráð og félög þess höfum ákaflega margt til að vera stolt af. Þessi samtök félaga sjómanna hafa setið fast við sinn keip og haldið áfram á vegferð sem nú hefur staðið yfir í hartnær áttatíu ár. Félagið hefur staðið af sér fjármálakreppur, pólitískar breytingar, heimstyrjöld og gríðarlegar breytingar í samfélaginu svo eitthvað sér nefnt. Enn í dag er félagið á sömu vegferð og stjórn þess hittist reglulega til að fara yfir reksturinn og meta árangurinn af starfseminni. Við getum rétt ímyndað okkur hvort að einhverntíma á þessari áttatíu ára vegferð hafi ekki komið upp vandamál, eða málefni sem hefði gefið tilefni til að sveigja af þessari leið. En svo er aldeilis ekki, því hingað erum við komin í dag og við vinnum nú fyrir stærsta og öflugasta félag á landinu á sínu sviði, sem hefur það hlutverk að bæta lífsgæði aldraðra og vinna að málefnum sjómanna. 
 
Uppruninn
Við getum verið stolt af upprunanum. Sjómannadagsráð hefur ávallt verið og er enn þann dag í dag frumkvöðull í málefnum aldraðra á Íslandi. Ráðið var stofnað að frumkvæði sjómanna til þess að halda Sjómannadaginn hátíðlegan, en fljótlega var lögð fram stefnumótun fyrir félagið sem beindi því að því að veita öldruðum sjómönnum öruggt heimili og aðstöðu til að sinna léttri vinnu. Þetta var mikil nýbreytni á sínum tíma og lagði grunnin að hugmyndafræðinni sem er að baki rekstri Hrafnistuheimilanna.  Sjómannadagsráð er enn í dag að vinna samkvæmt þessari stefnu, sem felst í því að byggja upp heimili fyrir aldraða og að annast þá sem þurfa á aðstoð að halda. 
 
Látið verkin tala
Við getum verið stolt af því sem komið hefur verið í verk.  Fyrir rúmlega 60 árum var hornsteinn lagður að fyrstu byggingu félagsins á Hrafnistu í Reykjavík. Í kjölfarið hafa síðan Hrafnistuheimilin stækkað og þeim verið fjölgað.  Til að standa standa straum af þessari uppbyggingu hefur félagið staðið fyrir fjölda fjáröflunarverkefna auk þess sem það hefur þegið veglegar gjafir. Langstærsta fjáröflunarverkefnið er rekstur Happdrættis DAS, sem hefur séð félaginu fyrir reglulegum tekjum í meira en 60 ár. Síðasta nýsköpun Sjómannadagsráðs eru leiguíbúðir fyrir aldraða sem hafa verið reistar með beinni tengingu við hjúkrunarheimilin og þjónustuna sem þar er veitt. Þessu fylgir mikill ávinningur fyrir aldraða íbúa sem kjósa að búa sjálfstæðri búsetu sem byggir á samnýtingu helstu grunnþátta starfseminnar með Hrafnistu. Í dag búa um 1.200 eldri borgarar í sérhæfðu húsnæði á vegum Sjómannadagsráðs. Um helmingurinn á hjúkrunardeildum og í dvalarrýmum, aðrir í einka eða leiguíbúðum á vegum félagsins.
 
Stórt og öflugt félag
Sjómannadagsráð ásamt dótturfélögum þess er býsna stórt fyrirtæki á íslenskan mælikvarða. Heildarvelta þess á síðastliðnu ári var um 6 milljarðar króna og hafði þá vaxið um rúman milljarð frá fyrra ári. Hjá samstæðunni störfuðu um eitt þúsund starfsmenn í u.þ.b. 600 stöðugildum og eru félögin með starfsemi í fimm sveitarfélögum. Heildar eignir samstæðunnar eru metnar í bókhaldi á um 12 milljarða króna. Séu þessar stærðir bornar saman við stærstu fyrirtæki landins á lista Frjálsrar verslunar, þá stendur  Sjómannadagsráð sterkt í hópi 100 stærstu fyrirtækja landsins.
Ef öldrunarmál á landinu eru skoðuð sérstaklega þá sést glögglega að það eru frjáls félagasamtök eins og t.d. Sjómannadagsráð sem hafa dregið vagninn og staðið að uppbyggingu á aðstöðu fyrir aldraða. Sem dæmi um það má nefna að á höfuðborgarsvæðinu eru um 1.500 hjúkrunarrými í dag og um 80% þeirra eru í eigu fimm félagasamtaka, þar af er hlutur okkar um 40%. 
 
Áskorun
Nú búa um 24 þúsund aldraðir íbúar (67 ára og eldri) á höfuðborgarsvæðinu. Þegar Sjómannadagsráð mun fagna 100 ára afmæli sínu (sem verður eftir 22 ár) má gera ráð fyrir að aldraðir íbúar verði orðnir um 50 þúsund, eða tvöfallt fleiri en þeir eru í dag. Framundan eru því stór verkefni sem Sjómannadagsráð þarf að taka afstöðu til og þróa til framtíðar. Við þurfum að leggja okkar að marki við að finna lausnir sem geta tekið á móti tvöfallt fleira eldra fólki, veitt þeim búsetu sem hæfir þeirra lífstíl, aðstoða þau við athafnir dagslegs lífs í samræmi við óskir, og veitt þeim nauðsynlega umönnun í samræmi við þarfir. Það verður gaman að fá að takast á við þessa áskorun í samstarfi við allt það hæfa fólk sem nú starfar hjá fyrirtækinu.
 
Sigurður Garðarsson
Framkvæmdastjóri Sjómannadagsráðs
 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur