Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 27. mars 2020 - Pétur Magnússon, forstjóri

b_250_250_16777215_00_images_frettir_2019_molar-270320.jpeg

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 27. mars 2020.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

Hetjurnar á Hrafnistu!

Það er líklega að bera í bakkafullan lækinn að fara tala um óvenjulegt og fordæmalaust ástand í starfseminni okkar hér á Hrafnistu síðustu daga. Mig langar þó að nota þetta tækifæri og hrósa ykkur fyrir hreint magnað starf með fólkinu okkar undanfarið. Ekki nóg með að hjúkrunardeildir hafi sett upp markviss ferli til verndar íbúana okkar heldur hafa stoðdeildirnar okkar einnig náð að aðlaga starfið sitt svo eftir er tekið.

Það hefur hreint verið ótrúlegt að fylgjast með þessu. Það er ekki til nein verklagsregla eða kennslubók um hvernig dagleg starfsemi hjúkrunarheimila á að bregðast við faraldri sem þessum. Það eru því ný mál að koma upp á hverjum degi sem þarf að leysa. Allir virðast vera á tánum og eldmóður og kraftur við að leysa úr hlutunum er einstakur, hvort sem það er varðandi bókhaldið okkar eða almennt starf inn á hjúkrunardeildum. Meðfylgjandi mynd er einmitt af leikfimi á Hrafnistu Ísafold.

Ykkur til fróðleiks, þá tekur svo Neyðarstjórn Hrafnistu símafund með sýkingavarnastjóra (og fleirum) nánast daglega þannig að mál og viðfangsefni eru í sífelldri endurskoðun. Einnig er reglulega fundað með fulltrúum almannavarna og embættis landlæknis. Markmiðið er að hagsmunir íbúa og starfsfólks séu í forgrunni. Með hverjum deginum sem líður án þess að veiran sé komin inn á hjúkrunarheimilin erum við betur í stakk búin til að mæta málum ef þau koma upp. Ég veit þið eruð öll dugleg að fylgjast með tilkynningum sem koma reglulega um þessi mál frá Neyðarstjórn Hrafnistu eða öðrum aðilum og tileinka ykkur þau skilaboð.

Takmarkanir á heimsóknum reyna auðvitað mikið á íbúa og aðstandendur. Við höfum fengið mikil og jákvæð viðbrögð við þessum erfiðu ákvörðunum, þó fámennur, ósáttur hópur hafi fengið athygli í fjölmiðlum. Við sýnum slíku skilning en látum það ekki trufla almennt starf okkar; starfsfólk hjúkrunarheimila veit mjög vel um mikilvægi samvista aðstandenda og íbúa; það þarf ekkert að eyða mikilli orku í að fræða okkur um það - en jafnframt er gott að hafa í huga að takamarkanir á heimsóknum á hjúkrunarheimili og heilbrigðisstofnanir eru í flestum löndum í kringum okkur, t.d. Danmörku, svo þetta er ekkert séríslenskt fyrirbrigði eins og kannski einhverjir hafa látið í veðri vaka. Vonandi styttist þó í að við komumst í eðlilegt ástand aftur en þangað til höldum við áfram að vera dugleg að finna aðrar lausnir; með velferð fólksins okkar að leiðarljósi.

Enn og aftur ágæta samstarfsfólk – þið eigið eindregnar þakkir skildar fyrir ykkar merka starf á þessum óvenjulegu tímum. Ég er gríðarlega stoltur af ykkur!

Ef einhver efaðist um flottan starfsmannahóp á Hrafnistu, þá er sá efi löngu horfinn eftir síðustu daga – það eru sannarlega hetjur sem vinna á Hrafnistu!

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur