Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 6. mars 2020 - Pétur Magnússon, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 6. mars 2020.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

Föstudagsmolarnir á mánudegi þessa vikuna.

Af sérstökum ástæðum eru föstudagsmolarnir ansi seint á ferðinni og eru eiginlega mánudagsmolar. Fyrir viku síðan setti ég hér inn í molana frásögn af einum merkilegasta vinnudeginum í starfi mínu á þeim rúmu 12 árum sem ég hef stýrt Hrafnistuheimilunum, en þá opnuðum við nýtt 99 rýma hjúkrunarheimili við Hrafnistu Sléttvuegi í Fossvogi (mjög langþráð). Ekki grunaði mig þá að aðeins viku síðar yrði ég að taka einhverja óvenjulegustu ákvörðun í 60 ára sögu Hrafnistu en seinni partinn á föstudaginn tókneyðarstjórn Hrafnistu þá ákvörðun að loka öllum Hrafnistuheimilunum fyrir heimsóknum ættingja og annarra gesta þar til annað verður formlega tilkynnt. Var þetta gert í samráði við Sóttvarnarlækni og Landlækni eftir að Neyðarstigi almannavarna hefði verið lýst yfir fyrr um daginn.

Neyðarstigi var lýst yfir fyrr um daginn, þar sem staðfest var að smit vegna Kórónaveirunnar voru þá byrjuð að berast beint á milli einstaklinga í þjóðfélaginu. Hrafnista er lang stærsti aðilinn sem kemur að starfsemi hjúkrunarrýma hér á landi; starfrækjum nú átta hjúkrunarheimili í fimm sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og í Reykjanesbæ. Hjúkrunarrýmin eru alls um 800 og starfsfólk heimilanna tæplega 1.500. Það er því ljóst að aðgerð sem þessi hefur bein áhrif á daglegt líf þúsunda Íslendinga.

Hverjar eru ástæðurnar fyrir þessum aðgerðum?

Heilsa og velferð íbúanna okkar þarf alltaf að vera í forgangi og það er í raun ástæðan fyrir þessum aðgerðum sem eru án fordæma í sögunni.

Þar sem íbúar Hrafnistu, rétt eins og annarra hjúkrunarheimila eru flestir aldraðir og/eða með ýmsa undirliggjandi sjúkdóma eru þeir í sérstökum áhættuhóp tengt því að veikjast alvarlega af Kórónaveirunni. Leita þarf allra leiða til að draga úr þeirri hættu að íbúar heimilanna veikist af Kórónaveirunni. Því færri sem koma inn á heimilin því minni líkur á smiti.

Þetta er hins vegar þungbær ákvörðun sem er tekin að vel yfirlögðu ráði. Okkur þykir mjög leitt að þurfa að taka svo stóra ákvörðun, en þetta er gert með velferð íbúanna okkar að leiðarljósi og höfum við beðið fólk að sýna þessari ákvörðun virðingu og skilning. Það er ljóst að það getur reynst íbúa mjög erfitt að fá ekki heimsóknir frá ættingjum sínum og á sama hátt getur það reynst ættingjum íbúans mjög erfitt að heimsækja hann ekki.  Það er samt nauðsynlegt að grípa til þessara ráðstafana til að koma í veg fyrir að íbúi veikist af veirunni og eins geta smit borist frá ættingjum eins íbúa til annars íbúa.

Jafnframt hefur umferð allra annarra en nauðsynlegs starfsfólks á vakt, verið takmörkuð inn á Hrafnistuheimilin. Það á sem dæmi við um birgja með vörur, iðnarðarmenn og aðra sem þurfa að koma inn á heimilin og hafa verið gerðar sérstakar verklagsreglur í tengslum við slíka hópa.

Undantekningar til aðstandenda eru leyfðar og er þá leyst úr því sérstaklega.

Viðbrögð íbúa, ættingja og starfsfólks hvetja okkur áfram

Viðbrögð íbúa og ættingja hafa verið mikil síðan þessi ákvörðun var kynnt á föstudag.

Fólkið okkar hefur auðvitað fylgst vel með fréttum síðustu vikur og hefur töluverðar áhyggjur af málum, þó fáir hafi látið þetta raska ró sinni.

Margir hafa hringt eða sent tölvupóst. Almennt er fólk mjög ánægt með þessa ákvörðun og er að þakka okkur fyrir að hugsa svona vel um fólkið. Sumir íbúar hafa reyndar verið að hvetja okkur til að gera þetta alla síðustu viku og sérstakar þakkir höfum við fengið beint frá íbúunum sjálfum. Fólk er almennt að sýna þessu mikinn skilning með einhverjum örfáum undantekningum.

Áhrif á daglegt starf og þjónustu

Svona ákvörðun hefur auðvitað mikil áhrif á daglega þjónustu. Þegar heimsóknir leggjast af breytist auðvitað daglegt líf á hjúkrunarheimilum mjög mikið. Við höfum því verið að endurskipuleggja þætti eins og alla sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og félagsstarf sem nú þarf að sinna með öðrum hætti en á venjulegum degi.

Jafnframt höfum við verið að hvetja starfsfólk til að vera alveg sérstaklega duglegt að aðstoða íbúana okkar til að vera í nánu sambandi við ættingja og vini. Þar eru tilvalið að nýta sér einfalda hluti eins og myndsímtöl gegnum Messenger og Facetime sem flestir kunna á.

Þakklæti – þvílíkt fólk sem vinnur á Hrafnistu!

Það er eiginleg ekki hægt að fjalla um þessi mál öðruvísi en að fá að senda íbúum og aðstandendum þakklætiskveðjur fyrir hlý orð í garð starfsfólk Hrafnistu  Í fyrsta lagi er mikill léttir hvað nánast allir hafa tekið þessu vel og ótrúlega margir að þakka okkur fyrir með fallegum hætti. Í öðru lagi vil ég þakka starfsfólki á Hrafnistu og öðrum hjúkrunarheimilum fyrir jákvæð og markviss vinnubrögð í þessum erfiðu og í raun óvenjulegu aðstæðum. Það hefur verið hreint ótrúlegt að fylgjast með starfólki greiða úr þeim málum sem upp hafa komið. Þar eru mörg verkefnin sem þarf að leysa svo hlutir gangi upp og það eru hreint forréttindi að fá að vinna með starfsfólki sem vinnur lausnamiðað og fullt af eldhmóði þó alltaf með fólkið okkar í huga. Án þess að vera of yfirlýsingaglaður, þá vil ég samt segja að margir gætu lært af stjórnendum og starfsfólki Hrafnistu. Fjöldi upplýsingaskala, vinnureglna og tilmæla, hefur orðið til síðustu daga sem við munum búa vel að. Hafið heiður og þakkir skyldar.

Meðal annars vegna þeirra markvissu vinnubragða sem starfsfólk Hrafnistuheimilanna hefur verið að sýna undarfarið í tengslum við þessi mál, bauðst mér nú um helgina að vera gestur á daglegum upplýsingafundi Almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra fyrir fjölmiðla, þar sem farið er yfir stöðu mála á hverjum degi.

Þar sem ekki hefur verið farið í svona aðgerðir áður erum við stjórnendur hjúkrunarheimila að læra á ferlið og erum að meta stöðuna dag frá degi.

 

Góðar stundir!

Pétur

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur