Top header icons

COVID spurt og svarað Hrafnista á Facebook
 

Föstudagsmolar 7. febrúar 2020 - Gestahöfundur er Júlíana Einarsdóttir, mannauðssérfræðingur

 

Heilsuefling

Það eru langflestir meðvitaðir um mikilvægi hreyfingar enda einaf grunnstoðum góðrar heilsu ásamt svefni, næringu og andlegri heilsu. Fyrirtæki eru í auknum mæli að opna augun fyrir mikilvægi heilsueflandi vinnuumhverfis. Þar er helsta markmiðið að stuðla að betri heilsu og vellíðan starfsmanna á vinnustöðum. Með heilsueflandi vinnustöðum er reynt að bæta vinnuumhverfi, hvetja til virkrar þátttöku og þróunar og ekki síst stuðla að áframhaldandi þroska einstaklingsins.

Heilsueflandi vinnuumhverfi skilar ávinningi fyrir bæði starfsfólk og vinnustaðina, starfsfólki líður betur, slysa- og sjúkdómatíðni lækkar og starfsánægja eykst. Hagur fyrirtækja getur falist í færri veikindadögum hjá starfsfólki, minni starfsmannaveltu, meiri framleiðni og aukinni nýsköpun.

Í ljósi ofangreinds hafa allir hag af heilsueflingu innan vinnustaða. Hrafnista er þar engin undantekning en nýverið var stofnaður heilsueflinga hópur á workplace, „Heilsuefling“,  þar sem reynt er að miðla fræðslu og hvatningu til starfsfólks. Jafnframt höfum við ákveðið að taka þátt í stórum hreyfiáskorunum á borð við Lífshlaupið og Hjólað í vinnuna. Bæði til þess að hvetja fólk til aukinnar hreyfingar en jafnframt til þess að skapa stemningu bæði inn á hverju heimili fyrir sig  en einnig á milli heimila.

Lífshlaupið hófst s.l miðvikudag og stendur yfir til 25. febrúar. Skráning fór vel af stað og erum við á Hrafnistu með góða skráningu í samanburði við fyrirtæki af svipaðri stærðargráðu. Átakið hvetur fólk til þess að hreyfa sig daglega í a.m.k þrjátíu mínútur í senn. Margir tala um að það taki þrjár vikur að búa til nýjan vana en Lífshlaupið er einmitt þriggja vikna hreyfiáskorun og er því frábært fyrir þá sem ekki eru vanir að hreyfa sig að nota tækifærið til þess að gera hreyfingu að vana og vonandi lífstíl. Fyrir þá sem hreyfa sig reglulega er sniðugt að nýta átakið til þess að bæta sig enn frekar.

Markmiðið er ekki endilega að fólk skili sem flestum mínútum í hreyfingu alla daga heldur er þetta hvatning til þess að hreyfa sig reglulega og auka þannig líkurnar á því að fólk haldi áfram að átaki loknu. Hreyfingin þarf alls ekki að vera af mikilli ákefð heldur getur fólk valið sér það sem hentar hverjum og einum, svo sem gönguferðir, jóga, sund o.sfrv.

Við vonum innilega að starfsmenn taki virkan þátt, því bætt heilsa hefur svo sannrlega jákvæð áhrif á einstaklinga.

 

Júlíana Einarsdóttir, mannauðssérfræðingur á Hrafnistu.

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur