Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 17. janúar 2019 - Pétur Magnússon, forstjóri

b_250_250_16777215_00_images_frettir_2019_hjordis-osk.jpeg

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 17. janúar 2020.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

2020 er ár hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra

Eins og mörgum er kunnugt hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin tileinkað hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum árið 2020. Það er sjálfsagt að byrja mola dagsins á því að koma á framfæri hamingjuóskum af því tilefni enda hjúkrunarfræðingar fjölmennir og mikilvægir í starfsemi Hrafnistu. Það er líka skemmtilegt að þetta ár fylgi í kjölfarið á árinu 2019 þar sem haldið var upp á 100 ára afmæli hjúkrunar á Íslandi. Vegna alþjóða ársins er Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga með vitundarvakningarátak um hjúkrunarfræðina og störf þeirra. Gaman er að segja frá því að einn hjúkrunarfræðinganna í auglýsingum þessu tengdu er Hjördís Ósk Hjartardóttir, deildarstjóri á Sjávar- og Ægishrauni í Hraunvangnum. Ég rakst einmitt á risastóra mynd af henni í strætóskýli borgarinnar þar sem eftirfarandi tilvitnun var undir myndinni: „Það er hlutverk hjúkrunarfræðinga að sinna skjólstæðingum okkar frá vöggu til grafar.“ Hrafnista mun taka þátt í árinu og verður sú aðkoma kynnt betur síðar.

Gaman að þessu öllu – enn og aftur til hamingju kæru hjúkrunarfræðingar!

 

Fjögur biðrými á Hrafnistu Hraunvangi fyrir Hrafnistu Sléttuvegi

Heilbrigðisráðuneyti hefur veitt Hrafnistu Hraunvangi í Hafnarfirði, leyfi til rekstur fjögurra hjúkrunarbiðrýma frá og með deginum í dag og fram að opnun hjúkrunarheimilisins að Sléttuvegi. Biðrýmin eru eingöngu ætluð einstaklingum af Landspítala sem hafa færni- og heilsumat og eru á biðlista eftir varanlegu hjúkrunarrými á Sléttuvegi. Biðrýmin koma í stað dvalarrýma sem verið hafa í húsinu. Þessa dagana er verið að finna fólk í rýmin og flytur fólk inn í rýmin í dag og næstu daga.

 

Þorrablót á Hrafnistu

Á föstudaginn eftir viku er  bóndadagur, fyrsti dagur hins forna mánaðar, þorra. Þessi árstími er jafnan mjög skemmtilegur hér á Hrafnistu enda blótum við þorrann af miklum móð á öllum vígstöðvum. Fjörið hjá íbúunum okkar hefst strax í hádeginu á Bóndadag þegar Ísafold og Hlévangur ríða á vaðið með hádegisþorrablótum þar sem harmonikkuleikur, söngur og fleira verður til gamans ásamt matardásemdunum. Laugarás er svo um kvöldið með sitt blót og svo fylgja hin heimilin í kjölfarið. Ég ætla reyna að vera duglegur að kíkja við á blótunum, þó ég komist ekki á þau öll. Hvert þorrablót og dagskrá þeirra er auglýst á hverju heimili.

Ég hlakka til að sjá ykkur sem flest:

Föstudagur 24. janúar í hádeginu – Ísafold og Hlévangur

Föstudagur 24. janúar kl 17:30 – Laugarás

Föstudagur 31. janúar í hádeginu – Nesvellir og Skógarbær

Fimmtudagur 6. febrúar kl 17:30 – Hraunvangur

Föstudagur 7. febrúar í hádeginu – Boðaþingi

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur