Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 10. janúar 2019 - Pétur Magnússon, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 10. janúar 2020.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

Gleðilegt ár!

Mig langar að fá að byrja föstudagsmola þessa árs á því að þakka ykkur fyrir ánægjulegt og árangursríkt samstarf og skemmtilega samveru á árinu 2019. Þetta var magnað og stórskemmtilegt ár sem fer í sögubækur Hrafnistu-sögunnar fyrir margra hluta sakir. Jafnframt vil ég senda ykkur öllum sérstakt þakklæti fyrir ykkar framlag til Hrafnistu og aldraðra á liðnu ári.

Ég vona að allir hafi átt ánægjulegar stundir og komi vel undan hátíðunum.

Ég hlakka mikið til að takast á við árið 2020 með ykkur með það að leiðarljósi, eins og áður, að gera góða Hrafnistu ennþá betri, enda er af nógu að taka í spennandi verkefnum framundan!

 

Starfsafmæli í janúar

Í hverjum mánuði á hópur starfsmanna formleg starfsafmæli hér hjá okkur á Hrafnistu og fá allir afhentar starfsafmælisgjafir í samræmi við það. Í janúar eiga eftirfarandi starfsmenn starfsafmæli.

3 ára starfsafmæli: Í Hraunvangi eru það Petra Ingvarsdóttir á Báruhrauni og Ólöf Ásgeirsdóttir sjúkraþjálfari. Á Hrafnistu Nesvöllum í Reykjanesbæ eru það Júlía Sólimann Ólafsdóttir, Weronika Justyna Skibinska, Astrid María Dahl Reynisdóttir og Thon Nganpanya allar starfandi á hjúkrunardeildum og Berglind Hulda Jónsdóttir í iðjuþjálfun.

5 ára starfsafmæli: Andrea Ósk Sigurðardóttir á Bylgjuhrauni og Ragnheiður Jónsdóttir á Báruhrauni, báðar á Hrafnistu í Hraunvangi.

10 ára starfsafmæli: Jónína Gísladóttir í verslun Hrafnistu Hraunvangi.

15 ára starfsafmæli: Vigdís Greipsdóttir í þvottahúsi Hrafnistu í Laugarási.

Til hamingju öll með starfsafmælið og hjartans þakkir fyrir góð störf í þágu Hrafnistu.

 

10 starfsmenn komnir til starfa á Sléttuvegi

Það styttist heldur betur í opnun áttunda Hrafnistuheimilisins, sem staðsett verður á Sléttuvegi í Fossvogi – bara 2 mánuðir til stefnu.

Nú um áramótin hófu sjö nýjir starfsmenn störf við undirbúninginn enda af mörgu af taka. Þessi hópur bætist við þá þrjá stjórnendur sem þegar höfðu byrjað hjá okkur á síðasta ári við undirbúning. Í byrjun febrúar kemur svo stór hópur fólks til starfa en mörg handtök þarf að vinna áður en fyrstu íbúarnir flytja inn.

Ennþá á eftir að ráða töluvert af starfsfólki, þó ráðningar gangi vel, svo endilega hafið augun opin fyrir áhugasömu fólki og hvetjið þau til að sækja um á þessu nýja og spennandi hjúkrunarheimili ⯑

 

Hrafnista í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum

Við á Hrafnistuheimilunum fáum oft beiðnir frá ýmsum aðilum um að fá að taka upp atriði fyrir fréttir, í sjónvarpsþætti, auglýsingar og kvikmyndir á einhverjum Hrafnistuheimilanna og á hverju ári eru nokkur slík verkefni í gangi. Yfirleitt tökum við vel í þetta ef hægt er, sérstaklega þegar einhverjir íbúar okkar eru nýttir sem aukaleikarar sem er yfirleitt mjög skemmtilegt fyrir alla.

Sem dæmi má nefna að á Þorláksmessu kíktu margir fjölmiðlar í heimsókn í nýja eldhúsið okkar enda eldar Hrafnista um hálft tonn af skötu og saltfiski á þessum degi, líklega einna mest allra í landinu. Glæstur hópur íbúa í Laugarásnum lék svo í einu atriði áramótaskaupsins sem tekið var upp í Skálafelli. Þó atriðið hafi verið stutt, tók marga klukkutíma að taka það upp. Um 20 manna hópur frá RÚV mætti vegna atriðisins; leikarar, tækinimenn, myndatökufólk, aðstoðarfólk, leikstjóri o.fl.

Um síðstu helgi var svo frumsýnd ný íslensk kvikmynd, Gullregn, en hluti myndarinnar er tekin upp á Hrafnistu í Hraunvangi og höfum við fengið sérstakar þakkir frá kvikmyndargerðarfólkinu vegna góðs samstarfs. Eftir nokkrar vikur verður einmitt íslensk kvikmynd tekin þar upp og standa yfir viðræður um fyrirkomulag á því þessa dagana. Þetta er bara skemmtilegt og lífgar upp á Hrafnistulífið.

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur