Top header icons

COVID spurt og svarað Hrafnista á Facebook
 

Föstudagsmolar 8. nóvember 2019 - Pétur Magnússon, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 8. nóvember 2019.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

Starfsafmæli í nóvember

Í hverjum mánuði á hópur starfsmanna formleg starfsafmæli hér hjá okkur á Hrafnistu og fá allir afhentar starfsafmælisgjafir í samræmi við það. Í nóvember eiga eftirfarandi starfsmenn starfsafmæli:

3 ára starfsafmæli: Suzette Ósk Caballa, Guðný Inga Guðbjörnsdóttir og Tinna McKaylee Atkins á Sól-/Mánateig og Elena Titova á Lækjartorgi allar í Laugarási. Í Hraunvangi eru það Steina Borghildur Níelsdóttir og Bjarnhildur M. Sigurðardóttir á Báruhrauni, María Selma Haseta á Bylgjuhrauni, Kristín Thomsen í iðjuþjálfun og Lovísa Lýðsdóttir á Ölduhrauni.  Í Boðaþingi er það Álfhildur R. Halldórsdóttir.

5 ára starfsafmæli: Í Laugarási eru það Sigrún Helgadóttir og Hjördís Lilja Sveinsdóttir á Sól-/Mánateig, Anna Garbarczyk á Lækjartorgi, Ellen Apale Hermosilla á Vitatorgi og Eva Snæbjarnardóttir á Viðey dagþjálfun. Erlendur Guðnason iðnaðarmaður á Nesvöllum og Guðrún Snæbjört Þoroddsdóttir aðstoðardeildarstjóri á Hlévangi

15 ára starfsafmæli: Crisley J. De La Cruz á Miklatorgi í Laugarási og Bergdís A. Kristjánsdóttir á Sjávar-/Ægishrauni í Hraunvangi.

Til hamingju öll með starfsafmælið og hjartans þakkir fyrir góð störf í þágu Hrafnistu!

 

Jólagjöf Hrafnistu til starfsfólks

Mig langaði að segja ykkur frá því að jólagjöf Hrafnistu til ykkar starfsfólks verður með svipuðum hætti og í fyrra og kynna gjöfina fyrir ykkur. Í fyrra gerðum við smávægilegar breytingar sem mæltust vel fyrir og ákveðið hefur verið að halda áfram á sömu braut.

Þeir sem eru í 30% starfi eða meira fá gjafakort í Kringluna. Upphæð gjafakortsins er 7.500 kr og hefur þessi gjöf mælst vel fyrir síðustu ár. Rétt er að taka fram að gjafakort í Kringluna eru valin fram yfir hefðbundin gjafakort í banka þar sem viðskiptabanki okkar rukkar fyrir hvert bankakort og þar með myndi innhald gjafarinnar rýrast. Því nýtum við okkur Kringluna. Jafnframt fá allir starfmenn Hrafnistu nú gjafabréf fyrir vandaða mittistösku frá verslun 66°N sem sækja má í allar verslanir á þeirra vegum. Það skal áréttað að þeir sem eru í minna en 30% starfi fá einungis gjafabréf fyrir töskunni en fá ekki Kringlu-kortið. Allir sem eru í 30% starfi eða meira fá Kringlukort (7.500 kr) og gjafabréf fyrir mittistöskunum.

Dreifing jólagjafa verður kynnt þegar nær dregur en ég vona að þetta mælist vel fyrir hjá fólki.

 

Hrafnistubréfið að koma út

Nú eftir helgina kemur út nýtt eintak að Hrafnistubréfinu. Blaðið sem er í A4 broti er gefið út tvisvar á ári í 2.500 eintökum. Auk þess að vera dreift til heimilismanna allra Hrafnistuheimilanna fer það um víðan völl í samfélaginu; til annarra hjúkrunarheimila, alþingismanna, sveitarstjórnarfólks og fleiri. Blaðið verður með hefðbundnu sniði og bið ég ykkur um að dreifa því fljótt og vel til heimilisfólks þegar það berst inn á deildir til ykkar. Sjálfsagt er líka að leyfa því að liggja frammi í öllum setustofum og annars staðar þar sem fólk kemur saman enda er þetta mikilvægur þáttur í að kynna okkar merkilega og glæsilega starf.

Ef ykkur vantar aukaeintök er ykkur velkomið að snúa ykkur til Huldu S. Helgadóttur.

 

Dagur öldrunarþjónustu

Í dag hef ég tekið þátt í skemmtilegri ráðstefnu á Grand hótel, Degi Öldrunar 2019. Þar eru samankomnir um 250 starfsmenn öldrunarþjónustunnar sem hlusta á fróðleg erindi. María Fjóla framkvæmdastjóri heilbrigðissviðs Hrafnistu er formaður Félags fagdeildar öldrunarhjúkrunarfræðinga sem stóðu að deginum ásamt fleirum en hún setti einmitt málþingið í morgun. Það er alltaf fróðlegt að líta upp úr daglegum störfum öðru hverju og kynna sér hvað aðrir eru að gera.

 

Að lokum vil ég senda sérstaklega góðar kveðjur til starfsfólks okkar í Hraunvangnum. Þar hefur undanfarna daga geisað erfið og smitandi magasýking á þremur hjúkrunardeildum af fjórum. Margir hafa veikst, bæði íbúar og starfsfólk, svo þetta hafa verið erfiðir tímar. Kærar þakkir fyrir þolinmæðina, skilninginn og vönduð vinnubrögð!

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur