Top header icons

COVID spurt og svarað Hrafnista á Facebook
 

Föstudagsmolar 25. október 2019 - Pétur Magnússon, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 25. október 2019.

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

Haustfögnuðum Hrafnistuheimilanna lokið – kærar þakkir fyrir ykkar framlag!

Í síðustu viku fóru fram haustfagnaðir í Skógarbæ og Hlévangi. Þar með lauk tímabili haustfagnaða á öllum Hrafnistuheimilunum en nú hafa öll heimilin okkar haldið glæsilega fagnaði þar sem markmiðið er að skapa tilbreytingu fyrir íbúana okkar þar sem hægt er að klæða sig upp, fara fínt út að borða og njóta skemmtikrafta í hæsta gæðaflokki. Á flestum stöðum geta íbúar boðið með sér gestum sem gerir kvöldið að enn skemmtilegri samverustund með fjölskyldu og vinum. Þær Katrín Halldóra og Guðrún Árný skiptust á að vera veislustjórar og sjá um tónlistarflutning en á öllum stöðum sporðrenndu veislugestir kótilettum í raspi á öllum heimilum sem aðalrétti kvöldsins.

Það eru ekki öll hjúkrunarheimili sem státa sig að því að bjóða íbúum sínum og gestum þeirra til veislu af þessu tagi. Glæsilegar myndir frá öllum fögnuðunum eru að finna á heimasíðunni okkar og mun úrval þeirra birtast í Hrafnistubréfinu seinna í mánuðinum.

Til þess að svona veislur geti heppnast þurfa fjöldamargir úr okkar starfsmannahópi að leggjast á eitt við undirbúning, framkvæmdina sjálfa og frágang. Slíkt er ekki sjálfgefið.

Ég er ykkur starfsfólkinu mjög þakklátur fyrir að vera tilbúin að leggja á ykkur að gera þessa viðburði jafn glæsilega og raun ber vitni! Kærar þakkir!

Fundað með trúnaðarmönnum

Á næstu vikum munum við Berglind mannauðsstjóri, funda með trúnaðarmönnum Hrafnistuheimilanna, ásamt forstöðumanni á hverju heimili. Síðustu ár hefur skapast sá skemmtilegi siður að við boðum alla trúnaðarmenn á hverju heimili til fundar (alls 6 fundir). Tilefnið er ekkert sérstakt heldur er farið yfir það sem er á döfinni í „Hrafnistulífinu“ en einnig er gott að heyra í fólki um helstu málefni sem trúnaðarmönnum liggur á hjarta.

Það er mjög mikilvægt fyrir stórt fyrirtæki eins og okkar að hjá okkur sé virkt og öflugt net trúnaðarmanna. Það nýtist bæði starfsfólk og fyrirtækinu sjálfu.

Dagsetningarnar verða eftirfarandi og eiga allir trúnaðarmenn að hafa fengið boð á fundina. Látið Berglindi mannauðsstjóra endilega vita ef þið vitið um einhverjar brotalamir á því.

31. október – Boðaþing

6. nóvember - Laugarás

7. nóvember – Nesvellir/Hlévangur

27. nóvember – Hraunvangur

29. nóvember - Ísafold

5. desember - Skógarbær

Skemmtileg umfjöllun um endurhæfingu Hrafnistu í Fréttablaðinu.

Á dögunum var umfjöllun í Fréttablaðinu um endurhæfingu en nýlega fór fram fjölsótt málþingi á vegum Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu um mikilvægi forvarna og endurhæfingar fyrir samfélagið. Í Fréttablaðinu var fjallað nokkuð um endurhæfingarstarfsemi Hrafnistu og meðal annars rætt við Finnbjörgu í Dagþjálfuninni í Laugarásnum, Hörpu, deildarstjóra iðjuþjálfunar í Hraunvangnum og Sigurdísi, deildarstjóra sjúkraþjálfunar í Reykjanesbænum.

Alltaf gaman að sjá þegar fjallað er með jákvæðum hætti um okkar góða starf.

Auglýsing eftir starfsfólki á Sléttuveg

Fyrstu auglýsingarnar vegna starfsfólks á nýja hjúkrunarheimilið okkar á Sléttuvegi í Fossvogi eru komnar í loftið en fyrirhugað er að starfmenn mæti til starfa í febrúar og fyrstu íbúar flytji inn í byrjun mars. Gaman er að segja frá því að fjöldi fyrirspurna hefur borist en einnig töluvert af umsóknum. Þið megið endilega hnippa í flott fólk í kringum ykkur ef þið þekkið einhverja sem væru flottir kandídatar í starfsmannhópinn okkar á Sléttuveginum.

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur