Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 11. október 2019 - Gestahöfundur er Sigurður Garðarsson, framkvæmdastjóri Sjómannadagsráðs

 

Föstudagsmolar 11. október 2019

 

Ég velti því stundum fyrir mér hvers vegna sjómenn úr stéttarfélögum sjómanna skulu vera í lykilhlutverki við rekstur og nýsköpun í öldrunarþjónustu á Íslandi. Staðreyndin er nefnilega sú að Sjómannadagsráð er eigandi að Hrafnistu og Naustavör, sem hvort um sig eru stærst á sínu sviði og stunda mesta nýsköpun af öllum fyrirtækjum í þessum geira. Stjórn þessara fyrirtækja er skipuð sjómönnum og við stjórnendur fyrirtækjanna sækjum umboð okkar til þeirra.

Hrafnista er stærsti umönnunaraðili aldraðra á Íslandi og hefur náð miklum árangri á sínu sviði. Jafnvel það miklum árangri að það er sóst eftir því að fá Hrafnistu að rekstri enn meiri öldrunarþjónustu eins og við höfum orðið vitni að undanfarin ár. Hrafnista hefur ekki aðeins staðið sig vel við að sjá mjög vel um heimilisfólkið og skjólstæðingana, heldur hefur Hrafnistu einnig tekist að vinna vel úr því takmarkaða fjármagni sem ríkissjóður úthlutar til þessa mála, sem leiðir til þess að Hrafnista veitir meiri þjónustu en mörgum öðrum hefur tekist að veita. Þá má heldur ekki líta fram hjá því að Hrafnista hefur verið frumkvöðull að því að taka upp nýtt skipulag, finna nýjar aðferðir og nýja tækni til þess að að gera enn betur á sínu sviði.

Naustavör er fyrsta og jafnframt stærsta fyrirtæki landsins sem hefur það sérstaka hlutverk að veita öldruðum aðgang að íbúðum þar sem þeir geta treyst á að fá nægan stuðning og öryggi sem þarf til að geta búið sjálfstæðri búsetu í eigin íbúð ævina út. Í dag rekur Naustavör ríflega 200 íbúðir og fljótlega bætast við 60 íbúðir í viðbót og aðrar 80 innan tveggja ára. Með góðu samstarfi við Hrafnistu hefur Naustavör tekist að þróa búsetukost sem er það góður að það bíða vel á fimmta hundrað einstaklingar eftir því að komast að í slíkri íbúð. Naustavör er enn að byggja upp og þróa hugmyndafræði sína og stendur nú í ströngu með uppbygginguna sem nú stendur yfir á Sléttuvegi í Reykjavík.

Móðurfélagið Sjómannadagsráð er ekki aðeins stoltur eigandi þessa tveggja fyrirtækja, heldur er það einnig eigandi að um 70 þúsund fermetrum af fasteignum sem það hefur aflað fjár fyrir með ýmsum hætti í langri sögu. Sjómannadagsráð er nú á níræðis aldri og stendur enn í farabroddi við nýsköpun og uppbyggingu á aðstöðu fyrir aldraða. Sjómannadagsráð starfar fyrst og fremst í þágu almannaheilla og hefur aldrei greitt eigendum sínum arð af nokkru tagi. Sjómenn stjórna félaginu og hafa sett því það hlutverk að halda Sjómannadaginn hátíðlegan til að gefa sjómönnum verðugan sess í þjóðfélaginu, auk þess sem þeir hafa valið sér það hlutverk að sinna velferðarmálum aldraða, þá einkum fyrir aldraða sjómenn og sjómannsekkjur.

En aftur að þessum vangaveltum mínum með það hvað sjómenn séu að „vilja upp á dekk“ í öldrunarþjónustu og við velferðarmál Íslendinga. Eftir að hafa í rúm 6 ár fengið að kynnast þessari fyrirtækjamenningu sem hér ríkir, þá verð ég að viðurkenna að þótt ég hafi ekki alveg skýr svör við þessu, þá er það orðið aðeins skýrara í mínum huga. Ég veit vel að ímynd sjómanna er frekar harðgerð og þeir eru helst þekktir fyrir átök, dugnað og kraft. Við fyrstu hugsun myndi maður halda að það fari ekki endilega saman við umönnun! En ég veit líka að sjómenn alast upp í hættulegu umhverfi og þegar á reynir þá treysta sjómenn áhöfn sinni fyrir því að engin bregðist þegar mest reynir á. Þótt ég sé nú hvorki mannfræðingur, né félagsfræðingur þá held ég samt að það megi rekja þessa ræktunarsemi sjómanna við öldrunarmál Íslendinga, til þess að þeim er alls ekki sama um þjóðfélagið okkar og hafi því runnið blóðið til skyldunnar þegar þeir vissu af því að félagar þeirra þurftu aðstoð þegar kom að ellinni. Þess vegna komust þeir fljótlega að því að það verður einhver að stíga fram og taka að sér þetta mikilvæga hlutverk að sinna þeim sem lokið hafa starfsævi sinni, þegar það fer að halla undan þeim í ellinni. Og þar af leiðandi kemst ég að þeirri ályktun minni að það megi rekja farsæld og velgengni okkar til þessa menningar sem sjómenn hafa skapað hér, sem byggist að miklu leiti á staðfestu, samheldni, áræðni og dugnaði.

Ég ber allavega mikla virðingu fyrir því að það eru sjómenn úr Sjómannadagsráði höfuðborgarsvæðisins sem eiga heiðurinn og þakklæti skilið fyrir það að hafa staðið í eldlínunni í rúm 80 ár við að afla fé til að byggja og reisa aðstöðu fyrir aldraða Íslendinga. 

 

Sigurður Garðarsson

Framkvæmdastjóri Sjómannadagsráðs.

 

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur