Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 27. september 2019 - Pétur Magnússon, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 27. september 2019.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

95% myndu mæla með Hrafnistu sem góðum vinnustað við vini og ættingja

Nýlega fékk ég kynningu á könnun sem gerð var meðal nýliða sem unnu hjá okkur í sumar. Um miðjan júlí var send spurningakönnun á þá starfsmenn sem hófu störf frá 1. apríl til 8. júlí 2019. Alls 186 netföng. Svarhlutfall var um 47% sem mætti sannarlega vera betra en gefur þó alveg ákveðnar upplýsingar. Niðurstöðurnar eru þessa dagana í kynningu meðal forstöðumanna sem svo taka málin áfram eftir því sem við á. Í heildina eru niðurstöður jákvæðar fyrir okkur sem vinnustað.

Af öllum spurningunum vakti mesta athygli mína spurningin: „Myndir þú mæla með Hrafnistu við vini eða ættingja sem góðum vinnustað?“ Það var sérstaklega ánægjulegt að 95,4% svarenda sögðu „Já“ við þessari spurningu. Á svo fjölmennum vinnustað sem Hrafnista er, er varla hægt að reikna með hærri tölu og er þetta langt framar vonum mínum. Ótrúlega flott skilaboð og greinlegt að starfsfólkið er ánægt og líður vel í Hrafnistu-umhverfinu!

Þið eruð sannarlega að gera góða hluti, kæra samstarfsfólk!

 

Bleikur október – og bleiki dagurinn 11. október.

Nú í október er venju samkvæmt „bleiki mánuðurinn“ haldinn hátíðlegur víðsvegar í samfélaginu. Október er mánuður Bleiku slaufunnar, árveknis- og fjáröflunarátaks Krabbameinsfélags Íslands gegn krabbameinum hjá konum. Hefð er fyrir því að færa heimilin í bleikan búning með því að skreyta með ýmsu bleiku og vonandi fer það í gang sem víðast þegar nær dregur mánaðarmótum.

Hápunkturinn er „Bleiki dagurinn“, sem er föstudaginn 11. október. Hrafnistuheimilin munu svo sannarlega leggja sitt af mörkum til að gera daginn og í raun mánuðinn allan, sem hátíðlegastan líkt og undafarin ár. Að sjálfsögðu höldum við svo upp á Bleika daginn með formlegum hætti með því að hvetja heimilisfólk og starfsfólk á Hrafnistu til að taka þátt og klæðast einhverju bleiku þennan dag. Endilega verið dugleg að taka þátt en nánari upplýsingar verða kynntar á hverju heimili!

 

Byltuvarnir á Hrafnistu vekja athygli!

Í síðustu viku fór fram málþing um Byltuvarnir á vegum Landspítala en málþingið var öllum opið. Fjöldi fyrirlesara var á mælendaskrá, þar á meðal erindi um byltuvarnir á Hrafnistu Boðaþingi sem var í umsjón þeirra Svönu iðjuþjálfa og Esterar sjúkraþjálfara. Ég kíkti aðeins við á málþinginu og heyrði þær flytja þennan glimmrandi fína fyrirlestur um byltuvarnarstarf í Boðaþingi. Meðal annars var komið inn á erindið í grein í Morgunblaðinu daginn eftir.

Það er alltaf gaman þegar Hrafnistufólk kemur fram á opinberum vettvangi til að kynna okkar merkilega og góða starf!

 

Mikilvægi forvarna og endurhæfingar – málþingi 3. október.

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu standa fyrir stuttu málþingi um mikilvægi forvarna og endurhæfingar í heilbrigðisþjónustunni. Málþingið verður haldið þann 3. október nk. kl. 13:30 á Hilton Reykjavík Nordica.

Framsögumenn koma að þessu sviði heilbrigðisþjónustunnar með ólíkum hætti og gefa innsýn í mikilvægar en margbreytilegar forvarnir og endurhæfingu, og hvernig þau eru að hafa áhrif á samfélagið. Í lokin verða pallborðsumræður þar sem rætt verður um tækifæri til enn frekari aðgerða á þessu sviði, samfélaginu öllu til heilla.

Rétt er að hvetja alla til að mæta en María Fjóla Harðardóttir, framkvæmdastjóri heilbrigðissviðs Hrafnistuheimilanna er meðal frummælenda þar sem hún mun fjalla um mikilvægi dagþjálfunarþjónustu út frá ljósi forvarna og endurhæfingar fyrir lífsgæði fólks og samfélagið allt. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur