Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 5. apríl 2019 - Pétur Magnússon, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 5. apríl 2019.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

Samstarfsverkefni Hrafnistu með forsetaembættinu

Í fyrra tók Hrafnista þátt í skemmtilegu verkefni vegna 100 ára fullveldisafmælis Íslands sem bar nafnið „fullveldisbörnin.“ Þar var öllum Íslendingum 100 ára og eldri boðið til sameiginlegrar veislu á Hrafnistu í Laugarásnum og tókst hún mjög vel. Í framhaldinu hefur nú verið ákveðið að setja á fót samstarfsverkefni okkar hér á Hrafnistu og forsetaembættisins sem ætlunin er að geti orðið að árlegum og skemmtilegum viðburði. Samstarfsverkefnið felst í því að við ætlum að koma á þeirri skemmtilegu hefð að öllum Íslendingum sem verða 100 ára á viðkomandi ári verði boðið í stutta afmælisveislu með Forseta Íslands. Þetta er um 20-30 manns á ári og verður öllum boðið ásamt fylgdarmanni. Verkefnið verður samvinnuverkefni Forsetaembættisins, Hrafnistu og Jónasar Ragnarssonar hjá Langlífi. Um er að ræða kaffiboð sem tekur um eina klukkustund og haldið verður að sumarlagi þannig að veður trufli sem allra minnst. Boðið verður upp á kaffi og meðlæti, tónlistaratriði og ávarp frá Forseta Íslands (og fleirum) ásamt því sem tekin yrði ljósmynd af hópnum. Hlutverk Hrafnistu í verkefninu verður að leggja til sal fyrir veisluna, veitingar og tónlistaratriði. Þar sem svona veisla verður árlegur viðburður er hugmyndin að veislan flytjist á milli Hrafnistuheimila á höfuðborgarsvæðinu á milli ára. Íbúum viðkomandi hjúkrunarheimilis væri einnig boðið þannig að samkoman væri jafnan með góðum fjölda þátttakenda og okkar íbúar fá að njóta þess að skemmta sér með forsetanum.

Gaman er að segja frá því að nú hefur verið ákveðið að fyrsta 100 ára afmælisveislan verði á Hrafnistu Hraunvangi þriðjudaginn 18. júní í sumar.

Þetta er sannarlega spennandi og skemmtilegt verkefni sem nánar verður kynnt fyrir íbúum Hraunvangsins þegar nær dregur.

Eldhúsið flytur tímabundið úr Laugarásnum í Hafnarfjörð

Þessa dagana stendur mikið til í eldhúsmálum okkar á höfuðborgarsvæðinu. Snemma árs hófust gríðarlega viðamiklar framkvæmdir við endurnýjun á eldhúsinu okkar í Laugarásnum sem eldar fyrir Laugarásinn, Hraunvang, Boðaþing og Ísafold auka þess sem að nýja hjúkrunarheimilið á Sléttuvegi bætist við um næstu áramót. Þetta eru framkvæmdir fyrir rúmar 500 milljónir króna en kominn var tími á ýmislegt í viðhaldi auk þess sem ákveðið var aðstækka eldhúsið verulega og endurbæta til að geta mætt nútíma kröfum og auka framleiðlsugetu upp í 1500-1800 skammta af mat á dag í framtíðinni.

Vegna framkvæmdanna hefur þurft að sýna mikla útsjónarsemi svo matarmál okkar Hrafnistufólks raskist sem minnist á framkvæmdatímanum. Eitt viðamesta verkefnið í því var sú ákvörðun að færa stóran hluta eldhússins í nokkra mánuði úr Laugarásnum í Hafnarfjörð. Eftir langan undirbúning er sá flutningur einmitt að eiga sér stað í dag og nú um helgina.

Mig langar því að nota tækifærið og biðja alla um að sýna Óla, Kristjáni og öðru starfsfólk eldhússins okkar þolinmæði næstu daga og vikur meðan mesta breytingarferlið í þessu er að ganga yfir. Ekki er ólíklegt að einhverjir hnökrar verði í kringum matinn næstu daga en því þurfum við öll að sýna skilning.

Til að þetta gangi nú allt upp hafa mjög margir lagt hönd á plóginn. Jafnframt langar mig líka til að nota þetta tækifæri og þakka kærlega öllum þeim fjölmörgu sem hafa komið að þessum undirbúningi með einhverjum hætti. Þetta eru í raun mjög margir, því sem dæmi má nefna þurfti að taka rafmagnið af, í nokkra klukkutíma, öllu húsinu í Hraunvangnum aðfararnótt síðasta fimmtudag. Það mál eitt og sér er risastórt verkefni sem tókst vel enda mjög vel undirbúið. En kosturinn er að allt leiðir þetta til ennþá betri Hrafnistu þegar nýja eldhúsið verður komið í gagnið!

Breytingar á deildum í Laugarásnum

Í gær voru kynningarfundir fyrir starfsfólk, íbúa og aðstandendur í Laugarásnum þar sem kynntar voru breytingar á skipulagi nokkurra hjúkrunardeilda heimilisins. Hjúkrunardeildir hússins hafa hingað til verið misjafnar að stærð og umfangi. Á meðan ein deild nær yfir þrjá ganga þá eru önnur dreyfð yfir sex ganga á þremur hæðum. Þessi mismunur milli deilda á sér sögulegar rætur þar sem Hrafnista var á sínum tíma með stórar vistdeildir, eins og þetta hét þá, þar sem einstaklingar voru almennt heilsubetri. Tímarnir hafa breyst og nú er svo komið að engin deild á Hrafnistu í Laugarási er „vistdeild“ heldur eru þær allar hjúkrunardeildir. Til að bæta þjónustu og yfirsýn deilda ásamt því að einfalda og stytta aðgengi, bæði fyrir íbúa og starfsfólk, þá verður gerð sú breyting að hver deild nær yfir eina hæð. Þannig að allir íbúar og starfsmenn á hverri hæð tilheyri sömu deild. Breytingarnar felast í því að Miklatorg mun því ná yfir alla 4. hæðina, Vitatorg mun ná yfir alla 3. hæðina og Lækjartorg mun ná yfir alla 2. hæðina. Engar breytingar eru á Sólteig og Mánateig. Fyrirhugað er að breytingar hefjist 8. apríl og er það von okkar að þessar breytingar verði til bóta fyrir bæði íbúa og starfsfólk.

 

Svo þarf varla að minna á að nú er bara vika í árshátíðina okkar þar sem Páll Óskar verður aðal númerið. Mér skilst að þetta verði lang fjölmennasta árshátíð Hrafnistu frá upphafi svo það er bara um að gera að fara undirbúa sig.

Góða helgi!

 

Bestu kveðjur,

Pétur

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur