Top header icons

COVID spurt og svarað Hrafnista á Facebook
 

Föstudagsmolar 15. mars 2019 - Gestaskrifari er Sigrún Stefánsdóttir, forstöðumaður Hrafnistu Laugarási

 

Við erum orðin mjög vön breytingum hér á Hrafnistu í Laugarási í gegnum tíðina. Þetta er orðið gamalt hús og eins og gengur og gerist með eldri byggingar þá þarf sífellt að vera að huga að viðhaldi og breyta húsnæðinu eftir því sem starfsemin þróast og breytist hjá okkur.  Það hefur því ekki farið framhjá neinum hér í Laugarásnum að hafnar eru endurnýjunarframkvæmdir á eldhúsinu en starfsemin var orðin mjög aðþrengd og með tilkomu Sléttuvegar um næstu áramót þá væri hún sprungin en einnig er aðstaðan komin á tíma með viðhald og endurbætur.  Byggja á við eldhúsið en búið er að grafa grunninn og uppsláttur hafinn eins og sést út um gluggann á Skálafelli. Eldhúsið mun flytja á næstunni á Hrafnistu Hraunvang á meðan framkvæmdir standa hér yfir. Hér á Hrafnistu í Laugarási er síðan verið að útbúa móttökueldhús þar sem þvottahúsið var áður staðsett innst inn á C-1.

Hjúkrunardeildin Viðey mun loka 30. mars en þar hafa verið einstaklingar í hvíldarinnlögn nú undanfarið og við taka breytingar á húsnæðinu. Þar mun síðan opna dagþjálfun fyrir einstaklinga með heilabilun þann 6. maí. En eins og flestir hafa líklegast heyrt á umræðunni í þjóðfélaginu þá hefur verið mikill skortur á dagdvalar úrræðum fyrir þessa einstaklinga. Því er það mjög ánægjulegt að Hrafnista í Laugarási sé að fara að opna nýja Dagþjálfun fyrir einstaklinga með heilabilun þann 6. maí.

Lyftan sem þjónar A- álmu og þar með hjúkrunardeildunum  Engey/Viðey er komin til ára sinna eða orðin 60 ára og nú er svo komið að þjónustuaðilar ábyrgjast ekki að geta haldið henni gangandi ef bilun verður og hafa því ráðlagt okkur að skipta henni út. Lyftan í A-álmu er öryggisatriði fyrir íbúa og starfsemina og því verðum við að endurnýja hana og setja upp nýja lyftu.

Því miður verður ekki hægt að halda Engey opinni á meðan framkvæmdir við lyftuna standa yfir þar sem deildin er á 4. hæð og þetta er eina lyftan í álmunni. Íbúar Engeyjar og starfsfólk munu því flytja tímabundið á aðrar hjúkrunardeildir á meðan lyftuframkvæmdirnar standa yfir.

Eins og áður sagði þá hefur Hrafnista í Laugarási gengið í gegnum heilmiklar húsnæðisbreytingar á undanförnum árum sem hafa verið til mikilla bóta bæði fyrir íbúa okkar og starfsfólk. Allar breytingar taka á en með samhentu átaki allra þá ganga hlutirnir betur en það hefur starfsfólk og íbúar sýnt og sannað hér í gegnum árin.

 

Góða helgi.

Sigrún Stefánsdóttir

Forstöðumaður

Hrafnistu Laugarási

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur