Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 15. febrúar 2019 - Gestaskrifari er Anný Lára Emilsdóttir, deildarstjóri á Báruhrauni í Hafnarfirði

Hlutverkaskipti – sérfræðingur í hjúkrun verður leiðinlegi aðstandandinn

Síðasta ár var mikið veikindaár í minni fjölskyldu. Ég þurfti því að fara hinum megin við borðið og fara í hlutverk aðstandanda á sjúkrastofnun. Auðvitað hef ég í gegnum tíðina verið í því hlutverki af og til en maður er bara svo fljótur að gleyma hvað þetta er erfið staða.

Eitt af því sem tók mikið á var hin margumtalaða barátta við „kerfið“. Ég sem er í fullu fjöri, þekki heilbrigðisgeirann og er fjárhagslega vel stæð átti fullt í fangi með að fóta mig – ég eiginlega skil ekki hvernig þeir fara að sem ekki eru jafn lánsamir og ég og ber ómælda virðingu fyrir þeim. Ég þurfti t.d. að leggja út hálfa milljón fyrir björgunarþyrlugjöldum á meðan Sjúkratryggingar Íslands og tryggingafélagið mitt ræddu hvort þeirra ætti að greiða. Og ef ég hefði sætt mig við svör um að bíða bara róleg eftir að minn maður kæmist að hjá sérfræðingi væri ég að öllum líkindum ekkja í dag!

Annað sem gerist ótrúlega fljótt í veikindum er að heimurinn verður pínulítill. Ég sem er vanalega allt í öllu og út um allar trissur var farin að spá mikið í hvort það yrði fyllt á sjálfsalann á Insel Spital í Bern í dag. Nú eða hvort það væri komið nýtt skemmtiferðaskip í höfnina á Akureyri þegar við vorum á sjúkrahúsinu fyrir norðan eða hvort ég sæi svörtu kisuna út um gluggann. Þið getið því rétt ímyndað ykkur hvort það hafi þá ekki verið stórmál hjá mér hvort það hafi verið hreint lín á rúminu eða hversu lengi þurfti að bíða eftir starfsfólki þegar ég hringdi bjöllunni. Smámál verða stórmál í svona aðstæðum og það er svo mikilvægt að hafa það í huga þegar maður er að „pirra“ sig á smámunaseminni hjá skjólstæðingunum og aðstandendum þeirra.

Það er stundum sagt að hjúkrunarfræðingar séu erfiðustu aðstandendurnir. Ég lagði mig fram um að vera kurteis og gera ekki óraunhæfar kröfur en þrátt fyrir það kæmi mér ekkert á óvart að starfsfólkið hafi pantað pizzu þegar það losnaði við mig. Því þetta hlutverk, að vera aðstandandi sjúklings, er staða sem enginn óskar sér að vera í og kallar ekki endilega fram manns bestu hliðar. Hógværð, biðlund og að treysta einhverjum gagnrýnislaust (jafnvel þótt viðkomandi sé hámenntaður og reyndur á sínu sviði) er munaður sem maður leyfir sér ekki þegar velferð ástvina gæti verið í húfi. Það er svo mikilvægt að hafa þetta í huga í okkar starfi á Hrafnistu. Það sem okkur finnst smáatriði skiptir ættingja miklu máli. Bjóddu t.d. aðstandendum góðan daginn á göngunum, ég get lofað þér því að það skiptir þá miklu máli.  

 

Anný Lára Emilsdóttir deildarstjóri á Báruhrauni,

Hrafnista Hraunvangi Hafnarfirði

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur