Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 25. janúar 2019 - Pétur Magnússon, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 25. janúar 2019.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

Þorrablótin okkar byrjuðu í dag!

Gleðilegan Þorra kæra samstarfsfólk!

Í dag er bóndadagur, fyrsti dagur hins forna mánaðar, þorra. Þessi árstími er jafnan mjög skemmtilegur hér á Hrafnistu enda blótum við þorrann af miklum móð á öllum vígstöðvum. Fjörið hófst strax í hádeginu í dag þegar Ísafold og Boðaþing riðu á vaðið með hádegisþorrablótum þar sem harmonikkuleikur, söngur og fleira var til gamans ásamt matardásemdunum. Það var mikið fjör á báðum stöðum þegar ég kíkti við.

Í kvöld eru svo risafagnaður í Laugarásnum þar sem engin önnur en söngkonan Guðrún Árný verður veislustjóri. Ræðuhöld verða einnig sem og skemmtiatriði.

Í næstu viku eru það svo Hlévangur og Nesvellir í Reykjanesbæ sem halda hefðbundinn hádegisfagnað og risakvöldfagnaður verður í Hafnarfirði.

Hér er nánara yfirlit en blótin eru auglýst betur á hverju heimili fyrir sig. Gaman, gaman!

Föstudagur 25. janúar

Ísafold – Hádegi

Boðaþing – Hádegi

Reykjavík – Seinni partur

Fimmtudagur 31. janúar

Hlévangur - Hádegi

Hafnarfjörður – Seinni partur

Föstudagur 1. febrúar

Nesvellir - Hádegi

Ég vil einnig nota þetta tækifæri og þakka öllum þeim fjölmörgu ykkar sem koma að bótunum með einhverjum hætti. Það eru margir sem leggja hönd á plóginn á þessum merku dögum, allt frá iðnaðarmönnum við uppsetningu í stóru sölunum, kokkunum sem útbúa matinn sjálfan, þjónum, skipuleggjendum, aðstoðarfólki við blótin og ekki síst starfsfólki inn á deildunum sjálfum en þar eru mörg auka handtök í tengslum við hátíðarhöldin.

Hafið heiður og þökk fyrir.

 

Auglýsingar um sumarstarfsfólk fara í gang um helgina

Nú um helgina fara í gang auglýsingar frá Hrafnistu um sumarafleysingastarfsfólk næsta sumar. Öll þurfum við jú að komast í sumarfrí og flest okkar geta það ekki nema einhver annar leysi okkur af. Á hverju sumri ræður Hrafnista hátt í 200 sumarafleysingastarfsmenn svo það er ekki seinna vænna en að fara að byrja að ganga í málin.

Um helgina mun birtast stór auglýsing frá okkur í Fréttablaðinu en annars eru aðal staðirnir sem við auglýsu á Alfreð, Facebook og Instagram (já – Hrafnista er að fara á Instagram).

Ekk má samt gleyma því sem hefur samt reynst okkur best og það er þegar þið sjálf, ágæta samstarfsfólk hvetjið fólk í kringum ykkur til að koma til okkar að vinna.

Það er spennandi sumar í vændum!

 

Gleðilegan þorra og góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur