Top header icons

Hrafnista á Workplace FacebookHrafnista á Facebook

Topp slide - reykjavik

Föstudagsmolar 4. janúar 2019 - Pétur Magnússon, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 4. janúar 2019.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla!

Kærar þakkir fyrir ánægjulegt og árangursríkt samstarf og skemmtilega samveru á árinu 2018. Jafnframt vil ég senda ykkur öllum sérstakt þakklæti fyrir ykkar framlag til Hrafnistu og aldraðra á liðnu ári.

Ég vona að allir hafi átt ánægjulegar stundir og komi vel undan hátíðunum.

Ég hlakka mikið til að takast á við árið 2019 með ykkur með það að leiðarljósi, eins og áður, að gera góða Hrafnistu ennþá betri!

 

Nöfn Hrafnstuheimilanna breytast á nýju ári

Stjórn Sjómannadagsráðs hefur nú samþykkt að nöfn Hrafnistuheimilanna breytist á nýju ári. Hingað til hafa Hrafnistuheimilin verið nefnd eftir þeim sveitarfélögum sem þau eru staðsett í: Hrafnista Reykjavík, Hrafnista Hafnarfirði, o.s.frv. Þegar við tókum við starfsemi í Reykjanesbæ árið 2014 byrjuðu ákveðnir erfiðleikar þar sem við höfum tvö hjúkrunarheimili þar á bæ. Erfiðleikarnir við núverandi nafnakerfi aukast jafnframt verulega á næsta ári þar sem Sléttuvegsheimilið okkar er þá væntanlegt í lok árs.

Við breytum því nöfnum hjúkrunarheimilanna okkar eftirfarandi: Hrafnista Laugarás, Hrafnista Hraunvangur, Hrafnista Boðaþingi, Hrafnista Nesvellir, Hrafnista Hlévangur, Hrafnista Ísafold og Hrafnista Sléttuvegur.

Rétt er að geta þess að þetta verður allt gert í rólegheitum og smá saman. Þurfum ekkert að henda öllum kynningarefni og eyðublöðum með gömlu heitunum. Vinnuhópur hefur verið skipaður til að halda utan um breytingar og fylgja þeim eftir og verður það kynnt á næstunni.

Ég vona að ykkur lítist vel á og við verðum öll dugleg að temja okkur að nota nýju heitin.

 

Katrín Halldóra syngur lög Ellýar á Nýárstónleiknum Hrafnistuheimilanna

Hrafnistuheimilin öll munu nú í janúar efna til glæsilegra nýárstónleika fyrir íbúa okkar á öllum Hrafnistuheimilunum sem nú eru sex talsins.

Að þessu sinni er það engin önnur en söng- og leikkonan Katrín Halldóra Sigurðardóttir sem mun troða upp. Hún hefur verið áberandi í listalífi landsins undanfarið en þó algerlega slegið í gegn í sýningunni Ellý í Borgarleikhúsinu sem sýnd hefur verið yfir 150 sinnum. Katrín Halldóra ætlar einmitt að syngja helstu lög Ellýjar Vilhjálms á nýárstónleikunum okkar þannig að þetta verður mjög spennandi.

Tímasetningar tónleikanna á hverju heimili fyrir sig verðar kynntar á næstu dögum.

 

Hrafnista gefur út geisladisk og gefur hjúkrunarheimilum landsins jólagjöf

Flestir sem starfa að velferðarmálum þekkja mikilvægi tónlistar og söngs varðandi lífsgæði aldraðra. Enda er það svo að tónlist og söngur er mjög mikilvægur hluti af félagsstarfi aldraðra, hvort sem það er í félagsmiðstöðvum, dagdvölum, hjúkrunarheimilum og víðar. Helgihald af ýmsu tagi á sér jafnframt stóran og mikilvægan sess í starfsemi hjúkrunarheimila. Hrafnista hefur nú hellt sér út í plötubransann og gefið út geisladiskinn Dag í senn – píanóspil úr sálmabók. Diskurinn inniheldur reyndar tvo geisladiska sem á eru 37 sálmar sem spilaðir eru á píanó af Skarphéðni Hjartarsyni organista Fríkirkjunnar í Hafnarfirði. Diskarnir eru gefnir út af Hrafnistu og prímusmótor þar er Böðvar okkar Magnússon. Hugmyndin er að tónlistin geti nýst við helgihald og almennan söng þegar svo ber undir, þar sem stundum getur verið erfitt að fá undirleikara.

Allar deildir Hrafnistu sem vilja geta fengið diskinn að gjöf en hann er einnig seldur í Hrafnistubúðunum. Diskurinn var jafnframt sendur öllum hjúkurnarheimilum landsins í jólagjöf frá Hrafnistu.

Vonandi nýtist geisladiskurinn eitthvað í starfinu og verður til gleði og gæfu. Nánari upplýsingar um geisladiskinn má fá hjá Huldu S. Helgadóttur.

 

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

Til baka takki

Banners neðst á forsíðu 1

Happdrætti DAS 

 

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur