Top header icons

Hrafnista á Workplace FacebookHrafnista á Facebook

Topp slide - reykjavik

Föstudagsmolar 7. desember 2018 - Pétur Magnússon, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 7. desember 2018.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

Starfsafmæli í desember

Þó desembermánuður sé tími jólagjafa, þá er þessi skemmtilegi mánuður líka tími starfsafmælisgjafa hér hjá okkur á Hrafnistu. Að vanda eru nokkrir glæsilegir fulltrúar úr starfsmannahópi Hrafnistu sem fagna formlegum starfsafmælum í mánuðinum samkvæmt starfsafmæliskerfi Hrafnistu. Allir fá afhentar viðeigandi gjafir á næstunni sem fara stigvaxandi í samræmi við vaxandi starfsafmæli.

Þetta eru:

3 ára starfsafmæli: Í Reykjavík eru það Hildur Eyþórsdóttir á Sól-/Mánateig og Elías Leifsson á bókhalds- og launadeild. Í Hafnarfirði eru það Hlynur Snær Hilmarsson og Aldís Helga Björgvinsdóttir á Báruhrauni og Florie Latifi í borðsalnum. Á Hlévangi er það Súsanna Poulsen sjúkraliði.

5 ára starfsafmæli: Í Hafnarfirði er það Sandra Jónsdóttir á Sjávar-/Ægishrauni.

10 ára starfsafmæli: Í Reykjavík er það Edyta M. Torba í eldhúsi. Í Hafnarfirði er það Siriluk Gunnarsson á Bylgjuhrauni.

20 ára starfsafmæli: Í Hafnarfirði er það Ásdís Guðmundsdóttir á Ölduhrauni.

25 ára starfsafmæli: Bergþóra Vigdís Ingimarsdóttir á Bylgjuhrauni og Halldóra Hinriksdóttir deildarstjóri í Dagvist, báðar í Hafnarfirði.

35 ára starfsafmæli: Guðbjörg Magnúsdóttir á Sjávar-/Ægishrauni Hrafnistu Hafnarfirði.

Við þökkum ykkur öllum fyrir tryggð við Hrafnistu og framlag til öldrunarþjónustu ásamt því að óska ykkur öllum hjartanlega til hamingju með áfangann!

 

Kótilettudagur Hrafnistu tókst mjög vel!

Í síðustu viku fór fram kótilettudagur Hrafnistu sem ákveðið hefur verið að halda árlega í kringum afmælisdag Sjómannadagsráðs (sem er 25. nóvember).

Þá sporðrenndu um 1.000 manns á öllum Hrafnistuheimilunum sex um 4.200 kótilettum en öllum íbúum og starfsfólki á vakt var boðið upp á þennan þjóðarrétt Hrafnistu!Í hádeginu var á Hrafnistu í Reykjavík hörkuspennandi kótilettuátkeppni þar sem 200 manns fylgdust með Hjalta Úrsus stýra átkeppni um Hrafnistumeistaratitillinn.
Skemmtilega á óvart kom Ólafur Þór Gunnarsson alþingismaður sem sigraði keppnina með glæsibrag og fékk afhentan kótilettubikarinn sem hann er örugglega með með sér inn á Alþingi. Lagði Ólafur meðal annars Bigga rafvirkja og Gústa pípara sem taldir voru ósigrandi. Þetta var hrikalega skemmtilegt og tókst mjög vel - þakka ég öllum sem komu að keppninni og þessum skemmtilega degi!

Ljóst er að átkeppnin er komin til að vera og líklegast mun hún verða í Hafnarfirði að ári. Skemmtilegar myndir frá keppninni má finna á heimasíðu Hrafnistu.

 

Heilbrigðisstefna – það má ekki gleyma hjúkrunarheimilunum!

Í gær birti Fréttablaðið grein eftir mig og fleiri fulltúa frá stjórn Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) sem eru hagsmunasamtök tæplega 50fyrirtækja sem eru ekki ríkisfyrirtæki og starfa við velferðarþjónustu samkvæmt þjónustusamningi eða öðrum tengdum greiðslum frá ríkinu:

Eitt markmiða í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er að fullvinna heildstæða heilbrigðisstefnu fyrir Ísland með hliðsjón af þörfum allra landsmanna og skilgreina betur hlutverk einstakra þátta innan heilbrigðisþjónustunnar og samspil þeirra. Fyrstu drög þeirrar vinnu voru kynnt á nýliðnu og vel heppnuðu heilbrigðisþingi sem velferðarráðuneytið boðaði til.

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) fagna mjög vinnu og stefnumótun við þetta mikilvæga verkefni enda þörfin mikil og brýn. Samtökin hafa fyrir all nokkru síðan sent ráðuneytinu bréf til að bjóða fram krafta sína sem nýtast megi við vinnuna enda eiga um fimmtíu fyrirtæki, félagasamtök og/eða sjálfseignarstofnanir, sem ekki eru í eigu ríkisins, aðild af SFV, þar á meðal flest hjúkrunarheimili landsins, SÁÁ, Krabbameinsfélag Íslands og fleiri. Greiðslur ríkisins til aðildarfélaga SFV nema um 15% af heildarútgjöldum ríkisins til heilbrigðismála á ári.

Ekki alls fyrir löngu bárust fregnir af því að forsvarsmenn heilbrigðisstofnana í eigu ríkisins hefðu verið boðaðir á tveggja daga vinnustofu við gerð nýrrar heilbrigðisstefnu. SFV ítrekuðu þá boð sitt um vinnuframlag. Því var hafnað og upplýst að haldið yrði heilbrigðisþing í nóvember sem SFV gæti tekið þátt í. Þá var samtökunum boðið á stuttan fund daginn fyrir heilbrigðisþingið, þar sem farið var yfir hvernig ferlið væri hugsað af hálfu ráðuneytisins. Á heilbrigðisþinginu voru lögð fram drög að heilbrigðisstefnu til ársins 2030 (Íslensk heilbrigðisþjónusta til framtíðar) til rýningar og dýpri umræðu á þinginu sem var vel sótt og gott framtak.

Hjúkrunarheimilin eru mikilvægur hluti heilbrigðisstefnu

Við lestur vinnuskjalsins vekur athygli að hvergi er minnst á ýmsa mikilvæga heilbrigðisstarfsemi, svo sem hjúkrunarheimila eða endurhæfingarstofnana. Orðið hjúkrunarheimili kemur ekki fyrir í þeim 17 blaðsíðna glærupakka sem drögin hafa að geyma enda þótt þjónusta þeirra kosti ríkissjóð meira en 30 milljarða króna á ári og stærsti samningur í sögu Sjúkratrygginga Íslands sé einmitt rammasamningur við hjúkrunarheimilin. Takmörkuð umræða varð því um þessa þætti heilbrigðiskerfisins, enda engin gögn til að rýna. Með hliðsjón af því, til dæmis, að hér á landi starfa hundruð hjúkrunarfræðinga á öldrunarheimilum landsins og biðlistar eftir hjúkrunarrýmum fara vaxandi má hverjum manni ljóst vera að heildstæð stefna um „íslenska heilbrigðisþjónustu til framtíðar“ verður ekki mótuð án þessara mikilvægu undirstoða velferðarkerfisins. Stefnan þarf m.a. að geyma skilgreiningu á hlutverki og þjónustustigi hjúkrunarheimila og mikilvægra meðferðarstofnana. Í dag er þjónustustig hjúkrunarheimila hér á landi t.d. mun hærra en almennt gerist í Danmörku. Það er samkvæmt kröfu heilbrigðisyfirvalda þótt þau séu á sama tíma ekki reiðubúin til að greiða raunverð fyrir þjónustuna.

Sæmræmi sé milli krafna og fjárveitinga

Enda þó heilbrigðisstefna sé ekki aðgerðaáætlun þarf hún að vera markviss og raunhæf. Í stefnunni þarf að gæta þess að forðast draumsýnir og væntingar sem aldrei geta orðið að veruleika. SFV hafa ítrekað bent á að samræmi þurfi að vera í kröfum hins opinbera um þjónustu og því fjármagni sem ríkið er tilbúið til að greiða fyrir þjónustuna. Formlegar, gegnsæjar og vandaðar kostnaðargreiningar, sem gerðar hafa verið á þjónustulýsingum hins opinbera, sýna því miður að verulegar fjárhæðir vantar til að þjónustan standi undir raunkostnaði. Gott dæmi um það eru viðmið landlæknis um mönnun á hjúkrunarheimilum sem væntanlega eru hluti gæðaáætlunar sem hrinda á í framkvæmd. Ráðuneytið afneitar hins vegar viðmiðum landlæknis þegar kemur að verðlagningu þjónustunnar á þeim forsendum að ekki sé til fjármagn. Munar þar tugum prósenta. Sjálfsagt er að óska heilbrigðisráðherra og öllum öðrum til hamingju með að farið hafi verið af stað með þetta mikilvæga og metnaðarfulla verkefni sem heilbrigðisstefnan er. Það þarf bara að hafa í huga að stefnan verður að vera raunhæf og markviss – fyrir alla – og við erum líka sannfærð um að svo verður raunin.

 

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur