Leit

svæði efst í haus hægra megin

 Hrafnista á Workplace FacebookHrafnista á Facebook

 

 
 

Topp slide - reykjavik

Föstudagsmolar 30. nóvember 2018 - Gestaskrifari er Bryndís F. Guðmundsdóttir, deildarstjóri sjúkraþjálfunar Hrafnistu Hafnarfirði

 

Á morgun, 1. desember, fagna landsmenn aldarafmæli fullveldis Íslands. Þann dag, árið 1918, varð Ísland frjálst og fullvalda ríki og ríkisfáninn dreginn á stöng í stjórnarráðinu.  Með þessum áfanga náðist langþráð takmark fyrir sjálfstæði sem Íslendingar fengu svo að lokum árið 1944.   Þetta  eru merkileg tímamót sem fagnað hefur verið með margvíslegum hætti allt þetta ár. Hápunktur hátíðahaldanna verður svo á morgun, laugardag, og fjölmargir viðburðir haldnir víða um land í tilefni dagsins. Vonandi finna flestir eitthvað við sitt hæfi og ég hvet fólk til að taka frá tíma og minnast þessara merku tímamóta.

Að fá pláss á hjúkrunarheimili er mjög erfitt og biðin oft löng. Þegar fólk flytur á Hrafnistu er færni þess og heilsa því iðulega mikið skert. Starfsfólk á deild sjúkraþjálfunar Hrafnistu Hafnarfirði, undir stjórn sjúkraþjálfara,  leitar sífellt leiða til að þjónusta heimilismenn sem best og ná til sem flestra með viðeigandi úrræðum.  Í upphafi árs var tekin sú ákvörðun að útvíkka þjónustu sjúkraþjálfunar og auka viðveru sjúkraþjálfara  á hjúkrunardeildum. Markmiðið var að ná til fleiri íbúa því ekki  komast allir niður á 1. hæð í þjálfun. Sumum hentar alls ekki að fara út af sinni deild  og svo er ákveðinn hópur sem vill ekki fara. Ákveðið var að bjóða upp á reglubundna  gönguþjálfun, létta stólaleikfimi, Boccia, hugleiðslu og slökun. Til að verkefnið, sem unnið var að hluta í samvinnu við iðjuþjálfa, heppnaðist sem best var  mikilvægt að upplýsa starfsfólk hjúkrunardeilda um fyrirhugaðar  breytingar. Haldnir voru stuttir kynningarfundir með deildarstjórum á hverri deild sem svo miðluðu upplýsingum um tíma- staðsetningu og tegund þjálfunar áfram til sinna starfsmanna.  Fyrst  voru menn svolítið að prófa sig áfram með hvað kæmi best út faglega og hvað íbúum á hverju svæði þætti skemmtilegt. Nú hefur verkefnið staðið yfir í tæpt ár og gengið mjög vel. Flestir tímarnir hafa fest sig í sessi og það er mismunandi eftir deildum hvað hefur orðið vinsælast. Á einni hæð er það söngur og hreyfing í bland, annars staðar er það Boccia og svo hefur gönguþjálfun og leikfimi komið mjög vel út. Hugleiðsla og slökun, undir stjórn íþróttakennara, gekk vel á einni hæð en ekki á öðrum. Kjarni málsins er þó sá að nú nær starfsfólk sjúkraþjálfunar að sinna fleiri heimilismönnum en áður með viðeigandi hætti og aðrir fá aukna þjónustu því þeir vilja bæði taka þátt í þjálfuninni á hjúkrunardeildunum og halda áfram að koma niður í sjúkraþjálfun. Þar, á deild sjúkraþjálfunar, fer þó enn langstærsti hluti allra meðferða og þjálfunar fram enda aðstaða  mjög góð  sem og tækjabúnaður.

Fyrir skemmstu tók til starfa heilsunuddari á Hrafnistu Hafnarfirði. Hann hefur aðstöðu í sjúkraþjálfuninni, vinnur sem verktaki og er við frá hádegi á miðvikudögum. Honum hefur verið mjög vel tekið og meira en nóg að gera. Eftir að opnunartíma Hrafnistu á sundlaug deildarinnar lýkur, er hún leigð og lánuð út til nokkurra einstaklinga sem allir bjóða upp á mismunandi hópþjálfun. Má þar nefna sundleikfimi, ungbarnasund, jóga og  erobik. Auk þess fær Maríuhús, dagdvöl fyrir heilabilaða einstaklinga, að koma tvisvar í viku. Það má því með sanni segja að húsnæði deildarinnar nýtist vel til alls konar heilsueflingar

Aðventan hefst  nk. sunnudag, fjórum sunnudögum fyrir jól. Þá byrjar hinn formlegi undirbúningur jóla hjá þorra landsmanna. Litur aðventunnar er fjólublár, litur iðrunarinnar. Margir skreyta híbýli sín með aðventukransi, en hann  á uppruna sinn í Þýskalandi. Kransinn sjálfur er tákn eilífðarinnar. Kertin á kransinum eru síðan tendruð hvert á fætur öðru og lýsa upp vaxandi skammdegið sem nær hámarki sínu á vetrarsólstöðum þann 21. desember.  Aðventan er flestum tími gleði, tilhlökkunar og eftirvæntingar. Gleymum þó ekki að mörgum er þessi tími afar erfiður. Hvernig fólki líður og hvaða tilfinningar bærast innra með því er alls ekki alltaf augljóst. Gætum að hvernig við mætum hvert öðru í dagsins önn. Sýnum öðrum umhyggju, tillitsemi og vinsemd  í bæði orði og látbragði.

Til hamingju öll með fullveldisdaginn og njótið aðventunnar.

 

Bryndís Fanný Guðmundsdóttir

Sjúkraþjálfari Hrafnistu Hafnarfirði

 

 

Til baka takki

Banners neðst á forsíðu 1

Happdrætti DAS 

 

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur