Top header icons

Hrafnista á Workplace FacebookHrafnista á Facebook

Topp slide - reykjavik

Föstudagsmolar 16. nóvember 2018 - Pétur Magnússon, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 16. nóvember 2018.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

Biðlisti eftir hjúkrunarrýmum aldrei verið lengri í Íslandssögunni!

Í vikunni var kynnt skýrsla frá Embætti landlæknis um biðlista eftir hjúkrunarrými hér á landi. Fram kemur að biðlistarnir hafa verið að lengjast jafnt og þétt á síðustu árum og núna í september biðu að meðaltali 411 einstaklingar eftir hjúkrunarrýmum. Í september í fyrra biðu að meðaltali 342 og nemur fjölgunin á landsvísu því um 20%. Einnig kemur fram að biðtími eftir hjúkrunarrýmum hefur einnig lengst umtalsvert á undanförnum árum. Á þriðja fjórðungi ársins 2018 var miðgildi biðtíma 83 dagar en til samanburðar var miðgildi 70 dagar á þriðja fjórðungi ársins 2017. Athygli vekur að í  starfsemisupplýsingum Landspítala kemur fram að 1. október síðastliðinn hafi 16% af rúmum á Landspítala (án öldrunardeildar á Vífilstöðum og líknardeildar) verið notuð af öldruðum með gilt færni- og heilsumt sem biðu úrræðis utan spítalans. Þörfin fyrir starfsemi Hrafnistu hefur því líklega sjaldan verið meiri en einmitt nú.

Fyrir áhugasama er skýrslu Embættis landlæknis að finna hér:

https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/item35781/bid-eftir-hjukrunarrymi

 

Glæsileg heilsuvika í Hafnarfirði

Í dag lauk heilsuviku hjá okkur í Hafnarfirði. Þá var skemmtileg heilsudagskrá í boði fyrir íbúa og starfsfólk sem meðal annars fólst í fræðslu á hverjum degi og boðið var upp á skemmtilega hreyfingu. Þetta tókst mjög vel og þáttaka var mjög góð.

Vil ég óska öllum sem komu að heilsuvikunni í Hafnarfirði hjartanlega til hamingju með framtakið!

 

Nýtt Hrafnistu-bréf að koma út!

Í næstu viku berst okkur í hús nýtt eintak að Hrafnistubréfinu. Eins og þið sjálfsagt þekkið kemur það út tvisvar á ári í um tvö þúsund eintökum. Auk þess að vera dreift til heimilismanna Hrafnistuheimilanna fer það um víðan völl í samfélaginu; til annara hjúkurnarheimila, alþingismanna, sveitarstjórnarfólks og fleiri. Blaðið verður með hefðbundnu sniði og bið ég ykkur að dreifa því fljótt og vel til heimilisfólks þegar það berst inn á deildir til ykkar. Sjálfsagt er líka að leyfa því að liggja frammi í öllum setustofum og annars staðar þar sem fólk kemur saman enda er þetta mikilvægur þáttur í að kynna okkar merkilega og glæsilega starf.

Ef ykkur vantar aukaeintök er ykkur velkomið að snúa ykkur til Huldu S. Helgadóttur.

 

Fundur Landssambands heilbrigðisstofnanna um framtíðarsýn á skipulag og veitingu heilbrigðisþjónustu

Í dag hélt Landsamband heilbrigðisstofnanna aðalfund sinn og málþing. Landssambandið er vettvangur framkvæmdastjórna stærstu heilbrgiðisstofnanna landsins til samskipta, umræðu og samráðs. Þar höfum við á Hrafnistu (eitt hjúkrunarheimila) verið virkir þátttakendur síðustu ár enda erum við ein allra stærsta heilbrigðisstofnun landins og öldrunarmálefnin vigta sífellt þyngra í starfi annarra heilbrigðisstofnanna. Í kjölfar stutts aðalfundar var málþingið Framtíðarsýn á skipulag og veiting heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Þar voru frummælendur Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, Alma D. Möller, landlæknir, María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands og Jón Steinar Jónsson yfirlæknir. Í pallborðsumræðum á eftir bættust svo við Bjarni Jónasson forstjóri Sak, Páll Matthíasson forstjóri LSH og undirritaður. Málþingið var fróðlegt og fjörugt en í svona umræðum er mikilvægt að sjónarhorn okkar í öldrunarþjónustunni heyrist hátt og skýrt.

Svo er bara að vona að það skili sér eitthvað...

 

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur