Top header icons

Hrafnista á Workplace FacebookHrafnista á Facebook

Topp slide - reykjavik

Föstudagsmolar 9. nóvember 2018 - Pétur Magnússon, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 9. nóvember 2018.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

Haust- og vetrarfögnuðum lokið – kærar þakkir fyrir ykkar framlag!

Í gærkvöldi fór fram skemmtileg Vetrarhátíð íbúa Hrafnistu í Reykjavík. Með þessu lauk tímabili haustfagnaða/vetrarhátíða á öllum Hrafnistuheimilunum en nú hafa öll Hrafnistuheimilin haldið glæsilega fögnuði þar sem markmiðið er að skapa tilbreytingu fyrir íbúana okkar þar sem hægt er að klæða sig upp, fara fínt út að borða og njóta skemmtikrafta í hæsta gæðaflokki. Á flestum heimilum voru veislustjórar tónlistarfólkið Svavar Knútur og Berta en veislugestir sporðrenndu kótilettum í raspi á öllum heimilum sem aðalrétti kvöldsins.

Það eru ekki öll hjúkrunarheimili sem státa sig að því að bjóða íbúum sínum og gestum þeirra til veislu af þessu tagi. Glæsilegar myndir frá öllum fögnuðunum eru að finna hér á heimasíðunni okkar og mun úrval þeirra birtast í Hrafnistubréfinu seinna í mánuðinum.

Til þess að svona veislur geti heppnast þurfa fjöldamargir úr okkar starfsmannahópi að leggjast á eitt við undirbúning, framkvæmdina sjálfa og frágang. Slíkt er ekki sjálfgefið.

Ég er ykkur starfsfólki mjög þakklátur fyrir að vera tilbúin að leggja á ykkur að gera þessa viðburði jafn glæsilega og raun ber vitni! Kærar þakkir!

 

Fundað með trúnaðarmönnum

Á næstunni munum við Berglind mannauðsstjóri, funda með trúnaðarmönnum Hrafnistuheimilanna, ásamt forstöðumanni á hverju heimili. Síðustu ár hefur skapast sá skemmtilegi siður að við boðum alla trúnaðarmenn á hverju heimili til fundar (alls 5 fundir) 1-2svar á ári. Tilefnið er ekkert sérstakt heldur er farið yfir það sem er á döfinni í „Hrafnistulífinu“ en einnig er gott að heyra í fólki um helstu málefni sem trúnaðarmönnum liggur á hjarta.

Það er mjög mikilvægt fyrir stórt fyrirtæki eins og okkar að hjá okkur sé virkt og öflugt net trúnaðarmanna. Það nýtist bæði starfsfólki og fyrirtækinu sjálfu.

Dagsetningarnar verða eftirfarandi og eiga allir trúnaðarmenn að hafa fengið boð á fundina. Látið Berglindi mannauðsstjóra endilega vita ef þið vitum um einhverjar brotalamir á því.

12. nóvember – Reykjavík

15. nóvember - Garðabær

19. nóvember – Reykjanesbæ

21. nóvember – Kópavogur

23. nóvember - Hafnarfjörður

 

Kótilettudagur Hrafnistu – 29. nóvember

Framkvæmdaráð hefur nú ákveðið að Hrafnista eigi til framtíðar einn hátíðisdag sem heitir Kótilettudagur Hrafnistu. Hann verður haldinn í nálægð við stofndag Sjómannadagsráðs (25. nóvember) ár hvert. Þá verður þjóðarréttur Hrafnistu í hádegismatinn – lambakótilettur í raspi með léttbrúnuðum kartöflum, grænum baunum, rauðkáli og tilheyrandi. Íbúum og starfsfólki er boðið í matinn. Hvert heimili verður svo hvatt til að vera með einhverja skemmtilega viðburði tengda þessu ef hægt er en á hverju ári verður eitt heimilið í brennidepli. Þar verður sérstök kótilettudagskrá í boð (sem verður nánar kynnt síðar). Að þessu sinni verður það Laugarásinn sem fær mestu athyglina en dagskrá þar er í vinnslu.

Allt verður þetta kynnt vel og rækilega þegar nær dregur. Vonandi líst öllum vel á þessa skemmtilegu tilbreytingu sem verður fimmtudaginn 29. nóvember þetta árið.

 

Heilbrigðisþing

Á föstudaginn fyrir viku tók ég þátt í heilbrigðisþingi 2018. Þingið var haldið af heilbrigðisráðherra og velferðarráðuneyti og var öllum opið. Markmið þingsins var að skapa vettvang fyrir kynningu og umræður um drög að nýrri heilbrigðisstefnu, stefnu fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi til ársins 2030. Yfir 200 manns mætti til þingsins og voru þátttakendur úr ólíkum áttum. Drög að heilbrigðisstefnu voru kynnt og rædd. Þetta var ágætis þing en heldur þótti mér lítið vera í heilbrigðisstefnunni um starfsemi hjúkrunarheimila, dagdvala og endurhæfingarstarfsemi. Ýmsir gerðu athugasemdir við það og vonandi komust þær athugasemdir til skila. Því er samt ekki að neita að kallað hefur verið eftir stefnu í málaflokknum lengi og vonandi verður slík stefna að veruleika á þessum vetri.

 

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur