Top header icons

Hrafnista á Workplace FacebookHrafnista á Facebook

Topp slide - reykjavik

Föstudagsmolar 19. október 2018 - Gestaskrifari er María Fjóla Harðardóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðissviðs Hrafnistuheimilanna.

Gleði og fjörugur starfshópur er það sem einkennir Hrafnistuheimilin. Fólk, gestir og aðrir, sem koma inn á heimilin segja ansi oft, í óspurðum fréttum, hvað það sé gott andrúmsloft inni á Hrafnistu og hvað það sé mikil ró og friður þrátt fyrir stuð og stemningu. Þá virðist vera sama hvaða heimili er heimsótt. En þetta er alveg rétt, ég sé þetta sjálf þegar ég rúnta á milli heimilanna líkt og ég fæ tækifæri til að gera daglega.

Við eyðum talsverðum tíma í vinnunni eða allavega stórum parti af vikunni, mánuðinum og árinu. Hinn partinn reynum við að sinna okkar ástvinum, þreyta seríu á Netflix eða fara í göngutúr með hundinn og restinni eyðum við sofandi eða reynum að sofa.

Ég var á fyrirlestri um daginn þar sem var verið að ræða um mikilvægi þess að vera jákvæður og glaður í vinnunni þegar horft er til upplifunar á streitu, álagi og að brenna út í vinnu. Þar var einnig rætt um mikilvægi þess að sjá árangur af sínu starfi. Þetta hitti mig svolítið beint í hjartað og ég held að það sé mikill sannleikur þarna. Ég hef verið að hugsa þetta út frá Hrafnistu, fyrirtækinu sem ég vinn hjá, út frá þessum tveimur þáttum sem eru gleði og árangur. Ef þetta tvennt er skoðað þá er það alveg augljóst að við erum rík af gleði. Þar eru starfsfólk og íbúar í aðalhlutverki. Það er svo gaman að fylgjast með hversu mikið starfsmenn leggja sig fram við að hafa gaman og gleðja aðra og hvað þetta er smitandi inn í starfið með okkar íbúum. Sjáið sem dæmi bara Bleika daginn og öskudaginn. Þar skapast ár eftir ár samstaða um að vera með og jafnvel samkeppni um að slá árlegt met. Búningar eru vel ígrundaðir í þeim eina tilgangi að hafa gaman og leyfa sér að hlægja, fíflast og fara út fyrir þægindaramman. Gleðin blasir við manni þrátt fyrir að ásamt því að starfið feli í sér ánægju þá felur það einnig í sér að við erum daglega að takast á við mikla erfiðleika með okkar íbúum, hvort sem eru veikindi, reiði eða sorg svo dæmi séu tekin.

En við fáum einnig að sjá og veita vellíðan, ánægju og öryggi. Við fáum stöðugt að heyra hrós frá íbúum og aðstandendum sem við megum ekki týna í neikvæðu röddunum. Gæðavísar úr RAI-mælitækinu sýna okkur einnig tölulegar niðurstöður um hversu góða umönnun og þjónustu starfsfólk Hrafnistu er að veita. Og þá gildir að við vinnum öll sem heild hvort sem er hjúkrun, endurhæfing, eldhús, borðsalur, ræsting, iðnaðarmenn, stoðdeildir eða aðrir.

Ég bið ykkur um eitt, haldið áfram að leyfa gleðiskrímslinu að sleppa af og til út, skemmtið sjálfum ykkur og öðrum. Hvað árangurinn varðar, þá eruð þið svo sannarlega að skila árangri í starfi á hverjum einasta degi. Við erum með tugi vitna fyrir því sem og tölulegar upplýsingar.

 Ég ætla að ljúka þessu með gullkorni sem ég heyrði á fyrirlestri um Workplace í dag: „Rykug ríkishlussa.“ Við ætlum aldrei að lenda þar......enda erum við í einkageiranum ?Takk fyrir að vera þið ?

 

María Fjóla Harðardóttir,

Framkvæmdastjóri heilbrigðissviðs Hrafnistuheimilanna

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur