Leit

svæði efst í haus hægra megin

 Hrafnista á Workplace FacebookHrafnista á Facebook

 

 
 

Topp slide - reykjavik

Föstudagsmolar 5. október 2018 - Gestaskrifari er Sigurður Garðarsson, framkvæmdastjóri Sjómannadagsráðs.

Upplifun dagsins.       

Þegar ég geng um húsakynni Sjómannadagsráðs þá skýtur þessari hugsun oft upp í kollinum á mér.

Forysta og frumkvæði til athafna skiptir samfélagið okkar afar miklu máli. Það eru þó alls ekki allir sem búa yfir þeim eiginleikum að taka frumkvæði, en þeir sem það gera eru ómetanlegir. Félagið sem ég starfa fyrir, þ.e. Sjómannadagsráð, er einstaklega gott dæmi um forystu og frumkvæði. Með athöfnum sínum og útsjónarsemi hefur það unnið algjört þrekvirki á s.l. 80 árum.

Ég hef  oft velt því fyrir mér hvernig aðstöðu og þjónustu við aldraða væri háttað í dag, ef ekki hefði notið frumkvæðis sjómanna fyrir ríflega 80 árum síðan. Það er að vísu ekki hægt að setja sig inn í þær kringumstæður sem þeir voru í fyrir 80 árum, en það sem þá gerðist var eitthvað einstakt. Sjómenn, fjölskyldur þeirra, fyrirtæki og almenningur sameinuðust og lögðu nótt við nýtan dag við að afla fjár til að reisa dvalarheimili fyrir aldraða sjómenn.

Nú rúmum 60 árum síðar erum við orðin vel á annað þúsund sem höfum atvinnu af því að veita öldruðum aðstöðu og þjónustu sem þeir treysta daglega á að hafa aðgang að.

Félagið okkar hefur verið brautryðjandi í uppbyggingu á aðstöðu til að mæta þörfum þeirra elstu í kynslóð hvers tíma í meira en 60 ár frá stofnun Hrafnistu. Geri aðrir betur en að reisa 70 þúsund fermetra af byggingum með 650 hjúkrunar- og dvalarrými, 350 íbúðum, kvikmyndahús, frístundahúsasvæði, minnisvarða og margt fleira í þágu samfélagsins. Allt er þetta gert án þess að sjómenn færu fram á nokkurn arð af fyrirhöfn sinni.

Brjóstmyndirnar sem blasa við okkur í anddyri Hrafnistu í Reykjavík eru af þeim Henrý Hálfdanarsyni, Pétri Sigurðsyni, Guðmundi Oddssyni og Guðmundi Hallvarðssyni. Þessir forystumenn hafa fylgt þeirri hugsjón sem félagið var stofnað um og hafa haft frumkvæði að því að koma ótrúlega mörgum verkum áfram, sem annars hefðu ekki orðið að veruleika. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þeir hafi oft mætt því viðmóti að þeir væru að ganga allt of langt og jafnvel að ganga yfir aðra. En þeir höfðu kjark, elju, og frumkvæði.

Þetta er til eftirbreytni fyrir okkur sem í dag störfum hjá fyrirtækjum Sjómannadagsráðs.

 

Sigurður Garðarsson

Framkvæmdastjóri Sjómannadagsráðs

 

 

Til baka takki

Banners neðst á forsíðu 1

Happdrætti DAS 

 

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur