Leit

svæði efst í haus hægra megin

 Hrafnista á Workplace FacebookHrafnista á Facebook

 

 
 

Topp slide - reykjavik

Föstudagsmolar 21. september 2018 - Gestahöfundur er Svanhildur Blöndal, prestur á Hrafnistu í Reykjavík og Hafnarfirði

 

Í starfi mínu sem prestur hef ég oft verið spurð að því: Hvað merkir orðið sálgæsla?   Samkvæmt orðanna hljóðan fjallar sálgæsla um gæslu sálarinnar, reyndar hefur sálgæslan manninn allan að viðfangsefni.  Manneskjan er jú, meira en hold og blóð.  Í henni býr sál og tilfinningar.  Þess vegna er svo mikilvægt að þjóna manneskjunni allri. Í sálgæslunni verður til trúnaðarsamband þar sem fólk deilir persónulegri reynslu og lífssýn.  Sálgæslan miðar ekki að því að taka erfiðleikana frá einstaklingnum, heldur styðja einstaklinginn til þess að að hann geti risið undir mótlæti sínu.  Bara það að færa áhyggjur sínar í orð, segja það sem hvílir á hjartanu upphátt við prestinn, það hef ég séð að hjálpar oft.  En til þess að svo verði þarf fyrst að skapa traust. 

Stundum er sálgæslunni líkt við brúargerð vegna þess að sálgæslan er tenging á milli Guðs og manns og manns og annars.  Markmiðið með henni er að hugga, græða, styrkja og leiðbeina fólki.  Við getum sagt að sálgæslan sé vegferð með þeim sem aðstoð þurfa og sú vegferð getur bæði verið stutt eða löng.  Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að við verðum að fylgja einstaklingnum á hans leið – mæta honum þar sem hann er.  Við yfirfærum ekki okkur sjálf á aðra, við ætlum þeim ekki að vera og vilja það sem við sjálf erum og kjósum.  Jafnframt höfum við í huga að Kristur markar leiðina.  Hann er miskunnsami Samverjinn okkar allra, fyrirmyndin sem gefur okkur kraftinn til eftirfylgdar.  Kristur mætti og sinnti samferðafólki sínu og þeim sem leituðu til hans á persónulegan og kærleiksríkan hátt. 

Heimilisfólkið hefur átt langa ævi, sum hafa gengið hinn breiða veg án mikilla átaka meðan önnur hafa þurft að fara yfir hóla og hæðir.  Eins og gengur bera mörg þeirra harm sinn í hljóði enda er heimilisfólkið sú kynslóð sem ekki þótti gott að bera harm sinn á torg úti.  Þau sem eru á efri árum núna hafa ekki alist upp við að tala beint um líðan sína og tilfinningar í tengslum við það sem á dagana hefur drifið. 

Það er mikilvægt fyrir þau sem líður illa og eru að glíma við sorg að hafa einhvern sem er tilbúinn til að hlusta og er til staðar, þegar að þrengir og þess vegna er mikilvægt að muna eftir því að samtalið er mikilvægasta samskiptaleið okkar.  Og kannski sú, sem er hvað vanmetnust, einhverra hluta vegna!  Kannski er það vegna þess að það er ekki mælanlegt eða sýnilegt, eins og þegar við skiptum um umbúðir á sárum.  Mér er svo minnisstætt þegar ég var á fæðingardeildinni þegar ég átti tvíburna okkar, þá var ljósmóðir sem gaf sér góðan tíma að tala við mig og gaf virkilega mikið af sér.  Allt í einu lítur hún á klukkuna og segir:  Guð minn góður, ég má ekki hangsa svona.  En í mínum huga var þetta góð hjúkrun.  Samtalið var mér meira virði en að skipta á umbúðum á skurðinum en tvíburarnir voru teknir með keisaraskurði.

 

Ég finn það í starfi mínu sem prestur að heimilisfólkið kann að meta það, þegar þeim er sýnd umhyggja og hlýja. Það er líka þannig að skapandi samtal miðar að hugarhreinsun, tekur tilfinningar viðmælandans gildar og bregst við því sem býr að baki orðanna.  Í samfylgdinni er m.a. reynt að hjálpa fólki til að tjá sig og opna þannig fyrir tilfinningar.  Hins vegar er það heimilisfólkið sem ákveður, hvað það vill tala um og hversu mikið það vill opna sig.  Við megum aldrei, ryðjast inn í leynda afkima annarra.  Flest finna þó hjá sér þörf til að tjá sig, þegar að þeim þrengir. 

Minningar gegna nefnilega mikilvægu hlutverki í andlegu lífi og í því sem kallað er að þekkja sjálfan sig. Lífsreynsla hvers og eins er fjársjóður sem viðkomandi varðveitir innra með sér.  Þegar litið er til baka er það ekki síst í reynslunni sem einstaklingurinn finnur tilgang lífsins.

 

Með vetrarkveðju, Svanhildur

 

 

 

Til baka takki

Banners neðst á forsíðu 1

Happdrætti DAS 

 

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur