Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 11. maí 2018 - Pétur Magnússon, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 11. maí 2018.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

Sumarið er tíminn!

Einn af vorboðunum á Hrafnistu er sumarafleysingafólkið og ótvíræður sumarboði eru öll nýju andlitin sem eru á sveimi þar sem sumarstarfsfólkið okkar er. Þetta árið erum við með 200-250 manns í sumarafleysingu sem gerir okkur að einum stærsta vinnustað landsins sem ræður sumarafleysingafólk. Mér finnst sjálfum alltaf gaman á þessum árstíma þar sem ferskur blær fylgir öllu þessu nýja fólki og ýmsar nýjar hugmyndir kvikna. En á móti kemur að flest þurfum við hin að vera með aukaskammt af þolinmæði í farteskinu þennan tíma þar sem nýliðar þurfa tíma og æfingu til að ná tökum á öllu sem gera þarf.

Um leið og ég býð sumarafleysingafólk Hrafnistuheimilanna hjartanlega velkomið til okkar vil ég minna okkur hin sem lengur hafa starfað á Hrafnistu að sýna nýja fólkinu umburðarlyndi og þolinmæði með stór bros á vör.

 

Sjómannadagsráð selur þjónustumiðstöð og sumarbústaði í Hraunborgum

Eins og mörgum er kunnugt á Sjómannadagsráð landsvæði í Grímsnesi á Suðurlandi sem heitir Hraunkot. Þar er fjölmenn sumarhúsabyggð og á Sjómannadagsráð þjónustumiðstöð með tjaldsvæði, sundlaug og 9 sumarbústaði á svæðinu. Um árabil hefur starfsfólk Hrafnistu getað fengið leigða sumabústaði á svæðinu á góðu verði og hefur það verið vinsælt í gegnum tíðina þó svo að ásóknin hafi minkað töluvert á síðustu árum.

Nú er að verða breyting á þessu því Sjómannadagsráð hefur ákveðið að ganga til samninga um að selja þjónustumiðstöðina og sumarhúsin. Uppsafnað viðhald er mjög dýrt auk þess sem starfsemin hefur verið rekin með tapi lengi. Landssvæðið verður þó ekki selt. Þetta þýðir að afnot starfsfólk Hrafnistu að sumarhúsum í Hraunborgum leggjast þá af og verða ekki lengur í boði. Eftir því sem framboð sumarhúsa hjá verkalýðsfélögum og öðrum hefur aukist hefur aðsóknin minnkað mikið hjá okkur þannig að ég vona að þessi breyting komi ekki að sök. Þar með líkur þessum merka og skemmtilega sumarhúsakafla í sögu Hrafnistu.

 

Uppfært skipurit Hrafnistu

Stjórn Sjómannadagsráðs hefur nú samþykkt uppfært skipurit Hrafnistu. Skipurit okkar er mikilvægur þáttur í því að hafa boðskipti og skipulag með skýrum og markvissum hætti. Í svo stóru fyrirtæki sem við erum, geta verið breytingar á skipulagi og stjórnendum öðru hverju. Það er því mikilvægt að uppfæra skipuritið með reglubundnum hætti. Skipuritið er ætíð birt á heimasíðunni okkar en það er einnig að finna í viðhengi.

Rétt er að hafa í huga að skipuritið er í raun alltaf ljósmynd að skipulagi þess dags sem það er samþykkt. 

 

Starfsafmæli í apríl

Að vanda áttu nokkrir vaskir starfsmenn úr okkar glæsta starfsmannahópi formleg starfsafmæli nú í apríl og hafa þeir undanfarið verið að fá afhentar viðeigandi gjafir af því tilefni. Þetta eru:

3 ára starfsafmæli: Harpa Gunnlaugsdóttir á Báruhrauni í Hafnarfirði og Kristín Þorkelsdóttir, Sara Lind Guðmundsdóttir og Guðrún Valtýsdóttir, allar á Nesvöllum.

5 ára starfsafmæli: Kristín Þóra Benediktsdóttir ræstingastjóri og Sigrún Ösp Barkardóttir á Bylgjuhrauni, báðar í í Hafnarfirði.

10 ára starfsafmæli: Kolbrún Gestsdóttir á Ölduhrauni í Hafnarfirði.

15 ára starfsafmæli: Sólveig Hauksdóttir á Lækjartorgi í Reykjavík.

Hjartanlega til hamingju allar og kærar þakkir fyrir ykkar góðu störf!

 

Góða helgi!

 

Bestu kveðjur,

Pétur

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur