Leit

svæði efst í haus hægra megin

 Hrafnista á Workplace FacebookHrafnista á Facebook

 

 
 

Topp slide - reykjavik

Föstudagsmolar 20. apríl 2018 - Gestaskrifari er Sigurður Ágúst Sigurðsson, forstjóri Happdrættis D.A.S.

b_250_250_16777215_00_images_frettir_2017_Smaralind-2013-F_crop.jpeg

Gleðilegt sumar

Glæsileg vinningskrá – meiri vinningslíkur

 

Áramótin framundan í Happdrætti DAS.

Nýtt happdrættisár byrjar í maí og er fyrsti útdrátturinn föstudaginn 11. maí n.k. Vinningaskráin verður jafn glæsileg og árið sem nú er að líða. 6 aðalvinningar, hver að upphæð 30 milljónir verða dregnar út á árinu á tvöfaldan miða. Auk þess 6 aðalvinningar á 6 milljónir hver og 40 aðalvinningar á 4 milljónir hver m.v. tvöfaldan miða.

Heildarverðmæti vinninga verður rúmar þúsund milljónir króna. Heildarfjöldi vinninga verður 51.516 en aðeins 80.000 eru í hverjum útdrætti.

Miðaverð helst óbreytt.

Einfaldur miði kostar 1.500 kr. og tvöfaldur 3.000 kr. Hátt í 50% af hverjum seldum miða fer í vinninga. Aðeins eitt happdrætti er með hærri vinningshlutfall en það dregur einu sinni í mánuði á meðan Happdrætti DAS dregur vikulega. Það þýðir 4 sinnum meiri möguleika á að hljóta aðalvinning í Happdrætti DAS. Vinningshlutfallið segir ekki allt.

30 ára starfsaldri náð.

Í haust verða 30 ár liðin síðan ég hóf störf á Hrafnistu sem aðalbókari. Í maí 1990 tók ég við starfi forstjóra Happdrættis DAS. Langur tími á stuttri ævi. Tvær starfsstúlkur eru á hælunum á eftir mér í starfsaldri en þær eru komnar með 28 ára starfsaldur. Happdrættið hefur verið heppið með starfsfólk allt frá því að það var stofnað 1954 og því í raun regla frekar en undantekning að starfsfólkið nái svo háum starfsaldri.

Á þessum 30 árum hefur margt drifið á daga í rekstri happdrættisins. Sem dæmi hófst Bingó Lottó 1994 og var sýnt á Stöð 2. Stjórnandi var Ingvi Hrafn Jónsson. Ef fólk fékk bingó var hringt inn í þáttinn. Einnig var dreginn út bingómiði og sá fékk að vera í næsta þætti og velja úr hólfum. Ef hann fékk vinning úr 5 neðstu röðinni fékk hann að velja úr næstu röð fyrir ofan og ef hann fékk vinning aftur gat hann haldið áfram og lent í efsta hólfinu sem þá var bifreið.                        Eftir að Bingó Lottó var hætt haustið 1995 tók DAS 2000 við árið 2000. Þeir þættir voru sendir út á RÚV og var Sigurlaug Jónasdóttir stjórnandi.                                                          

Í DAS 2000 þáttunum fór fram útdráttur í sjálfu happdrættinu en auk þess var boðið upp á Símalottó 9072000. Fólk sem átti miða í Happdrætti DAS var þá búið að hringja í 9072000 og skrá símanúmerið þar. Hver hringing kostaði 100 kr. Í þættinum var hringt í það símanúmer sem upp kom og fékk þá viðkomandi þann vinning sem upp kom á lukkuhjólinu. Vinningar voru allt frá vöruúttekt í Hagkaup og upp í bíl. Einnig var fjöldi annarra góðra vinninga í boði og fengu þátttakendur send SMS-skilaboð í símann sinn.

Allir þessi þættir voru í beinni útsendingu. Þrátt fyrir það gengu útsendingar mjög vel. Enn í dag minnist fólk á Bingó Lottó við mig. Börn sem nú eru orðin fullorðin og sögðust hafa haft mikið gaman af enda var þetta fjölskylduþáttur.            

Happdrætti DAS hefur breyst í áranna rás. Stjórnarmenn happdrættisins á hverjum tíma hafa verið óhræddir að gera breytingar og taka upp nýungar. Happdrætti DAS var fyrst fyrirtækja að auglýsa í sjónvarpi í lit. Fyrst til að bjóða upp á að greiða happdrættismiða með kreditkortum og fyrst flokkahappdrætta að draga vikulega allt árið. Til viðbótar má nefna það að árið 1996 hófst sala happdrættismiða í Færeyjum. Nú 22 árum síðar eru Færeyingar enn miðaeigendur og eru afar áhugasamir.  Þetta útspil hefur gefið okkur starfsfólkinu mikið og gott að hafa Færeyinga í viðskiptum. Íslendingar eru hinsvegar kröfuharðari með litla þolinmæði eftir því að fá vinning. Kvarta stundum eftir nokkrar vikur jafnvel að fá ekki vinning.

Stöndum saman og hvetjum fólk til að kaupa miða. Um leið og góðu málefni er lagt lið er von á góðum vinningum.

 

Fyrir hönd Happdrættis D.A.S. og starfsfólks óskum við starfsfólki Hrafnistu í Reykjavík, Hafnarfirði, Kópavogi, Reykjanesbæ og nú Garðabæ gleðilegs sumars.

 

Sigurður Ágúst Sigurðsson,

forstjóri  Happdrættis D.A.S.

 

 

 

 

 

Til baka takki

Banners neðst á forsíðu 1

Happdrætti DAS 

 

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur