Leit

svæði efst í haus hægra megin

 Hrafnista á Workplace FacebookHrafnista á Facebook

 

 
 

Topp slide - reykjavik

Föstudagsmolar 16. mars 2018 - Gestaskrifari er Sigrún Stefánsdóttir, forstöðumaður Hrafnistu í Reykjavík.

 

Við á Hrafnistu í Reykjavík fáum iðulega góða gesti í heimsókn, sem vilja koma og kynna sér starfsemi Hrafnistu. Þetta eru bæði einstaklingar og hópar af ýmsum toga bæði innlendir sem erlendir. Við fáum í heimsókn til dæmis heilbrigðisstarfsfólk, nema, kennara, fólk frá hinum ýmsu félagasamtökum, opinbera starfsmenn og stjórnmálamenn. Það er stutt síðan að hingað komu í heimsókn heilbrigðiskennarar frá Svíþjóð og hópur frá Færeyjum til að kynna sér starfsemi Hrafnistu.

Í gær kom Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra til okkar í heimsókn til að ræða um öldrunarmál við stjórnendur Hrafnistu ásamt því að kynna sér starfsemi Hrafnistu og fara í skoðunarferð um húsið. Það var mjög skemmtilegt að fylgja henni um húsið þar sem við litum inn á nokkrum stöðum. Við komum við í dagþjálfun þar sem Finnbjörg deildarstjóri kynnti fyrir henni starfsemi deildarinnar ásamt því sem hún heilsaði upp á starfsmenn og gesti dagþjálfunar. Næst lá leiðin upp á Helgafell en þar var sherryklúbburinn saman kominn.  Þar var hópur íbúa og gestir dagþjálfunar að spjalla saman, skoða gamlar myndir og dreypa á sherry. Heilbrigðisráðherra gaf sér góðan tíma í að spjalla við íbúa og gesti ásamt því að skála við hópinn.

Næst lá leiðin á hjúkrunardeildina Miklatorg þar sem einn íbúi okkar hafði veitt góðfúslegt leyfi sitt til að sýna henni herbergið sitt. Leist henni ljómandi vel á aðstöðuna enda einstaklega fallegt herbergi og  öllu haganlega komið fyrir hjá viðkomandi. Því miður gafst ekki tími til að sýna henni fleiri deildir en við förum iðulega líka á vinnustofu og í sjúkraþjálfun þegar við erum með gesti í skoðunarferð. Á bakaleiðinni fyrir framan Skálafell tóku á móti okkur ljúfir tónar en þar var Bjarni bakari mættur að spila á píanóið. Svandís hafði á orði hvað það væri góður andi í húsinu og ánægjulegt að sjá hvað mikið væri um að vera og hvað hún hitti marga sem hún þekkti. Að lokum kíkti hún við inn í Sjómanndagsráð þar sem hún heilsaði upp á  hóp starfsmanna sem var á fundi að kynna sér niðurstöður RAI.

 Það er alltaf gaman að taka á móti góðum gestum og fræða þá um starfsemi Hrafnistu og svara hinum ýmsu spurningum.  Ég fyllist alltaf stolti af því að kynna fyrir gestum okkar Hrafnistu og því góða starfi sem fer fram hér. Allir sem koma hér í heimsókn hafa að orði hvað allt sé flott og hvað mikið, fjölbreytt og gott starf fari hér fram. Í allri þeirri umræðu sem er um heilbrigðismál á Íslandi þá erum við gjörn á að tala allt niður og gleymum iðulega að tala um það sem vel er gert. Auðvitað má alltaf lagafæra og gera enn betur en þegar upp er staðið  þá er ég stolt af Hrafnistu, vinnustaðnum mínum.

Góða helgi.

 

Sigrún Stefánsdóttir

Forstöðumaður Hrafnistu í Reykjavík.

 

 

Til baka takki

Banners neðst á forsíðu 1

Happdrætti DAS 

 

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur