Leit

svæði efst í haus hægra megin

 Hrafnista á Workplace FacebookHrafnista á Facebook

 

 
 

Topp slide - reykjavik

Föstudagsmolar 9. mars 2018 - Gestaskrifari er Hálfdan Henrysson, formaður Sjómannadagsráðs

b_250_250_16777215_00_images_frettir_2017_fostudagsmolar_2018.jpeg

Föstudagsmolar, 9. mars 2018.

 

Síðastliðinn þriðjudag urðu ánægjuleg tíðindi í sögu sjómannadagsins þegar útboð var auglýst í dagblöðunum um uppsteypu og frágang utanhúss á nýbyggingum við Sléttuveg í Reykjavík. Sjómannadagsráð og dótturfyrirtæki þess Ölduvör ehf. í samvinnu við Reykjavíkurborg vinna að uppbyggingu hjúkrunarheimilis  við Sléttuveg.  Hjúkrunarheimilið er fyrsti áfangi í stærri uppbyggingu Sjómannadagsráðs á sömu lóð sem saman stendur af hjúkrunarheimili, þjónustumiðstöð og íbúðum fyrir aldraða.

Þjónustumiðstöðin verður samtengd hjúkrunarheimilinu og íbúðum og verður innangengt milli allra húsa á lóðinni.  Í  þjónustumiðstöðinni er gert ráð fyrir matsölu og kaffihúsi með opnum garði mót suðri sem væntanlega verður hægt að opna út í á góðviðrisdögum.  Gott skjól verður í garðinum sem byggingarnar mynda og gera má ráð fyrir að verði vinsæll staður fyrir íbúa okkar og aðra úr nærliggjandi húsum.

Um ellefu ár eru síðan fyrstu hugmyndir um þessar byggingar áttu sér stað og lóð til framkvæmdanna var veitt af borgaryfirvöldum. Það var loks á síðasta ári að tekin var ákvörðun og leyfi fékkst til  að hefja byggingu hjúkrunarheimilis sem Sjómannadagsráðsmenn töldu skilyrði fyrir byggingu þjónustuhúss og íbúða fyrir aldraða.  Það hefur ætíð verið stefna Sjómannadagsráðs að tengja slíkar byggingar svo samrýma mætti ýmsa þjónustu, íbúum öllum til hagræðingar.

Á hjúkrunarheimilinu er gert ráð fyrir allt að hundrað íbúum með allri þeirri þjónustu sem slíkum rekstri fylgir og 140 íbúðum fyrir aldraða.

Í Hafnarfirði hefur verið lögð inn hjá Skipulagsfulltrúa tillaga að breytingu á deiliskipulagi á lóð Hrafnistu. Gert er ráð fyrir fjórum fjölbýlishúsum þar af verður ein sem tengist beint vesturenda B álmu Hrafnistu.  Um yrði væntanlega að ræða leiguíbúðir með sama eða svipuðu fyrirkomulagi og eru á öðrum íbúðum Sjómannadagsráðs í Hafnarfirði við Hraunvang, við Boðaþing í Kópavogi og við Brúnaveg og Jökulgrunn í Reykjavík.  Á sínum tíma var gert ráð fyrir stækkun  hjúkrunarheimilisins á þessari lóð en nú er ljóst að Sjómannadagsráð mun ekki fá leyfi til þeirrar byggingar í náinni framtíð. Því er freistandi að kanna aðrar leiðir og ljóst er að mikil þörf verður  á slíkum íbúðum á næstu árum.

Þá er unnið að breytingum á innri gerð Hrafnistu í Hafnarfirði enda fjörtíu ár síðan húsið var byggt og þörf á lagfæringum til móts við nýja tíma. Allar breytingar verða gerðar í fullu samráði við starfsfólk Hrafnistu, sem þegar hefur komið að hugmyndum. Okkur er það löngu ljóst að slíkar hugmyndir verða ekki gerðar nema í fullu samráði við starfsfólk, þar sem fram koma bæði reynsla og þekking.

Á Hrafnistu í Reykjavík höfum við átt við erfitt mál að etja en það er lagfæring sundlaugarinnar.  Tugi milljóna króna kostar að lagfæra þak sundlaugarbyggingarinnar en vegna hönnunargalla frá upphafi reksturs laugarinnar er þak hennar ónýtt. Ennfremur hefur reynslan sýnt að laugin hefur verið lítið sótt af íbúum Hrafnistu bæði hjúkrunarheimilis og leiguíbúða. Uppi hafa verið háværar raddir um að hætta rekstri laugarinnar með öllu og finna húsinu annað verkefni. Þetta er mikið vandamál og sitt sýnist hverjum. Helstu notendur laugarinnar hafa verið íbúar í nágrenninu sem hafa marg oft líst vanþóknun sinni á að ekki hafi verið gert við húsið. Engin ákvörðun hefur verið tekin en ljóst að það verður að gera innan skamms.

Það getur stundum verið skemmtilegt að skoða hvað fyrirrennarar okkar í Sjómannadagsráði voru að bauka við hér á árum áður. Þá skorti aldrei kjark og hugmyndir til að takast á við verkefni þó ekki kæmust þau öll til framkvæmda.

Til að mynda komu fram hugmyndir um að sjómannasamtökin létu byggja hótel á Kanaríeyjum fyrir Íslenska sjómenn og lesa má um í Sjómannadagsblaðinu frá árinu 1966.

Í greininni sem er eftir Guðmund H. Oddsson útgerðarmann og skipstjóra, einn af frumkvöðlum Sjómannadagsins og gjaldkera samtakanna til margra ára, segir m.a. eftirfarandi: „Ég tel heldur ekki fjarstæðukennt með hliðsjón af þeirri staðreynd að fjarlægðirnar eru að hverfa, að íslensk sjómannastétt eða Íslendingar sem heild sköpuðu sér íslenska sólarnýlendu í glæsilegu umhverfi á suðurhveli jarðar. Allir vita hver aflgjafi sólin er öllu lífi jarðar, og það er skammsýni, að líta ekki til framtíðarinnar, með því að undirbúa jarðneskan heilsubrunn fyrir Íslendinga.“

Nú þegar þúsundir Íslendinga dvelja á þessum sólríku slóðum sér til hressingar koma þessar hugmyndir upp í hugann.  Af þessu varð nú reyndar aldrei eins og allir vita en hugmyndinni var komið á framfæri og ein af  mörgum hugmyndum sem fram komu. Trúlega hefur enginn búist við á þeim tíma sem um ræðir að hugmyndin yrði að veruleika, en gaman samt að hafa kjark til að setja svona hugmynd fram. Um þetta leyti  höfðu sumar þjóðir komið sér upp hvíldar og hressingarheimilum á sólarströndum bæði fyrir aldraða og aðra sem þurftu þess með. Mér er enn minnistætt sumarið 1963 en ég var þá háseti á kaupskipinu Hvítanesi frá Keflavík. Við lágum í La Canal á Ibiza og vorum að lesta salt fyrir Færeyinga.  Leiðir okkar skipverjanna að loknum vinnudegi lágu upp á ströndina og þar kynntumst við fjölda aldraðs fólks sem gaf sig á tal við okkur.  Fólkið á ströndinni voru aldraðir Þjóðverjar og Bretar sem voru þarna sér til heilsubótar um lengri eða skemmri tíma og höfðu gaman af að ræða við okkur skipverjana á þessu fallega íslenska kaupskipi.

 

Hálfdan Henrysson,

formaður Sjómannadagsráðs.

 

 

 

 

 

Til baka takki

Banners neðst á forsíðu 1

Happdrætti DAS 

 

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur