Leit

svæði efst í haus hægra megin

 Hrafnista á Workplace FacebookHrafnista á Facebook

 

 
 

Topp slide - reykjavik

Föstudagsmolar 9. febrúar 2018 - Pétur Magnússon, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 9. febrúar 2018.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

Þorrablótum lokið – takk fyrir!

Á föstudaginn fóru fram skemmtileg þorrablót fyrir íbúana okkar í Kópavogi og Hafnarfirði. Þar með er lokið þorrablótshátíðum á öllum Hrafnistuheimilunum sex þennan þorrann. Við hér á Hrafnistu höfum jafnan lagt mikið upp úr þorrablótum sem við viljum halda með stæl fyrir íbúanna okkar. Flottar og skemmtilegar myndir frá öllum blótunum okkar eru komnar inn á heimasíðuna og sýna þær sannarlega að við á Hrafnistu kunnum að halda hátíðir og hafa gaman.

Mig langar að nota þetta tækifæri og þakka þeim fjölmörgu úr ykkar hópi sem lögðu hönd á plóginn við þorrablótin okkar. Það er mikið aukalega lagt á sig við að gera þetta svona glæsilegt og kann ég ykkur bestu þakkir fyrir ykkar framlag við að gera góðar Hrafnistur ennþá betri!

 

109 hjúkrunarfræðingar starfa á Hrafnistu

Til fróðleiks létum við á dögunum taka saman hve margir hjúkrunarfræðingar vinna á Hrafnistu.Taldir voru allir hjúkrunarfræðingar á Hrafnistuheimilunum, hvaða starfi sem þær sinna eða í hvaða prósentu þeir starfa. Einnig eru nokkrir hjúkrunarfræðingar sem eru í tímavinnu og eru þeir taldir með, hvort sem þeir eru reglulega eða koma endrum og sinnum. Niðurstöðurnar eru eftirfarandi:

Hrafnista Reykjavík = 36

Hrafnista Hafnarfirði = 30

Hrafnista Kópavogi = 13

Hrafnista Nesvellir = 10

Hrafnista Hlévangur = 4

Hrafnista Garðabæ, Ísafold = 13

Heilbrigðissvið = 3

Samtals = 109 hjúkrunarfræðingar.

Við munum svo skoða fjölda í fleiri starfstéttum hjá okkur á næstunni.

 

Sumarauglýsingar í gang!

Þó allt sé á kafi í snjó þessa dagana er ágætt að minna sig á að sumarið er framundan. Varðandi sumarið er að mörgu að hyggja varðandi ýmis mál og oft ekki ráð nema í tíma sé tekið.

Nýlega auglýstum við eftir sumarafleysingafólki en líkt og í fyrra þarf að ráða um 200 manns í sumarafleysingastörf á Hrafnistuheimilunum öllum.

Mig langar að nota þetta tækifæri og biðja ykkur að hvetja alla sem ykkur finnst koma til greina, til að sækja um sumarafleysingastörf, því við þurfum sannarlega á öllu góðu fólki að halda.

Ég hef aðeins verið að fá fyrirspurnir utan Hrafnistu af hverju Hrafnista auglýsi svona mikið eftir starfsfólki miðað við sum önnur hjúkrunarheimili. Svarið er í raun einfalt. Raunverulega erum við ekkert að auglýsa meira en margir aðrir, þegar stærð heimila er skoðuð. Við erum jú með um 25% hjúkrunarrýma á Íslandi þannig að einföld tölfræði segir okkur að ekkert sé óeðlilegt við það að við séum með um 25% af auglýsingum hjúkrunarheimila varðandi starfsfólk.

 

Allir með á öskudaginn!

Nú er að koma að skemmtilegri viku varðandi íslenskar hefðir því strax á mánudag er hinn eini sanni bolludagur þar sem borðaðar verða bollur hér á Hrafnistu í þúsunda tali. Fast á hæla bolludagsins fylgir sprengidagurinn þar sem auðvitað verður boðið upp á saltkjöt og baunir. Miðvikudagurinn 14. febrúar er svo öskudagurinn. Á síðustu árum hefur skapast sú skemmtilega hefð hér á Hrafnistu, eins og víða í þjóðfélaginu, að starfsfólk og íbúar klæði sig í búninga – eða setji a.m.k. upp skemmtilegan hatt – í tilefni dagsins.

Sinn er siðurinn á hverju heimili og eru komnar upp auglýsingar þar um á hverjum stað.

Ég vil hvetja ykkur til að vera dugleg að taka þátt og viðhalda þessum skemmtilega sið.

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

 

 

Til baka takki

Banners neðst á forsíðu 1

Happdrætti DAS 

 

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur